04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vil mótmæla þeim fullyrðingum hv. síðasta ræðumanns og raunar fleiri þm. Reykn. að Reykjaneskjördæmi eða íbúar þess njóti einhverra lakari kjara eða fyrirgreiðslu í öðrum stofnlánasjóðum en Byggðasjóði. Þetta er algerlega út í hött. Ég skora á þessa hv. þm. að nefna eitt einasta dæmi þess, að það hafi verið mismunað eftir kjördæmum í hinum almennu fjárfestingarlánasjóðum.

Ég vil minna á það, að í 29. gr. l. um Framkvæmdastofnun ríkisins segir: „Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“ Ég sé enga ástæðu til þess að breyta þessu ákvæði laganna. Ef Reykjaneskjördæmi er að verða svona ólífvænlegt þá fellur það alveg undir hlutverk Byggðasjóðs og þá verður að snúa blaðinu algjörlega við og veita helst lán á það svæði sem á við mesta erfiðleika að etja og vaxandi fólksflótta. En mér finnst aftur að þróun íbúatölu í þessu kjördæmi sé með öðrum hætti en þeim sem þeir þm. Reykn., sem hér hafa tekið til máls vilja vera láta, því að á árinu 1940 er Reykjaneskjördæmi fámennasta kjördæmi landsins með 7.67% af þjóðinni, þá er Reykjavík með 31.45%. En árið 1972 liggur við að mannfjöldi í Reykjaneskjördæmi hafi þrefaldast, því að þá er það komið með 19.43%, en Reykjavík hefur þá aðeins bætt við sig 8.4%, svo að það verður að segja um framþróunina í Reykjaneskjördæmi, að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.