28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til 2. umr., hefur áður verið til afgreiðslu í hv. Ed. og tók þar nokkrum breyt. til bóta. Ég vonast til þess að þessi hv. d. verði ekki eftirbátur hv. Ed. að þessu leyti og geri töluverða breyt, til bóta enn á þessu frv. því að það fer ekki hjá því að menn sjái að þess er þörf.

Ég vil taka það enn fram, sem skýrt hefur komið fram áður, að það er engin deila um það hér að framlengja það eina söluskattsstig sem verið hefur í gildi til þess að greiða niður olíu til húshitunar. Það er ekki deilt um þessa tekjuöflun í sjálfu sér. Þm. allir eru sammála um að standa að henni. Hins vegar er deilt um það, hvernig tekjunum af þessu söluskattsstigi eigi að verja. Það var fullt samkomulag nm það á Alþ., þegar gildandi lög voru samþ., að þessum tekjum ætti að verja öllum til þess að greiða niður hitunarkostnað vegna olíu. Það hefur komið fram, að tekjur af þessu eina söluskattsstigi muni verða nokkru meiri, á 2. hundrað millj. kr. meiri en útgjöld sem búið er að ráðast í, og mér finnst sjálfsagt að þær eftirstöðvar verði notaðar eins og til var ætlast af Alþ., til þess að greiða olíuna niður.

Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj, í þessu frv. gert þá breyt. á, að í stað þess að ákveða að verja áfram öllum tekjunum af þessu eina stigi til þess að greiða niður húsahitun með olíu, þá á að taka hluta af upphæðinni frá til annarra og að mínu viti óskyldra þarfa. Við skulum gera okkur grein fyrir því undir hvaða kringumstæðum á að gera þessa breyt. sem stjórnarandstaðan mótmælir harðlega. Það á að gera hana undir þeim kringumstæðum, eins og fram hefur komið í umr. í hv. Ed., að meðalverð á olíu hefur hækkað frá árinu 1974 úr 12.53 á lítra í 20.20 kr. eða um 62%. Það liggur því ljóst fyrir, að jafnvel þó að sá háttur yrði áfram hafður á að tekjurnar af einu söluskattsstigi yrðu notaðar til þess eins að greiða niður húshitun með olíu, þá mundu þær tekjur ekki nægja til þess að jafna þessa miklu hækkun, þannig að ef þeir, sem þurfa að kynda hús sín með olíu, ættu að verða jafnsettir á árinu 1975 og þeir voru á árinu 1974, þá hefði meiri fjáröflun þurft að koma til. Undir þessum kringumstæðum ákveður hæstv. ríkisstj. að gera þá breyt. á frv. að í stað þess eins og stendur í gildandi l. nú, að verja öllum tekjunum af þessu eina söluskattsstigi til þess að greiða niður olíu til húshitunar, þá skuli klipnir af því verulegir fjármunir til annarra þarfa. Með þessu er hæstv. ríkisstj. raunverulega að lýsa því yfir að þeir, sem neyðast til þess að kynda hús sín með olíu, eigi að verða verr settir á árinu 1975 en þeir voru á árinu 1974. Ég sé engin rök sem mæla með því að svo eigi að vera.

En þessar tölur einar sér segja ekki söguna alla. Þar kemur ýmislegt fleira til. Þar kemur t.d. það til, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson nefndi hér áðan, að eftir þeim upplýsingum, sem þm. sjálfir geta mætavel aflað sér, virðist augljóst að í útreikningum Þjóðhagsstofnunar á olíueyðslu er farið mjög vægilega í sakirnar. Það er ekki langt síðan frá því var greint í einu dagblaðanna, en þar var talað við ýmsa forustumenn sveitarstjórnarmála úti á landi og frá því var greint hvað þeir áætluðu að kostaði að kynda hús með olíu. Það voru töluvert miklu hærri tölur en gert er ráð fyrir í útreikningum sérfræðinga sem liggja til grundvallar þessu frv. Þá kemur það einnig inn í þetta dæmi að það er mikill mismunur milli einstakra landshluta í kyndikostnaði, ekki bara milli þeirra, sem nota hitaveitu annars vegar, nota jarðvarmann til húshitunar, og hinna, sem verða að nota olíu, heldur einnig milli landshluta þar sem báðir verða að nota olíu til húshitunar. Það hefur t.d. komið fram í útreikningum, sem stjórn Fjórðungssambands vestfirðinga hefur gert, að það er um 18% dýrara að kynda hús með olíu á Vestfjörðum en kynda hús með olíu á Suðurlandi. Til þess liggja tvær áatæður: Í fyrsta lagi kaldara veðurfar á Vestfjörðum en Suðurlandi og í öðru lagi sú staðreynd að meginþorrinn af húsum í Vestfjarðakjördæmi og raunar sennilega á Norðurlandi vestra líka og jafnvel Austfjörðum eru eldri hús, verr einangruð og verr búin en húsin sem byggð hafa verið hér á Suðurlandi undanfarin ár, og því miklu dýrari í kyndingu þannig að þær meðaltalstölur, sem nefndar hafa verið hér í sambandi við kostnað við húshitun með olíu, eru ekki í alla staði réttar og raunar langt í frá.

Þá hefur það líka töluverð áhrif á þetta mál hvernig hinir ýmsu landshlutar eru staddir varðandi það að eiga von á því að fá húshitun frá jarðvarmaveitu. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir allan almenning, hvort hann má eiga von á því að geta fengið hús sín tengd við hitaveitu á næstu mánuðum eða fáum árum eða hvort menn verða að horfast í augu við það að þurfa að bíða enn í a.m.k. 10–15 ár þangað til slíkt verður mögulegt. Það er e.t.v. ekki rétt að taka tillit til slíks ástands í sambandi við ráðstafanir eins og hér er verið að fjalla um. En hitt gefur auga leið, að þetta er atriði sem almenningur horfir töluvert á. Menn geta kannske frekar sætt sig við að borga mikinn kyndikostnað um skamma hríð, ef þeir vita til þess að þeir eigi í vændum að fá hitaveitu sem muni lækka kyndikostnað þeirra mjög, fremur en ef menn vita að þeir þurfi að borga þennan mikla kostnað mörg ár fram í tímann.

Það hefur komið fram í útreikningum Þjóðhagsstofnunarinnar að meðalkyndikostnaður á mann með olíu er 23028 kr., en hins vegar 6536 kr. á mann ef kynt er með hitaveitu. Hér er um fjórfaldan mismun að ræða samkv. þeim tölum sem hér hafa verið nefndar. Mér er nær að hyggja að það sé frekar um fimm- til sexfaldan mismun að ræða þarna en fjórfaldan mismun. Þá horfumst við í augu við þann vanda að það er sennilega ekki til nokkurt dæmi um það að mönnum sé jafnmismunað á Íslandi og einmitt á þessu sviði. Sennilega er varla til dæmi um það, að maður, sem byggir landshlutann A, sé fimmfalt eða sexfalt betur settur en maður sem byggir landshlutann B, nema í þessu eina máli, í húshitun. Ef við erum þeirrar skoðunar, að ef fólk þarf að bera byrðar, þá eigi að reyna að hafa þær byrðar sem jafnastar á alla, ef þetta er okkar grundvallarlífsviðhorf, þá verðum við að mæta þessu vandamáli, þá verðum við að draga úr þessum gróflega mismun. Við getum þá að sjálfsögðu ekki liðið það, að einn maður sé fjór-, fimm- eða sexfalt verr settur en annar að öllu óbreyttu. Þess vegna finnst mér það alls ekki fráleit hugmynd, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur varpað fram á þskj. 330, að setja verðjöfnunargjald á hitakostnað, vegna þess að andinn í hans till. er sá, að það verði sett verðjöfnun á kyndikostnað í landinu, þannig að það komi ekki niður á manni varðandi kyndikostnaðinn hvar hann hefur kosið sér búsetu á Íslandi. Ég er reiðubúinn til að styðja slíka lausn á þessu máli og sé ekkert athugavert við það þó að hún sé reynd jafnhliða því sem framlengt sé söluskattsstigið og fjár aflað með þeim hætti til þess að greiða niður kyndikostnaðinn. Við hljótum að stefna að því, þm., að það sé sama hvar menn séu búsettir á landinu, þá sé aðstaða þeirra söm og jöfn. Hún er það ekki varðandi kyndikostnaðinn, langt í frá. Það er margfaldur mismunur þar á. Þann mismun eigum við að jafna. Við getum jafnað hann annars vegar með tekjuöflun til niðurgreiðslu á kyndikostnaði, eins og hér er gert ráð fyrir og hins vegar með verðjöfnun, þ.e.a.s. með því að þeir, sem sleppa fjórfalt, fimmfalt eða sexfalt betur en aðrir frá þessum útgjaldalið, verða að taka á sig aukinn kostnað til þess að færa niður kostnað hinna, sem margfalda fjárhæð verða að borga.

Það er ekkert réttlæti í því, að fólk sem verður hvort eð er að borga miklu meira fé en t.d. íbúar höfuðborgarsvæðisins fyrir margvíslega þjónustu, — fólk sem verður að borga miklu hærri flutningsgjöld á vörum, á almennum lífsnauðsynjum, — fólk sem verður að borga miklu hærri fjárhæðir fyrir heilsugæsluþjónustu, læknisþjónustu og annað af slíku tagi, — fólk sem ekki á einu sinni kost á því að njóta sömu þjónustu og íbúar höfuðborgarsvæðisins, — það er ekkert réttlæti í því að utanaðkomandi aðstæður, eins og orkukreppan, setji þetta fólk í þann vanda að það þurfi fyrir þennan eina hluta af framfærslukostnaði sínum að inna af hendi fimm eða sexfalda upphæð á við aðra landsmenn. Við skulum aðeins líta á hag þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Eftir könnunum og upplýsingum, sem ég hef gert og aflað mér, þá virðist það vera nokkuð rétt áætlað að yfir vetrartímann þurfi til þess að kynda íbúð eða venjulegt hús, í kringum 15–20 þús. kr. á mánuði. Þetta er um það bil helmingurinn af dagvinnutekjum þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Það er um það bil helmingurinn af dagvinnutekjum þessa fólks sem fer í það eitt að borga kostnað við að kynda hús þess. Þá er helmingur eftir af dagvinnutekjunum til allra annarra þarfa. Mér er ósköp vel kunnugt um það, að á mörgu íslensku láglaunaheimili er þarna að gerast mikil sorgarsaga í dag, mikil sorgarsaga hjá láglaunafólki, hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Og þeim verður ekki mætt með því einu að láta þá hafa einum og hálfum sinnum 8 þús. kr. röskar til þess að greiða þennan kostnað niður, það sér auðvitað hver maður.

Það er ekki hægt að tala svo um þetta mál að það verði ekki minnst nokkrum orðum á orkumál almennt. Samkv. tölum, sem fyrir liggja, mega þjóðirnar í Vestur-Evrópu vænta þess að þær geti sjálfar framleitt um það bil 2% af þeirri orku sem þær nota. Þjóðirnar á meginlandinu gera sér ekki vonir um að geta sjálfar útvegað sér af eigin rammleik meira en 2% af þeirri orku sem þær sjálfar nota. Þarna erum við íslendingar töluvert á annan hátt settir. Við erum þannig settir að við eigum næga orku, en við höfum hins vegar beislað mjög lítið af henni. Þess vegna hefur orkukreppan komið jafnilla við okkur og þær þjóðir sem engar orkulindir eiga. Þarna hefur skort á hjá okkur í fyrsta lagi framsýni og í öðru lagi heildarstefnumótun í orkumálum. Menn hafa verið að virkja út og suður fyrirhyggjulítið og án nokkurs heildartakmarks eða heildarmiðs, án þess að nokkur raunhæf áætlun hafi verið gerð til langs tíma, eins og sjálfsagt er við verkefni sem þessi, Við hljótum að læra af þessari reynslu, við hljótum að hugsa með okkur sjálfum: Hvað eigum við að gera til þess að fara af þessari röngu braut og nota okkur þær auðlindir, sem landið okkar hefur að bjóða?

Í fyrsta lagi verðum við auðvitað að svara með því að reyna að draga úr olíuinnflutningi okkar eins og framast er kostur og með því að reyna að jafna þann kostnað sem fólkið í landinu verður að bera vegna olíukreppunnar, eins og ég hef fjallað um hér áður, t.d. með skattlagningu, eins og hér er á ferðinni, til þess að greiða niður kyndikostnað og með verðjöfnun á kyndikostnaði. Annað stóra atriðið er að sjálfsögu fólgið í því að hefja mikið átak til þess að virkja bæði jarðvarma og vatnsafl og gera það ekki þannig að vera að tina það upp úr tíu pokum, gera það ekki þannig að hægri höndin viti vart hvað sú vinstri gerir, heldur hafa um þetta áætlunargerð til langs tíma, þar sem séð sé fyrir þörfum ekki aðeins ákveðinna atvinnugreina, ekki aðeins ákveðinna landshluta, heldur landsins í heild. Við skulum gera okkur grein fyrir því að virkjanir, af hvaða tagi sem er eru einhver hagkvæmasta fjárfesting sem við getum lagt í hér á landi. Við eigum að ráðast í þessar virkjanir og við eigum ekki að vera feimnir við að gera það með því móti að taka erlend lán til þess, eins og yfirleitt alltaf hefur verið gert, vegna þess að hagkvæmari framkvæmdir en virkjunarframkvæmdir getur ekki hér á landi.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að mér finnst mjög óeðlilegt og mjög óréttlátt að ætla að klípa af þeirri tekjuöflun, sem alger samstaða er um á Alþ. að leggja út í til að greiða niður olíukostnað, kyndikostnað, — klípa af þeirri fjárupphæð töluvert mikla fjármuni til þess að verja til virkjunarframkvæmda. Þetta eru töluvert miklir fjármunir fyrir almenning, sem missir þeirra, en þetta eru ekki stórir fjármunir til þess að hrinda af stað virkjunum í einhverjum mæli. Þarna er um lítið fjármagn að ræða á mælikvarða virkjana, en stórfé að ræða á mælikvarða þess almennings, sem á að taka þessa fjármuni af.