12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta þau ummæli hv. þm. Steingríms Hermannssonar, að ég hafi talið að þessi verksmiðja ein út af fyrir sig gæti orðið ofurefli í okkar atvinnu- og efnahagslífi. Ég minnti aðeins á það, að ef erlendu fjármagni yrði beint hingað í stórum stíl, þá yrði e. t. v. fljótlega um ofurefli að ræða. Ég man ekki betur en á sínum tíma hafi á þessa hættu verið bent allsterklega bæði af honum og ýmsum öðrum forustumönnum þess flokks, sem hann tilheyrir, þegar áform viðreisnarstjórnarinnar voru hvað hæst á lofti. Þar af leiðandi er ekkert ósamræmi í minni skoðun þarna og skoðun hv. þm.

Ég geri mikinn greinarmun á stóriðju hvort hún er erlend eða innlend. Ég tók það skýrt fram við 1. umr. málsins, ég tók það einnig fram nú. Ég óttaðist aðeins að það væri stefnt að því, — það væru ýmsar blikur á lofti, — að hér væri um að ræða fyrsta áfanga að því marki að erlend stóriðja ryddi sér til rúms. Ég veit um óskir í því skyni og hv. þm. veit enn betur um þá fjölmörgu aðila sem að sækja. Hann hefur gefið góð loforð um það, og ég vona að við það verði staðið, að þeirri ásókn verði svarað mátulega varlega. Ég geri einnig mikinn mun — og vil þar svara líka hæstv. iðnrh. — á manneldisframleiðslu okkar eða framleiðslu á áli og málmblendi hins vegar. Ég geri á því alveg gífurlegan greinarmun og ég trúi ekki öðru en hæstv. iðnrh. geri það einnig í hjarta sínu. Hann leggur ekki að jöfnu ál og málmblendi annars vegar eða fisk og kjöt hins vegar. Ég er sannfærður um það. Þar af leiðandi þarf engar skýringar okkar á milli varðandi þetta atriði.

Í sambandi við það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson harmaði varðandi ummæli mín um það, sem bréfað hefði verið hér frá einhverjum einstökum sérfræðingi, þá vil ég aðeins taka það fram, að ég á eftir að sjá það að húshitunarmál okkar almennt t. d. verði leyst samhliða þessu máli. Á meðan ég sé ekki mikla tilburði í þá átt heldur, þá tek ég ekki algilt mark á orðum einstaks manns þótt sérfræðingur sé.

Hæstv. iðnrh. kom hér að nokkrum atriðum í minni ræðu. Hæstv. iðnrh. fór vísvitandi rangt með það að ég hefði undrast á nokkurn hátt stóriðjutal Jóhannesar Nordals. Ég undraðist það ekki neitt. Ég lagði heldur áherslu á það einmitt, hve áhugi hans fyrir stóriðju almennt var mikill í grein hans, og ég gagnrýndi þennan áhuga hans. Ég vænti þess, að áhugi stjórnvalda sé ekki sá sami og kemur þar greinilega fram, og ég gagnrýni þennan ágæta mann jafnt fyrir því hvort hv. þm. Magnús Kjartansson hefur skipað hann formann einhverrar tiltekinnar n. eða ekki. Það skiptir mig ekki nokkru máli. Ég var aðeins að gagnrýna áhuga hans, hve mér þótti við lestur greinarinnar áhugi hans vera fyrirvaralaus og hve mikil áhersla var lögð á þennan stóriðjuþátt og þá á ég fyrst og fremst við stóriðju í eigu útlendinga, því að hæstv. ráðh. er áreiðanlega ekki frekar en ég búinn að gleyma viðreisnaráformunum um málmbræðslurnar 20 og þá ráðgjöf sem þessi ágæti maður átti þar að meðal annarra. Það var þetta sem ég gagnrýndi fyrst og fremst, en ekki að ég undraðist þetta nokkuð. Grein hans kom mér ekki neitt á óvart. Ég vildi aðeins reyna að fá tekin af öll tvímæli um það, að hæstv. ráðh. væri ekki fullkomlega sama sinnis. (Iðnrh.: Hvenær lagði hann til, að það væru byggðar 20 álbræðslur?) Ja, hann lagði það ekki til, en um þetta voru viss áform og hann var mikill þátttakandi í sambandi við öll áform um þetta. (Iðnrh.: Voru það áform frá viðreisnarstjórninni?) Já, það voru áform viðreisnarstjórnarinnar, mjög skýrt fram tekin, túlkuð af núv. þm. Sjálfstfl. mjög greinilega og aðaltalsmanni þess flokks á ritvellinum. (Iðnrh.: Ekki átti hann sæti í viðreisnarstjórninni.) Nei, en ætli hann hafi ekki vitað nokkurn veginn um hug hennar. Ég er á því að það verði mjög erfitt og skil eiginlega ekki hæstv. iðnrh., hvað hann leggur mikla áherslu á að sverja hv. þm. Eyjólf Konráð af sér, en get þó kannske fyrirgefið honum það.

Ég get fyrirgefið hæstv. ráðh. gleymsku hans gagnvart fsp. minni um orkurannsóknirnar, vegna þess að þær voru fram komnar fyrir mánuði og ég var aðeins að ítreka þær hér. Ég á verr með að fyrirgefa hæstv. ráðh. það að hann skuli telja fsp. mínar, sem ég skal endurtaka hér, bera vitni um heimsku og þekkingarskort hjá mér varðandi þetta mál og ég viti hreinlega ekki um hvað ég sé að spyrja. Ég spurði orðrétt:

„Eiga einhverjir útlendir aðilar, nánar tiltekið t. d. svisslendingar, að koma inn í þetta, ráða jafnvel ferðinni í virkjunarrannsóknum okkar?“

Ég tel mjög nauðsynlegt að þær raddir, sem hafa heyrst um þetta, verði kveðnar niður, og ég tel hæstv. iðnrh. rétta manninn til þess að lýsa því yfir hér að slíkt komi vitanlega ekki til greina, að útlendingar eigi að fara að ráða í einhverju virkjunarrannsóknum okkar íslendinga og hafa þar á bein áhrif. Þetta var fsp. mín, sem ég ítrekaði áðan. (Iðnrh.: Þessu svaraði ég skýrt og skorinort áðan.) Já, ég fagna því líka að hæstv. ráðh. svaraði því, en hann gat þá látið fullkomlega vera að tala um að ég ruglaði þarna einhverju saman og vissi ekki hvað ég væri í rann og veru að spyrja um.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hlustaði vitanlega á þessar fsp. á sínum tíma og svaraði þeim nákvæmlega, án allra vífilengja eða án neinna dylgna um heimsku eða þekkingarskort hjá mér. Hann sagði einmitt orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því, að á síðasta flokksþingi Framsfl. var gerð samþykkt, þar sem tekið var af skarið með það, að Framsfl. telur alls ekki og aldrei koma til greina að erlendir aðilar taki þátt í virkjunarrannsóknum okkar eða virkjunum. Og ég get sagt hv. þm. að ég átti mjög ríkan þátt í samþykkt þeirrar ályktunar, sem var samþ. shlj. Það fer ekkert á milli mála.“

Þetta sagði hv. þm. Steingrímur Hermannsson og gekk miklu lengra þarna en ég gerði í minni fsp. — miklu lengra, þar sem hann segir „að erlendir aðilar taki þátt í virkjunarrannsóknum okkar.“

Ég átti vitanlega ekki við neina ráðgjöf í þessum efnum. Það veit hæstv. iðnrh. mætavel. En ég fagna því að hann tók það skýrt fram í lokin að það var aðalatriðið og til þess var fsp. fram borin, að íslensk stjórnvöld eigi að ráða ferðinni í einu og öllu og ráðgjöf sé vitanlega allt annað, sem komi vel til greina, en öll ákvarðanatekt sé og verði í höndum íslenskra stjórnvalda. Ég fagna því sannarlega að hæstv. ráðh. skyldi gefa þessa yfirlýsingu vegna ýmissa hviksagna sem ég var einmitt að fá kveðnar niður með þessum hætti.

Við getum svo síðar rætt um það hvort manneldisframleiðsla okkar eða framleiðsla okkar á heykögglum eða áburðarframleiðsla okkar til að græða lífríki t. d. okkar lands sé eitthvað sambærileg við málmbræðslu eða álverksmiðju. Ég er reiðubúinn til þess hvenær sem er, þó að ég geri það ekki nú. En ég veit og er sannfærður um það, þrátt fyrir það að hæstv. ráðh. segði þetta áðan, að hann gerir á þessu gífurlegan mismun, nákvæmlega eins og ég.