06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, að það var ekki a. m. k. ætlun mín, að af minni hálfu kæmu hér fram neinar afsakanir í sambandi við fjármál Ríkisútvarpsins. Ef nokkuð er, þá eru það ásakanir á mig og félaga mína, sem stóðum að fyrri ríkisstj., að skilja svona við þetta.

Varðandi tekjur útvarpsins og hækkunina á þeim í gegnum árin, þá vil ég minna á það, að þegar útvarpið hóf starfsemi sina, þá voru afnotagjöld þess ámóta há og árgjöld blaðs. Þarna hefur orðið langt bil á milli og á seinni árum hafa afnotagjöld útvarpsins aðeins verið brot af því sem kostar að halda eitt dagblað — aðeins brot af því. Þegar sjónvarpið kemur til sögunnar og jafnvel eftir hækkunina, þá er bæði útvarpsgjald og sjónvarpsgjald lítið meira en áskriftargjöld að tveimur dagblöðum.

Og varðandi það, sem hér hefur komið fram, að það þyrfti að fylgjast með því hvernig fjármununum er varið, þá er það einmitt það sem er verið að gera núna og verður haldið áfram að gera, að fara ofan í þau mál. En varðandi greiðslur fyrir viðvik við dagskrárgerð og annað telja áreiðanlega menn þessarar stofnunar, eins og starfsmenn annarra stofnana í þessu þjóðfélagi, sig vera töluvert bundna af þeim töxtum, sem þar gilda á viðkomandi sviðum. Þess vegna er það, að alls óverðugir eða a. m. k. lítt verðugir túlkendur njóta þeirra taxta, sem settir hafa verið fyrir aðra og getumeiri flytjendur listarinnar. Og það gildir raunar jafnt um höfunda og flytjendur talaðs orðs — og líka um söngvara.