04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeirri fróðlegu skýrslu, sem nú hefur verið útbýtt um lánveitingar úr Byggðasjóði, vil ég aðeins undirstrika það, að það er staðreynd, sem ekki verður í móti mælt, að lánveitingar bæði þessa sjóðs og annarra fjárfestingarsjóða verða til þess að nú eru skip í Reykjaneskjördæmi með mestan meðalaldur á landinu. Sú endurnýjun, sem þar hefur farið fram, hefur að mestu leyti verið í því fólgin að Reykjaneskjördæmi hefur tekist að kaupa eitt og eitt gamalt skip utan af landsbyggðinni. Og ég vil algerlega mótmæla því, sem hv. 3. þm. Austf. og framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar sagði, að Reykjaneskjördæmi njóti svo góðs af álverinu að þess vegna sé engin þörf á að byggja upp, skilst manni, skipastól þar með svipuðum hætti og annars staðar. Ég sé ekki hvernig Grindavík, Sandgerði, Keflavík, Hafnir eða Vogar — þessir staðir njóti sérstaklega góðs af álverinu. Ég held að þessir staðir hafi ekki heldur notið góðs af návistinni við Keflavíkurflugvöll, heldur sé þar um harða samkeppni að ræða. Nú lítur helst út fyrir að hinn forni atvinnurekstur á Suðurnesjum, sjósóknin, eigi í meiri vök að verjast en nokkru sinni fyrr, m. a. vegna þessara furðulegu ákvæða um að ekki megi lána úr Byggðasjóði til endurnýjunar eða til skipakaupa í Reykjaneskjördæmi.