17.03.1975
Neðri deild: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 347 hef ég leyft mér að bera fram ályktunartill. um beislun orku og orkusölu á Austurlandi.

Ég bar sams konar till. fram á síðasta Alþ., en hún hlaut þá ekki afgreiðslu. Um þá till. fóru fram allítarlegar umr. og læt ég mér að nokkru nægja að vísa til þeirra umr. En fyrir hv. n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, vil ég upplýsa að þær umr. er að finna í 18. hefti Alþingistíðinda frá síðasta þingi, dálki 2488 og áfram.

Að undanförnu og á undanförnum þingum hafa umr. um orkumál verið allítarlegar hér á hinu háa Alþ. og er af þeim ástæðum e. t. v. ekki ástæða til þess að ræða það mál ítarlega nú. Ég vil þó víkja að nokkrum þáttum þeirra, sérstaklega þeim þáttum sem snúa að Austurlandi, en um beislun orku þar fjallar þessi ályktun

Ég hef áður tekið það fram í umr. um orkumál að ég hygg að stefnan í orkumálum sé þríþætt: Í fyrsta lagi, að við þurfum að beita okkur að því að fullnægja innlendri eftirspurn eftir orku, raforku, og það gerum við helst með smáum eða smærri og í hæsta lagi miðlungsvirkjunum og síðan samtengingu þeirra.

Það á að vera annar þátturinn að hraða eftir föngum samtengingu orkuveitusvæðanna í landinu. Samtengingin felur það einnig í sér að þá getum við siglt fyrir þau sker hreppasjónarmiða sem vissulega hafa orðið okkur dragbítur á allar framkvæmdir í orkumálum og geta orðið það áfram ef ekki verður ráðin bót á með því að tengja orkuveitusvæðin í landinu.

Í þriðja lagi er höfuðstefnan sú að beisla hina miklu ónýttu orku, sem við þykjumst hafa yfir að ráða, og verja þeirri orku að meginhluta til, til stóriðju og þar með sölu á henni úr landi til erlendra aðila sem eru í færum um að gerast kaupendur að þeirri orku.

Till. þessi er í fyrsta lagi um það að lokið verði hið fyrsta rannsókn og byggingu Fljótsdalsvirkjunar en í áætlunum, sem gerðar hafa verið, er hin fyrirhugaða Austurlandsvirkjun í þremur áföngum. Í fyrsta lagi Fljótsdalsvirkjun þar sem gert er ráð fyrir því að stífla Jökulsá í Fljótsdal við Eyjabakkafoss og leiða í skurðum vatnið frá þeirri vatnsmiðlun í Gilsárvötn á Fljótsdalsheiði og þaðan í jarðgöngum niður til virkjunar sem yrði nálægt Valþjófsstað í Fljótsdal. Þetta vatnsmagn er aðeins 50 m3 á sek. og mundu nægja vegna hinnar miklu fallhæðar, nær 604 m, til þess að knýja 230–240 mw. stöð. Þetta er fyrsti áfanginn og það er einvörðungu um hann sem hér er fjallað. Síðari áfangar eru miklu stórtækari, sem ég hef engan hug á nú að leggja til að veitt verði fé til að rannsaka, en það er um að veita Jökulsá á Dal eftir göngum yfir í þessa vatnsmiðlun í Fljótsdalinn og í þriðja áfanga að upptaka kvíslum Jökulsár á Fjöllum yrði veitt austur við Vaðöldu. Um það ætla ég ekki að fjalla sérstaklega nú. Ég drap á þetta í framsögu minni í fyrra lauslega og þar má sjá heildarramman af þessu.

Það er mál þeirra, sem gerst til þekkja, að aðstaðan í Fljótsdal sé ein sú girnilegasta sem við eigum yfir að ráða. Þar er orkuver, sem nýtir lítið vatnsmagn, staðsett aðeins 25 m yfir sjávarmáli, og þar er um tiltölulega skamman veg að leggja línur til þess staðar sem kjörinn virðist vera t. d. fyrir stóriðju eins og Reyðarfjörður er. Það hefur einnig spurst að erlendir aðilar, áhugaaðilar um stóriðjurekstur, hafi mjög leitað eftir því við íslenska aðila að gerð yrði könnun á þessari aðstöðu austur þar. Nýlegar fréttir herma að svisslendingar hafi boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram fé sem til þess þyrfti að rannsaka fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjunina, óskuldbundið. Það væri nauðsynlegt að fá upplýst hvernig þetta tilboð svisslendinga stendur. Að sjálfsögðu þurfum við íslendingar sjálfir að hafa yfirstjórn rannsókna á virkjunum okkar og eins hvernig að nýtingu orkunnar í landinu er yfirleitt staðið. En það, sem hefur þó verið akkur mestur fjötur um fót í framkvæmdum, er að mjög hefur staðið á rannsóknum, á hagkvæmnirannsóknum, og við megum þess vegna ekki sitja af okkur þau tækifæri sem e. t. v. gefast til þess að fá fjármagn til svo mikilsverðar rannsóknir eins og þarna á sér stað. Ef það er rétt, að . það sé án allra skuldbindinga af okkar hálfu, virðist nokkuð auðgert að taka slíku boði.

Þetta er fyrri hlutinn af ályktun þessari. Um hinn síðara er það að segja að þar er lagt til að kannaðir verði jafnhliða þessum rannsóknum möguleikar á kaupanda, leitað verði eftir kaupanda raforku með stóriðju staðsetta á Reyðarfirði fyrir augum. Ef ráðist verður í svo stóra virkjun sem þarna er gert ráð fyrir, þá er augljóst mál að finna verður kaupanda að þeirri miklu umframorku. Eins og nú stendur virðast ekki önnur tök á því en þau að fundin yrði erlendur kaupandi sem mundi vilja reisa stóriðjuver. Þá er það álit allra þeirra, sem til þekkja, að slíkt iðjuver yrði best staðsett í Reyðarfirði.

Það er auðvitað hægt enn á ný og þörf á að vekja sérstaklega athygli á því, að um leið og við byggjum upp stóriðju á Íslandi, þá má einskis láta ófreistað til þess að sá iðnaður geti verið rekinn án þess að náttúruspjöll eða stórspilling á andrúmslofti eigi sér stað. Um þetta er mikið deilt. En eins og tækninni fleygir nú fram sýnist þó mega nokkurn veginn treysta því að byggja megi slíkan iðnað upp án þess að stórhætta sé á ferðum. Enn fremur er ekki fyrir það að synja að stóriðnað megi setja upp án þess að honum þurfi að fylgja mengun, einhverra stóriðju annars eðlis en þá sem jafnan hefur verið hingað til í boði, eins og málmblendi- og álframleiðsla. En svo er að sjá og heyra að varðandi ferrósilikonverksmiðjuna, sem fyrirhugað er að reisa í Hvalfirði þykjast sérfræðingar nokkurn veginn öruggir um að þeir geti bægt þeim mikla háska frá sem ella kynni að stafa af mengun frá þeirri verksmiðju.

Ástandið í orkumálum á Austurlandi hefur oftsinnis verið til umr. hér á hinu háa Alþ. og þess vegna ættu hv. þm. að vera nokkuð vel kunnar þær ástæður sem í þeim málum eru. Þar hefur það undanfarin ár æ ofan í æ komið upp að haldið hefur við ósköp. Ég minni á ástæðurnar í A-Skaftafellssýslu á s. l. vetri og ég minni á viðhorfin eins og þau voru austur þar í vetur þegar ekki varð séð hvernig leystur yrði hinn mikli vandi sem steðjaði að þegar verksmiðjurekstur færi þar í fullan gang, bræðsla á loðnu o. s. frv. En betur þó rættist en á horfðist um hríð.

Á Austurlandi er nú verið að taka í notkun nýja virkjun í Lagarfossi, en þar hefur vanda að vísu borið að höndum, — vanda sem menn virðast ekki hafa gert sér nægjanlega grein fyrir þegar í þessa virkjun var ráðist, Lagarfossvirkjunina. Fróðir menn telja að í vetur hafi þannig verið ástatt um vatnsmagn í Lagarfljóti að það hefði ekki nægt til þess að knýja vélarnar í eina 4 mánuði. Allir þekkja sögurnar af Grímsá, en þar hefur stórkostlegur vatnsskortur háð rekstri þess raforkuvers og ljóst er að til þess að Lagarfossvirkjun verði að því gagni, sem fyrirhugað var, þarf að grípa þar til ráðstafana. Menn hafa velt þeim vanda mjög fyrir sér undanfarin ár og sýnist sitt hverjum eins og verða vill. Uppi hafa verið hugmyndir um stíflu við foss og hjá inntaksmannvirkjum. En svo háttar til í Fljótsdal austur að þar er hæðarmunur svo lítill t. d. allar götum frá Egilsstöðum og niður úr að veruleg hækkun á vatnsborði mundi þýða að umtalsverðu landi við Lagarfljót yrði sökkt undir vatn. Sá kostur er fjarri því að vera geðfelldur. En ég vil benda á að sú áætlun, sem sérfræðingar hafa gert, að vísu frumáætlun, um fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, — að sá áfangi mundi um leið leysa allan vanda varðandi Lagarfossvirkjunina eins og hún er í dag. Til þess að knýja Lagarfossvirkjun hina nýju að fullu þarf tæpa 40 m3 á sek., en það er nokkurn veginn nákvæmlega það vatnsmagn sem stórvirkjunin í Fljótsdal upp á 230–240 mw. þarf til að snúast. Ég hygg að eins og háttar til í Fljótsdal sé þetta í raun og veru eina frambærilega leiðin til þess að leysa hinn mikla vanda, sem að steðjar vegna Lagarfossvirkjunarinnar, það sé vatnsmiðlun við Eyjabakka. Það er þessa vegna ljóst að á þeim tíma sem orkunnar er mest þörf, yfir háveturinn, vegna vinnslu sjávarafurða og vegna þess að þá leiðir af sjálfu sér að þá er orkunnar mest þörf, þá er hætta á því að orkuþörf landshlutanna hafi ekki verið leyst nema að mjög óverulegu leyti. Árið 1973, í nóv. og des., var vatnsmagn Lagarfljóts langt undir því sem þarf til þess að hreyfa vélasamstæðurnar sem virkjunin er búin, og ég endurtek að um það hefur sérfróður maður upplýst mig að í vetur muni hafa svo háttað til um fjögurra mánaða skeið. Þess vegna er það að þessi till., þótt ráðist yrði í framkvæmd á henni og rannsóknum hraðað á byggingu Fljótsdalsvirkjunar, leysir engan veginn og að engu leyti þann mikla vanda sem steðjar að landshlutanum. Því vil ég minna á það að fyrir nýár var samþ. heimild til handa ríkisstj. að ráðast í virkjun Bessastaðaár sem svo er kölluð. Rannsóknir skortir að vísu mjög um þá virkjun. En uppfylli hún þær vonir sem til hennar standa, þá virðist þar afar girnilegur kostur í boði.

Menn eystra, kunnugir staðháttum, fullyrða að þeim hafi verið það ljóst, bæði hvað snertir Grímsá og Lagarfljót, að mjög mundi skorta á um það löngum og löngum að nægjanlegt vatnsmagn yrði til þess að knýja þau orkuver sem við árnar hafa verið reist. Þessir hinir sömu menn margir hverjir vilja nú halda því fram að allmikil hætta sé á að hinn sami galli sé á um þessa virkjun í Bessastaðaá. En ég legg áherslu á að rannsóknum er ekki nálægt því það langt á veg komið að hægt sé að fullyrða um þessar ástæður. En því hreyfi ég þessu máli sérstaklega að mér hnykkti við er ég las í Morgunblaðinu sunnudaginn 9. mars mjög fróðlega grg, formanns Landsvirkjunar þar sem hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Austurlandi hefur verið ákveðið að hefja rannsókn á Bessastaðaárvirkjun, en hugsanlegt er að hagkvæmara reynist að hún bíði væntanlegrar stórvirkjunar á Austurlandi.“

Ég verð að segja það að þessar upplýsingar eru alveg nýjar fyrir mér. Hann getur þess í þessari grg. sinni, sem hann hafði flutt hjá Sambandi ísl. rafveitna, trúi ég, að telja verði heppilegasta þá röð á framkvæmdum í virkjunarmálum, stórvirkjunarmálum, að Austurland komi ekki til álita fyrr en eftir árið 1984. Ég er að vísu ekki nálægt því nógu fróður um þessi mál til þess að geta dæmt um þessa skoðun hans. En sé svo og ef uppi eru hugmyndir um það að fresta virkjun Bessastaðaár, sem átti að leysa hinn mikla vanda sem á Austurlandi er í þessum efnum og bíður landshlutans í vaxandi mæli, þá þykir mér nú heldur betur stungin tólg og þá að sjálfsögðu, verði þetta ofan á við framhaldsrannsóknir á Bessastaðaárvirkjun, þá þarf að leggja alla áherslu á samtengingu landshlutans við önnur orkuveitusvæði. Virðist þá Krafla vera það svæði sem langeðlilegast væri að tengja Austurland við. Og hvort heldur er að ráðist verði í Bessastaðaárvirkjun nú fljótlega eða ekki, þá er samtengingin jafnsjálfsögð vegna þess að sú stefna að byggja fleiri orkuver af minni gerð eða meðalstærð eykur öryggið gífurlega mikið eftir að samtenging hefur átt sér stað milli helst allra landshluta.

Ég vænti þess og legg á það áherslu, af því að menn hafa fullyrt annað, — ég tek það skýrt fram að ég legg hina mestu áherslu á að hraðað verði lokarannsókn á hagkvæmni Bessastaðaárvirkjunar. Ég legg auðvitað höfuðáherslu á að þar verði ekki rasað að neinu, að rannsóknir, sem treysta megi fullkomlega, færi okkur heim sanninn um að Bessastaðaárvirkjun geti uppfyllt þær vonir sem við hana eru bundnar um að skila nokkurn veginn að jafnaði um 30 mw. orku. En ég kemst ekki hjá því að að mér setji ugg að lesa þótt ekki sé nema það sem maður mundi geta kallað ágiskanir eins og þarna eru hjá stjórnarformanni Landsvirkjunar. Mér kemur út af fyrir sig ekkert á óvart þótt hugmyndir hans standi til þess að í stórvirkjanir verði ekki ráðist á Austurlandi fyrr en eftir 1984. Uppi er og hefur um langa hríð verið allt önnur stefna í stórvirkjunum en sú að hinar dreifðu byggðir nytu sérstaklega forgangs í þeim sökum. Sú stefna hefur lengi verið uppi að raða stórvirkjunum við Þjórsá hverri upp af annarri. Það var byrjað á Búrfelli, þar næst Sigalda og svo Hrauneyjarfoss. Nú lesum við um Sultartanga, og ég man ekki betur en ég hafi séð í Morgunblaðinu í gær að það væri komin upp hugmynd um Gnúpverjavirkjun, stórfrétt það. Og í hvert skipti eru sannanir færðar á að það séu hagkvæmisjónarmið sem ráði vegna þess að þegar einni virkjun sé langt komið, þá er önnur tilbúin til útboðs og auðvitað er þetta allt af skipulagi gert og af samræmdri alúð við þá stefnu, sem Sjálfstfl. ber höfuðábyrgð á, að iðjuverin hafa risið við Þjórsá hvert á fætur öðru og svo virðist vera enn um hríð. Það hafa nefnilega verið veittir peningar og beitt afli og þekkingu til að undirbúa jafnharðan nýjar og nýjar virkjanir á þessu svæði,

Nú hafa hins vegar verið uppi áform um stórvirkjanir víða. Tæplega er hægt að telja Kröflu í röð stórvirkjana þótt áform séu um beislun á 80 mw. Þó nálgast hún það. Hins vegar mun rannsóknum þar ekki enn lokið. En nýlega lýsti hæstv. iðnrh. að ákvörðun um 150–160 mw. virkjun í Blöndu yrði tekin áður eða eigi síðar en ákvörðun um virkjun Hrauneyjarfoss sem þýðir að slík ákvörðun verður endanlega tekin á þessu ári þar sem Hrauneyjarfoss mun vera tilbúinn til útboðs nú þegar eða a. m. k. alla vega upp úr miðju ári. Þessu ber auðvitað að fagna þótt ákvörðunartaka um stórvirkjanir þyrfti helst að haldast í hendur við rannsóknir. En eftir því sem ég best veit eru rannsóknir mjög skammt á veg komnar við Blöndu og kannske ekki miklu lengra á veg komnar heldur en varðandi Fljótsdalsvirkjun, en Fljótsdalsvirkjun var rannsökuð á árunum 1969–1971. Þegar vinstri stjórnin fyrrv. tók við var mjög dregið úr rannsóknum þar 1971–1972 og þeim að kalla hætt 1973 sem varð til mikils tjóns, líka vegna þessa möguleika, þessa glæsilega möguleika á Bessastaðaárvirkjun. Ég skal þó ekkert um það dæma nema það kunni að vera rétt og mögulegt að taka ákvörðun um virkjun Blöndu á þessu ári. Ég fagna slíkri ákvörðunartöku. Ég læt það ekki ráða afstöðu minni hvort iðjuverið er staðsett á Austurlandi eða Norðurlandi vestra. Ég bind aðalvonir við það að okkur takist hið fyrsta að fullnægja innanlandsþörfinni, og það skiptir mig engu höfuðmáli þótt það verði gert með samtengingu orkuveitusvæða, Ég vil aðeins benda á að það að byggja öll stóru orkuverin á sama svæðinu og reisa alla stóriðjuna á sama suðvesturlandshorninu samræmist auðvitað ekki þeirri stefnu sem uppi er um jafnvægi í byggð landsins. Því verða menn að átta sig á, að að því er varðar byggingu stóriðjuvera og stórvirkjana, þá er ekki uppi jafnvægisstefna í byggð landsins, heldur þvert á móti, hún beinist hér að meginafli til öll á aðeins eitt svæði, orkuverin sjálf og iðjuverin í samræmi við það á suðvesturhorninu. Þótt rannsóknum yrði hraðað austur á Fljótsdalsheiði er borin von að þessi virkjun, svo hagkvæm sem hún annars er talin, yrði tilbúin fyrr en á næsta áratug hið fyrsta, tilbúin til að ráðist yrði í framkvæmdir eftir 4–5 ár. En miðað við það að allir sérfróðir menn telja hér langbesta kostinn á stórvirkjun, þá megum við ekki bíða lengur og hraða þessum framkvæmdum á rannsókninni sjálfri.

Ég endurtek það að ég er mjög áfram um að fá sem gleggstar upplýsingar um í hverju fólgið var tilboð svisslendinga sem fullyrt er við mig að þeir hafi gert okkur á s. l. hausti um að lána okkur eða jafnvel kosta alfarið sjálfir rannsóknirnar varðandi fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, þ. e. a. s. Fljótsdalsvirkjunarinnar. Mér er enn fremur kunnugt um að norðmenn höfðu áhuga á þessari virkjun. En ég hygg að það hafi bæði vegna norðmanna og svisslendinga orðið fátt um svör af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ég heyrði það eða las eftir formanni Landsvirkjunar að þeir höfðu þó verið að því spurðir, norðmenn, sem voru fulltrúar frá Norsk Hydro, áður en þeir héldu af landi brott, hvort þeir vildu ekki vera svo góðir að velta fyrir sér að koma til skjalanna og reisa með okkur sjóefnavinnslu á Suðurnesjum. Þetta er stefnan sem uppi hefur verið og fram er haldið, stórvirkjun á Suðurlandi og uppbygging stóriðju á suðvesturhorninu, og kemur engum á óvart svo sterklega sem þessari stefnu hefur verið fram haldið um langt árabil og frá upphafi að sjálfsögðu varðandi stórvirkjanir.

Ég vík aftur að því að aðeins með tvennu móti sýnist mér fljótlega hægt að leysa hinn sára orkuskort sem ríkir á Austurlandi, — aðeins með tvennu móti. Við mundum auðvitað, forustumenn í félagsmálum austur þar, taka langt fram yfir aðra kosti virkjun Bessastaðaárinnar þar sem framleiðsla raforkunnar yrði innan héraðs, ef svo má að orði komast. En sýnist það ekki fært, þá á án tvímæla að leggja alla áherslu á tengingu við önnur orkuveitusvæði og þá sýnist þar bera af möguleikinn um samtengingu við Kröflu. Þessi lausn orkumála Austurlands þolir enga bið, á það hafa verið færðar sönnur með reynslu undanfarinna ára. Ég vil ekki taka sem neina niðurstöðu ákvarðana þær upplýsingar sem koma fram í máli formanns landsvirkjunarstjórnar og ég vitnaði til hér áðan. Þó hafa skoðanir hans í ýmsum efnum haft nokkuð ríka tilhneigingu til að rætast og verða að veruleika. En svo er nú skammt á veg komið ýmsum rannsóknum sem að framkvæmdum lúta í þessum efnum, að ég hygg að mjög þurfi að endurskoða alla afstöðu til þessara mála áður en sú heildarstefna verðum mörkuð sem þar má lesa. Þó sýnist það nokkuð auðgert mál að næstu stórvirkjanir verði á því sama svæði, sem hinar tvær, við Búrfell og við Sigöldu. Sú næsta verður í Þjórsá einnig, og eins og komið er, þá er það alveg auðgert mál, rannsóknum er það langt á veg komið og engin önnur er sambærilega á vegi stödd og virkjun við Hrauneyjarfoss. Hitt er svo annað mál, sem þarf að athuga mjög gaumgæfilega, hvort það sé rétt stefna, þjóðhagslega einnig, að haldið verði áfram virkjun Þjórsár á þessu sama svæði í framhaldi af Hrauneyjarfossvirkjun, þ. e. a. s. við Sultartanga, og síðan, eins og nú er komið upp í Morgunblaðinu í gær, Gnúpverjavirkjun eða hvað það hét nú?

Allt virðist þetta vera á eina bók lært. En það hygg ég að muni áður en lýkur verða mjög örðugt til samkomulags, a. m. k. ef svo á að halda fram stefnunni sem nú hefur lengi horft og raunar frá upphafi.

Ég endurtek það að ég vísa til þeirra umr., sem áður hafa farið fram um þessi mál, ítarlegra umr., og stytti því mál mitt, en legg svo til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. iðnn.