10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi bara leyfa mér, af því að ég gat ekki verið hér við 2. umr. málsins og ég sé að það hefur verulega áunnist á milli 2. og 3. umr., að þakka hv. nm. fyrir störf þeirra í þágu málsins. Það orkar ekki tvímælis að hér er mjög til bóta farið. Hitt geta menn deilt um, hvort þeir vilja ganga lengra til þessarar handarinnar eða skemur. Það er ekki nema eðlilegt að um það geti verið deilt. En mér sýnist að hér hafi verið fundin mjög skynsamleg leið í þeim atriðum, sem mestu máli skipta, og frv. virðist sigla út úr þessari hv. d. í dag, enda þarf það að fara að hraða ferð sinni. Ég endurtek þakkir mínar til hv. nm. fyrir störf þeirra og dm. þegar þeir verða búnir að afgr. frv.