28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég er samþykkur brtt. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar um að framlagið hækki úr 8200 kr. í 10 þús. kr. Ég er enn fremur samþykkur þeirri till. hv. þm. Karvels Pálmasonar, að elli- og örorkulífeyrisþegar, sem fá bætur samkv. 19. gr. almannatryggingalaga, fái tvöfalda greiðslu. Ég lít svo á að þessu söluskattsstigi beri að verja til þess fyrst og fremst að jafna þann aðstöðumun, eftir því sem hægt er, sem nú er orðinn vegna hinnar miklu hækkunar á olíuverði, Ég er hins vegar andvígur þeirri till. hv. þm. Karvels Pálmasonar að lagður verði sérstakur skattur á gjaldskrá hitaveitna, hér í Reykjavík og annars staðar. Mér finnst þetta vera till. sem ekki er rökrétt út frá viðhorfum þessa hv. þm. Þessi hv. þm. má vita það, að sú óðaverðbólga, sem dunið hefur á að undanförnu, hefur einnig bitnað á fólki hér í Reykjavík ekki síður en annars staðar, og skattheimta af þessu tagi mundi bitna á lágtekjufólki, á öldruðu fólki og öryrkjum ekki síður en öðrum. Ég hygg að ef hv. þm. hugsar sig um, þá muni hann átta sig á því, að það er nær að afla þessa fjár með öðru móti en að skattleggja til að mynda þetta fólk.

En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs hér var sú, að mér finnst ekki hægt að fjalla um þetta mál, um bráðabirgðaráðstafanir til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, án þess að ræða lítillega um það meginviðfangsefni okkar á þessu sviði að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu þar sem því verður við komið. Það er sú úrbót sem hefur frambúðargildi, og að henni verðum við að vinna eins fljótt og við mögulega getum. Styrkur af þessu tagi, eins og felst í þessu frv. og l. þeim sem voru í gildi áður, getur ekki verið annað en bráðabirgðalausn, og það, sem öllu skiptir, er að vinna að frambúðarlausn. Við erum sem betur fer þannig settir, að við eigum næga innlenda orku til þess að hita upp öll híbýli okkar og til ýmissa annarra þarfa sem sem olía er nú notuð. Og það er ekki hægt að fjalla svo um þetta mál að ekki sé fjallað um þetta meginatriði.

Það er ákaflega undarlegt, að á sama tíma og þetta vandamál hvílir svona þungt á okkur, þá eru að gerast þau tíðindi að hæstv. ríkisstj. er hreinlega að tefja framkvæmdir á þessu sviði. Það gerðist nú fyrir nokkru að Hitaveita Reykjavíkur hætti öllum nýjum framkvæmdum við lögn hitaveitu í Kópavogi, í Garðahreppi og í Hafnarfirði. Sú töf, sem þegar er orðin, er alvarleg og verður þeim mun alvarlegri sem þetta mál stendur lengur. Ég minnist þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var því haldið fram úr þessum ræðustól af einum að ráðh. núv. ríkisstj., hæstv. fjmrh. Matthíasi Á. Mathiesen, að vinstri stjórnin hefði tafið þessar framkvæmdir. Þetta voru ósannar ásakanir með öllu. Ríkisstj. greiddi fyrir þessum framkvæmdum svo mjög, að Hitaveitunni var gert kleift að leggja í þessa óhemjulegu fjárfestingu á þann hátt að taka meiri hluta hennar af tekjuafgangi sínum árlegum, en aðeins minni hl. að láni. Hins vegar reyndi Hitaveita Reykjavíkur ævinlega að nota þetta mál til þess að hækka gjaldskrá sína. Hún notaði áhuga íbúanna í Kópavogi, í Hafnarfirði og í Garðahreppi sem eins konar kúgunarherferð gegn stjórnvöldum, og þessu lauk hreinlega á því að ég sá mér ekki annað fært sem iðnrh. en að tilkynna Hitaveitu Reykjavíkur, að ef hún stæði ekki við fyrirheit þau, sem hún hefði gefið nágrannabyggðunum, þá yrði gjaldskrárhækkun, sem heimiluð hefði verið, afturkölluð og hún að búa við fyrra gjald. Þessi fjárkúgunaraðferð er enn þá í gangi. Það er deila um það, að Hitaveita Reykjavíkur vill fá allan sinn tilkostnað bættan með því að stórhækka verðlag á hitaveitunni hér í Reykjavík. Það eru ekki nein rök fyrir þeim kröfum sem Hitaveitan gerir þar. Þennan vanda, lagningu hitaveitu í nágrannabyggðirnar verðum við að sjálfsögðu að leysa með því að afla okkur lánsfjár, og það á að vera mjög auðvelt að afla lánsfjár til hitaveituframkvæmda vegna þess að það eru ákaflega arðbærar framkvæmdir. Ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. geri þegar í stað ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þau skemmdarverk, að þessar framkvæmdir skuli tafðar svo sem nú er verið að gera. Það er skemmdarverk gagnvart íbúunum í Hafnarfirði, Garðahreppi og Kópavogi og það er líka skemmdarverk gagnvart þjóðarheildinni, því að hér er um ákaflega stórt þjóðhagsatriði að ræða.

Ég hygg einnig, að undirbúningur framkvæmda við hitaveitu á Suðurnesjum frá Svartsengi hafi tafist mjög óeðlilega að undanförnu vegna þess að hæstv. ríkisstj. hafi ekki séð leiðir til þess að afla þar nauðsynlegs fjármagns. Ég held, að það væri ákafleg æskilegt í sambandi við þetta mál að við fengjum skýrslu frá hæstv. ríkisstj., frá hæstv. orkumálaráðh. og hæstv. viðskrh., sem fjallar um gjaldskrármál, um það hvernig á þessum málum er haldið, og raunar væri gott að fá umsögn fjmrh. um þetta mál, því á hann reynir sannarlega mikið í þessu sambandi.

En það er ákaflega margt fleira sem við þurfum að gera á sviði orkumála ef við ætlum að nýta okkar eigin orku í stað innfluttrar olíu. Við vitum að það eru til fullgerðar áætlanir um hitaveituframkvæmdir í Borgarfirði, einnig á Akureyri, Siglufirði og miklu víðar. Auk þess bíður okkar það verkefni að nýta raforku til húshitunar hvar sem því verður við komið. Á þessu sviði var hafin áætlunargerð í tíð fyrrv. ríkisstj. og ég lagði hér fram skýrslu á sínum tíma, áfangaskýrslu um það, hvernig þessari áætlun væri komið. Hins vegar gerðust þau tíðindi, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, að þessi áætlunargerð var stöðvuð og hefur ekkert verið unnið að henni síðan núv. ríkisstj. tók við völdum. Og það var fleira, sem var stöðvað. Það var stöðvað að leggja stofnlínu frá Suðurlandi til Norðurlands sem átti að hefjast handa um í sept. á síðasta ári og var þá efni í línuna tiltækt hér á Suðurlandi. Það hafa verið gefin um það loforð, að þessi línulögn hefjist loksins nú með vorinu. En svo eru að berast um það lausafréttir að það séu uppi kröfur um að það verði hætt við þessa línulögn á nýjan leik, og mér þætti mjög æskilegt ef hæstv. orkumrh. greindi frá því, hvort þessar frásagnir eru réttar og hvort það standi e.t.v. til að bregðast einnig þessu fyrirheiti um lagningu þessarar línu.

Það hafa engar ráðstafanir verið gerðar til þess að leggja stofnlínu frá Kröfluvirkjun, enda þótt allar líkur bendi til þess að hún geti farið að framleiða orku mun fyrr en menn gerðu sér vonir um. Þar er um að ræða stofnlínur sem þarf að leggja bæði í sambandi við Norðurland og eins til Austurlands. Mér skilst að þetta málefni sé í höndum Rafmagnsveitna ríkisins, en ég veit ekki til þess að neitt hafi verið að því unnið enn þá.

Ég tel að þegar við fjöllum um þetta frv. um bráðabirgðaráðstafanir, þá beri okkur einnig að hafa í frv. ákvæði sem vísi til framtíðarinnar. Ég er ekki sammála því að klípa af þessum tekjustofni til þess að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða, vegna þess að í fyrsta lagi tel ég það vera rangt að skera af þessu fjármagni á þennan hátt og svo vegna hins að þarna er um litla fjármuni að ræða. Þetta sýnir hvað hæstv. ríkisstj. er smátæk, hvað hún ætlar sér að gera lítið. Hún vill ekki gera sér neina grein fyrir því, hvað þetta verkefni er stórfellt ef við ætlum að leysa það eins og þörf er á. Ég vil minna á það, að ef við tökum raforkuna sérstaklega og tökum þau tvö landssvæði sem verða fyrst og fremst að treysta á raforku til þess að hita hús sín, þ.e.a.s. Vestfirði og Austurland, þá mun láta nærri að línur um Vestfirði til rafhitunar húsa muni kosta um einn milljarð kr. og auk þess þurfi að fjárfesta í varastöðvum um 500 millj. kr., þ.e.a.s. 1.5 milljarðar vegna Vestfjarða. Kostnaður vegna Austurlands er áætlaður að vera ámóta mikill. Aðeins þessi tvö atriði eru 3 milljarðar kr. Það hefur verið sagt að stofnlínan, sem á að tengja Suðurland og Norðurland hafi átt að kosta á sínum tíma 1 milljarð kr. En með gengislækkuninni hefur ríkisstj. að sjálfsögðu hækkað þá upphæð til allmikilla muna.

Þetta eru ákaflega kostnaðarsamar framkvæmdir. Hitaveituframkvæmdirnar munu kosta ákaflega mikið fé og raforkuframkvæmdirnar ekki síður. En þetta eru framkvæmdir, sem við verðum að ráðast í, og þetta eru framkvæmdir, sem við getum ráðist í. Eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson minnti á áðan telur ríkisstj. engin tormerki á því að fá lánsfé sem nemur milljörðum og aftur milljörðum kr. til byggingar járnblendiverksmiðju. Henni ætti þá ekki að verða skotaskuld úr því að afla fjármuna til þessara framkvæmda sem eru þjóðhagslega ákaflega hagkvæmar. Það er af þessari ástæðu sem ég vil flytja brtt. við þetta frv., og hún er á þá leið að e-liður 2. gr. orðist svo:

„Til þess að fullgera framkvæmda- og fjármögnunaráætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað innfluttrar olíu. Verði áætlunin við það miðuð að lokið verði við jarðvarmaveitur, þar sem þær eru hagkvæmar, á árinu 1977 og að fyrir lok þessa áratugs eigi landsmenn kost á nægri raforku til húshitunar og annarra þarfa. Í áætluninni verði ákveðnar virkjanir, samtenging allra orkuveitusvæða landsins og breyting á dreifikerfum til að ná þessu marki, enn fremur árleg fjáröflun með innlendum sparnaði og erlendum lántökum.“

Hér er ekki verið að leggja til að klipin verði nein umtalsverð upphæð af því gjaldi sem á er lagt til þess að jafna aðstöðumun manna að því er varðar húshitun. Það eru ekki fjármunirnir, sem þarna skipta máli, heldur að með slíkri samþykkt, með slíkri viðbót væri Alþ. að marka stefnu sem ég tel vera ákaflega brýna. Alþ. væri að lýsa því yfir, að það teldi að þannig bæri að halda á málum að hitaveituframkvæmdum yrði lokið á árinu 1977 og að raforkuframkvæmdum yrði hagað þannig að næg raforka yrði til húshitunar og annarra þarfa hvarvetna um land í lok þessa áratugs. Þetta er framkvæmanleg stefna, en hún er því aðeins framkvæmanleg að við höfum manndóm til þess að gera um þetta áætlanir og framfylgja þeim. Til þess þarf mikla fjármögnun, til þess þarf skynsamlega hagnýtingu á vinnuafli, en þetta er eina leiðin til þess að bægja frá til frambúðar afleiðingunum af olíuverðshækkuninni. Mér finnst einmitt að ákvæði af þessu tagi eigi heima í þessu frv., því að í því felst það, að við setjum okkur það mark að endanlegar aðgerðir til þess að nýta innlenda orku taki við af þeim bráðabirgðaaðgerðum sem við erum nú að taka ákvarðanir um.

Brtt. mín er skrifleg og of seint fram komin og ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða.