20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

11. mál, launajöfnunarbætur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er ekki til þess að bera af mér sakir, heldur hitt, að ég vil leiðrétta það, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að allir þingflokkar, sem hér ættu fulltrúa í deildinni, hefðu verið búnir að samþ. 15% gengislækkun og sambandsslit vísitölunnar og verðlagsins. Ég mótmæli þessu mjög harðlega af hálfu okkar Alþfl.-manna og veit ekki til þess að þetta atriði hafi nokkurn tíma komið þar til umr. (Gripið fram í.) Ekki til umr. í okkar hópi. Það eru fleiri þm. en ég sem geta vottað það. Hins vegar var okkur öllum ljóst, að fram hjá einhvers konar kjaraskerðingu ákveðinna starfshópa í landinu yrði ekki komist. En að þessir hlutir hafi verið bornir upp í þingflokki Alþfl., því mótmæli ég harðlega, og því síður að þeir hafi nokkurn tíma verið samþ. þar. — Þetta vildi ég að kæmi fram jafnframt fullyrðingum hæstv. forsrh.