12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

172. mál, endurskipulagning utanríkiþjónustunnar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin þótt ég verði að lýsa yfir vonbrigðum mínum með efni þeirra. Eins og hæstv. ráðh. tók fram hefur ekki neitt í þessu gerst umfram þá gagnaöflun sem við minntumst hér báðir á.

Hæstv. ráðh. kvaðst hafa gert örlitla tilraun þess að fá aðstöðu til að opna sendiráð í Asíu og Afríku, hann hefði lagt fram óskir um fjárveitingar til þeirra verkefna, en þær hefðu ekki fundið náð fyrir augum fjárveitingavaldsins. Ég er alveg sannfærður um að ef hæstv. ráðh. hefði lagt á þetta áherslu þá hefði honum tekist að koma fram einhverri slíkri fjárveitingu. Ég þekki það af störfum í rn. að ráðh. verða stundum að beita sér dálítið til þess að koma fram málefnum sem þeir hafa áhuga á, og ég efast ekki um að hæstv. ráðh. hefði getað fengið slíka fjárveitingu ef hann hefði lagt á það nægilega áherslu. En hitt þekki ég ákaflega vel, að fjvn. hefur þá vinnuaðferð að hún velur það úr sem hún telur að bæði sé mikilvægt og stjórnarvöld leggi áherslu á hverju sinni.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri viðkvæmt mál að raska gömlu sendiráðakerfi, og það er vissulega alveg satt. En ég held að við megum ekki taka allt of mikið tillit til þessarar viðkvæmni. Við skulum gera okkur ljóst að það hafa orðið gerbreytingar á öllum samskiptum, bæði samgöngum og samskiptum þjóða, með breytingum á ferðalögum og með fjarskiptum og öðru slíku. Það gamla starf, sem sendiráð og sendiherrar unnu þegar þeir voru næsta einangraðir fjarri heimalöndum sínum, er allt annars eðlis en það starf sem unnið er í dag. Og við vitum það ákaflega vel að þegar við þurfum að láta fjalla um einhver mikilvæg mál sem snerta hagsmuni okkar í samskiptum við aðrar þjóðir, þá sendum við yfirleitt sérstaka menn héðan að heiman til þess að rækja þau málefni, stundum ráðh., stundum embættismenn og stundum stjórnmálamenn. Þetta er ekki falið sendiráðunum. Sendiráðin eru fyrir utan öll meginatriði í utanríkisþjónustu okkar. Þau eru ákaflega staðnaðar stofnanir að því er mér hefur virst. Og ég held að við, sem höfum að sjálfsögðu takmarkaða fjármuni til að verja til slíkra verka, hljótum að reyna að líta á það ferskum augum hvernig við getum varið þeim fjármunum á sem sjálfstæðastan og gagnlegastan hátt.

Það er, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi, ekki vansalaust að við skulum ekki hafa sendiráð t. d. í Asíu. Og ég verð að segja það eins og er, að mér finnst það til marks um hina ákaflega kunnu kínversku kurteisi, að Kínverjar skuli vera með sendiráð hér í Reykjavík, en við skulum líta á Kína sem einhvern botnlanga af Danmörku. Ég tel að þetta sé ákaflega annarleg skipan og við hljótum að verða að breyta henni mjög fljótlega. Mér virðist einnig að það sé ekki einungis að ekki hafi orðið neinar efndir á fyrirheitum sem gefin voru 1971, heldur sé vaxandi stöðnun í þessu kerfi okkar. Sendiherrar okkar dveljast lengur og lengur í þeim löndum þar sem þeim hefur verið falið að starfa. Ég hygg að þess séu dæmi að sendiherrar hafi verið í einu tilteknu landi allt að því 10 ár og það er að verða þannig í mörgum löndum að sendiherrar íslendinga eru að verða oddvitar í hópi sendiherra og verða þá að taka á sig ákaflega miklar og merkilegar skuldbindingar í samkvæmislífinu og síst er að lasta það. En hvort við eigum að leggja áherslu á að verja starfskröftum sendiherra okkar í slík verkefni, það dreg ég æðimikið í efa.

Hæstv. ráðh. minntist á að það hefði reynst viðkvæmt mál þegar viðreisnarstjórnin talaði um að fækka sendiráðum á Norðurlöndum og ég kannast ákaflega vel við þetta. En engu að síður finnst mér að ástæða sé til að halda einmitt þeirri stefnu ekki síst til streitu. Við tökum ákaflega mikinn þátt í norrænu samstarfi. Þar er um að ræða nánustu samvinnu sem við höfum við nokkur ríki, þar er um að ræða verulega samvinnu af hálfu Alþ. og okkar alþm., þar er um að ræða samvinnu af hálfu embættismanna, þar er um að ræða samvinnu ýmissa almennra stofnana í landinu o. s. frv. Þarna er um ákaflega lifandi samvinnu að ræða, og ég tel að sendiráðin séu komin út fyrir þessa lífandi þróun, þau séu orðin eins konar leifar frá gamalli tíð. Það er í sjálfu sér ágætt sem hæstv. ráðh. greindi frá að utanrmn. eða fulltrúar frá utanrmn. mundu fá að sjá þær skýrslur sem unnar hafa verið af Ólafi Ragnari Grímssyni og Pétri Eggerz sendiherra og öðrum sendiherrum. En á hitt vil ég leggja áherslu sem ég gerði áðan, að það hlýtur að vera verkefni utanrrh. hverju sinni að koma með till. um stefnu. Það er ekki hægt árum saman að ræða svona hluti við menn án þess að hæstv. ráðh. geri upp hug sinn um það, hvaða stefnu hann vill taka upp, hvaða breytingar hann telur óhjákvæmilegt að gera, og láti þá á það reyna, hvert fylgi þær hugmyndir geta haft. Og ég vil leggja á það áherslu við hæstv. ráðh., að ég vænti þess í áframhaldi af því, sem hann sagði hér áðan að sér þætti miður hvað þetta starf hefur gengið seint, að hann geri núna gangskör að því að taka þennan mikilvæga þátt til endurskoðunar alveg á næstunni.