20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki er seinna vænna að fá hér á Alþ. almennar útvarpsumr. um hinn ískyggilega efnahagsvanda sem nú sækir að og fer stöðugt vaxandi. Þessi vandi birtist fyrst og fremst í því að tekjur manna hrökkva ekki lengur fyrir brýnustu lífsnauðsynjum á þúsundum heimila víðs vegar um land, og hann stafar af þeirri óheillastefnu sem nú ræður ríkjum í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Á árunum áður en vinstri stjórnin kom til valda fékk þjóðin að kynnast svipuðum þrengingum og nú eru aftur að hefjast. Gengislækkunum var þá skefjalaust beitt til að halda niðri lífskjörum fólksins og ár eftir ár var slegist um það, hvort launamenn ættu að standa varnarlausir gagnvart verðbólgunni eða fá vísitöluuppbætur á laun. Samdráttarstefnan var þá svo mögnuð að atvinnuleysi skall á um land allt og afleiðingin varð sú að fólkið flýði þúsundum saman af landi brott, enda voru þá launakjörin langtum lægri en í öllum nálægum löndum.

Enn er alls ekki sýnt hvort samdráttarstefna hinnar nýju stjórnar mun aftur hafa atvinnuleysi í för með sér, enda koma ekki áhrif af þess háttar aðgerðum í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum og enn er reyndar óljóst hversu langt verður keyrt í samdráttarátt. En hitt er ljóst, að kjaraskerðingin hefur tekist eins og til var ætlast og Ísland er nú aftur orðið láglaunasvæði með langtum lakari lífskjör en í öllum nálægum löndum.

Þjóðarframleiðsla íslendinga hefur undanfarin ár verið mjög svipuð og þjóðarframleiðsla norðmanna, ef miðað er við íbúatölu. Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar var þjóðarframleiðsla norðmanna um 872 þús. kr. á hvern norskan einstakling á s. l. ári, en 923 þús. kr. á hvern íslending. Hins vegar er nú orðinn mikill munur á launakjörum í Noregi og hér á Íslandi.

Samkv. upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd er meðalkaup verkamanna, þar með taldir aðstoðarmenn í fagvinnu, bílstjórar og kranastjórar, miðað við vegið meðalkaup í dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu, tæpar 314 kr. á Íslandi, en reiknað með sama hætti er samsvarandi kaup í Noregi 711 kr., í Svíþjóð 749 kr. og í Danmörku 773 kr. Meðalkaup verkamanna er sem sagt orðið 127% hærra í Noregi en á Íslandi, enda engin furða að munurinn sé orðinn mikill eftir að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað í verði hér á landi um 60-74% á örfáum mánuðum.

Dettur nú einhverjum í hug að þetta geti talist eðlilegt ástand eða eru þeir margir sem trúa hví í raun og veru að skipting þjóðartekna á Íslandi sé eðlileg og sanngjörn, þegar fyrir liggur að enda þótt heildartekjur þjóðarinnar standi á svipuðu stigi miðað við íbúafjölda og gerist hjá nálægum þjóðum, séu verkamannalaunin meira en helmingi lægri? Enginn neitar því að vísu að nokkrir erfiðleikar hafa steðjað að. Á það má benda að verðlag á ýmsum afurðum okkar hefur lækkað frá því sem það varð hæst á árinu 1973. En þá verða menn einnig að skilja að á því ári hækkaði útflutningsverðlag á afurðum landsmanna með einstæðum hætti, en hefur síðan verið að síga í sama farið aftur. En í dag er þó verðlag afurða talsvert hærra að jafnaði en það var fyrir þessa miklu hækkun.

Svo að dæmi sé tekið um fiskimjölið, er staðreyndin sú að við seldum aldrei neitt af mjöll á þessu uppsprengda verði, sem mest er vitnað í, eða í mesta lagi aðeins lítið brot af framleiðslunni. Við höfum bæði lítið að selja, þegar verðið var sem hæst, og vorum bundnir af fyrirframsamningum, en þegar aftur kom að því að selja mjöl í stórum stíl var þessi óvænta verðsveifla gengin yfir.

Undanfarna mánuði hefur verð á fiskimjöli verið tæpir 4 dollarar á próteineiningu, en árið 1912 var það að meðaltali 3.45 dollarar. Þær upphrópanir um verðfall á mjöli, sem dunið hafa yfir þjóðina að undanförnu, eru einfaldlega aðeins hálfur sannleikur, og þegar atvinnurekendur og talsmenn þeirra hafa verið að býsnast yfir því seinasta árið að allt væri að farast vegna versnandi stöðu þjóðarinnar út á við, hefur það algerlega stangast á við þá staðreynd að samkv. opinberum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar rýrnuðu þjóðartekjurnar lítið sem ekkert frá árinu 1973 til 1974, heldur stóðu nánast í stað. Verðfallið var sem sagt ekki meira en svo, að vaxandi framleiðsla gat bætt það upp. En það, sem aftur á móti hefur gerst, er að núv. ríkisstj. hefur markvisst notfært sér aðsteðjandi erfiðleika, notað sér erlenda dýrtíðaröldu og óhóflega gjaldeyriseyðslu til að koma fram því takmarki sínu að gjörbreyta tekjuskiptingunni í landinu. Það hefur svo sannarlega tekist með endurteknum gengisfellingum, með hækkun söluskatts og hvers konar verðhækkunum meðan kaupið er næstum óbreytt.

En það er ekki aðeins launafólk á Íslandi sem orðið er hálfdrættingar og tæplega það á við launþega í löndum með svipaðar þjóðartekjur. Eins er um kjör sjómanna sem orðið hafa fyrir stórfelldri skerðingu hlutaskipta, og ekki er kjaraskerðingin minni hjá bændum sem miða tekjur sínar við kjör launamanna.

Að undanförnu hefur mörgum orðið starsýnt á laun þm. Þau eru há — það er rétt — enda spegilmynd af þeim launakjörum sem almennt tíðkast hjá þeim sem taka há laun, og í þeim birtist fyrst og fremst hinn fáránlegi launamismunur sem viðgengst í þjóðfélagi okkar. Þann mun verður að minnka. Það verður að stefna að auknum launajöfnuði og hagsmunir láglaunafólks þurfa að sitja í fyrirrúmi. En jafnframt hljóta launamenn, hvort sem er um að ræða verkamenn, verslunarmenn eða menntamenn, að einbeita kröftum sínum að því framar öllu öðru að koma í veg fyrir að hlutur peningaaflanna sé stórlega aukinn, svo að nemur þús. millj. kr., á kostnað launþega, sjómanna og bænda.

Þegar vinstri stjórnin kom til valda og jók lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja mjög verulega, leiðrétti aflahlut sjómanna og stuðlaði að stórbættum kjörum launamanna og bænda, var klifað á því í málgögnum Sjálfstfl. að vinstri stjórnin hefði slegið upp veislu í þjóðarbúinu, nú yrðu allir sjóðir tæmdir og þjóðin mundi éta sig út á gaddinn.

Þannig voru viðbrögð peningavalds og gróðaafla, kvartanir þeirra og kveinstafir þegar tekjuskiptingin breyttist þeim í óhag. En reyndin varð sú að sameiginlegir sjóðir landsmanna gildnuðu með hverju ári vinstri stjórnar allt þar til stjórnin missti starfshæfan meiri hl. á Alþ. í byrjun seinasta árs og þrátefli hófst um aðgerðir í efnahagsmálum.

Ef aðgerðir vinstri stjórnarinnar til tekjujöfnunar haustið 1971 eiga að kallast veisla, þá er það fjölmennasta veisla sem sögur fara af.

En eftir að núv. íhaldsstjórn komst til valda og tók að breyta tekjuskiptingunni í fyrra horf með þeim árangri að lífskjör alþýðu manna eru nú komin niður fyrir það sem þau voru fyrir þremur árum, þegar vinstri stjórnin tók við, þá upphófst annar mannfagnaður sem stendur enn og sá er síst íburðarminni en sá fyrri, en í þetta sinn er veislan nokkuð fámenn.

Það er einmitt kjarni þessa máls að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum er fyrst og fremst miðuð við fámenna hópa peningamanna sem gerir því harðari kröfur, þeim mun meiri sem völd hans eru. Ömurlegt er til þess að vita að forustumenn Framsfl. skuli láta hafa sig til að þjóna sérhagsmunum Sjálfstfl., en fáum dylst nú orðið að í efnahagsmálum ráða forustumenn Framsfl. álíka fáu og smáu og í utanríkismálum. Eða lítum á eitt helsta vandamálið sem nú er við að glíma í efnahagsmálum, þverrandi gjaldeyrissjóði.

Í stað þess að setja nokkrar hömlur á skefjalausa eyðslu gjaldeyrisins strax í haust var valin leið Sjálfstfl., að lækka gengið nógu mikið til að fólkið hefði ekki efni á að kaupa erlendar vörur. En þetta dugði ekki og upp úr áramótum var orðið lítið eftir af gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar sem verið hafði í hámarki einu ári áður Þá hélt Ólafur Jóhannesson fræga ræðu og gaf ótvírætt í skyn að nú væri tími til kominn að setja nokkrar hömlur á sölu gjaldeyris. Ræðan hafði þó ekki önnur áhrif en þau að á næstu dögum tæmdist það sem eftir var af gjaldeyrisforðanum. Síðan tók við margra vikna stjórnleysi í efnahags- og gjaldeyrismálum, þar til Sjálfstfl. tók af skarið og fékk því ráðið að enn skyldi gengið fellt. Það mátti ekki skerða verslunarfrelsið, rétt hinna efnaðri til ótakmarkaðrar gjaldeyriseyðslu, ekki einu sinni í fáeina mánuði, heldur skyldi nú enn einu sinni reynt að þrýsta niður lífskjörum fólksins með nýju gengisfalli. Þannig birtist eðli þeirrar íhaldsstefnu sem nú ræður ríkjum.

Þegar gjaldeyrissjóður þjóðarinnar er í hættu, hvað er þá sjálfsagðara en að spara erlenda mynt meðan þess gerist þörf með því að stöðva um sinn innflutning á þeim vörutegundum sem framleiddar eru jafngóðar hér innanlands, t. d. á innréttingum, húsgögnum, fiskafurðum, kökum eða gosdrykkjum, svo að örfá dæmi séu nefnd? En forustumenn Sjálfstfl. mega ekki til þess hugsa að nokkrar hömlur séu lagðar á athafnafrelsi helstu stuðningsmanna sinna, heildsalanna. Hagsmunir þeirra eru hagsmunir flokksins. Þess vegna fannst ekki annað ráð til að minnka innflutning en að halda áfram að fella gengið og freista þess enn að gera skortinn að skömmtunarstjóra.

En eins og önnur íhaldsúrræði þessarar stjórnar reynist þessi aðferð þó ekki duga til. Í viðtali við eitt dagblaðanna í gærmorgun segir skrifstofustjóri í viðskrn. að nú, sex vikum eftir seinustu gengisfellingu, sé gjaldeyrisstaðan verri en nokkru sinni fyrr, sé meira að segja orðin neikvæð um 2000 millj. kr. og hafi ekki skapast annað eins ástand í hálfan annan áratug. Þannig er ástandið eftir hálfs árs valdaferil Ólafs Jóhannessonar í embætti viðskrh. undir leiðsögn Geirs Hallgrímssonar. Þessir menn geta engum öðrum um kennt en sjálfum sér hvernig komið er. Þeir hafa haft nægan tíma og öruggan þingmeirihl., verkalýðshreyfingin hefur sýnt mikla þolinmæði og þeir hafa haft ágætan vinnufrið, og þetta er árangurinn.

Eins er á öðrum sviðum efnahagsmála. Íhaldsforusta Sjálfstfl. knýr á um samdrátt á öllum sviðum. Íbúðabyggingar eru að dragast saman um allt land vegna gengisfellinga og vegna fjármagnskreppu sem beinlínis er skipulögð af Seðlabankanum. Dregið er stórlega úr útlánum stofnlánasjóða atvinnuveganna og er t. d. bersýnilegt að Iðnlánasjóður verður mjög krepptur með fjármagn á næstu mánuðum. Undanfarnar vikur hafa kaupfélagsstjórar víðs vegar að af landinu komið hópum saman til viðræðna við þm. hinna ýmsu kjördæma og boðað mönnum, að vegna síversnandi lánafyrirgreiðslu Seðlabankans út á rekstrarvörur sauðfjárbænda sé yfirvofandi hætta á því að gömul og gróin kaupfélög einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, komist í alger í fjárþrot að nokkrum mánuðum liðnum. Til viðbótar hefur verið dregið verulega úr verklegum framkvæmdum ríkisins víða um land, og nú er mikil hætta á því að fjármagn til vega, skóla, sjúkrahúsa og annarra lífsnauðsynlegra framkvæmda verði skorið enn frekar niður á næstu vikum.

Öllum er ljóst að oft getur verið nauðsynlegt að lækka seglin og draga úr framkvæmdum, einkum á það við á miklum þenslutímum. En nú er tími samdráttar og minnkandi framkvæmda á öllum sviðum og því augljóst að ekkert er hættulegra fyrir atvinnuástandið í landinu en að opinberir aðilar keyri af fullum krafti í samdráttarátt. Enginn skyldi þó halda að skortur sé á fjármagni. Á sama tíma og allir innlendir atvinnuvegir stynja undan fjármagnsskorti, vegna þess að Seðlabankinn er naumur á fé og stofnlánasjóðirnir fá lítið af erlendum lánum, er verið að ákveða að eyða 9000 millj. kr. til byggingar og rekstrar járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og allt þetta fé verður tekið að láni erlendis. Þetta er upphæð sem jafnast á við allar verklegar framkvæmdir ríkisins á þessu ári og upphæðin er þrisvar sinnum hærri en allt það fé samanlagt sem lánað var úr Iðnlánasjóði, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Fiskveiðasjóði á s. l. ári, 9000 millj.

Það verða tiltækar 500 millj. til að byggja höfn við Grundartanga í Hvalfirði, en þó var ekki hægt að verja á fjárl. nema 585 millj. kr. samanlagt til annarra almennra hafna víðs vegar á landinu öllu. Og til þessa fyrirtækis verður seld raforka undir framleiðslukostnaði, þótt fyrirsjáanlegt sé að við verðum að leggja þúsundir millj. á næstu árum til að flýta gerð nýrra stórvirkjana, fyrst og fremst vegna þessarar orkusölu, jafnframt því sem ljóst er að þessi óhagkvæma orkusala til stóriðju í Hvalfirði mun valda því að þúsundir heimila verða að bíða miklu lengur en ella eftir ódýrri raforku til húsahitunar.

Þannig er byggðastefna Framsfl í hægri stjórn. Þá reynist það hlutverk flokksins að stuðla að gífurlegum samdrætti á öllum sviðum og draga stórlega úr framkvæmdum víðs vegar um land á sama tíma og flokkurinn samþ. 9000 millj. kr. fjárfestingu ríkisins í Hvalfirði. Og þetta er aðeins byrjunin, eins og rétt til að árétta stefnubreytingu flokksins í herstöðvamálinu fyrr á þessum vetri sem m. a. fól í sér að samþykktar voru nýjar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, aðallega íbúðarbyggingar, fyrir 5 800 millj. ísl. kr.

Ég er því ekki undrandi á þeim fréttum sem um þessar mundir berast víða að um óánægju og vaxandi reiði framsóknarmanna í garð flokksforustunnar. Það hlýtur að vera aðeins tímaspursmál hvenær það gerist að flokksbundnir framsóknarmenn taka ráðin af forustumönnum sínum og leiða þá burt úr núverandi samstarfi.

Íhaldsöflin hafa löngum reynt að telja fólki trú um að efnahagserfiðleikar á Íslandi séu verkalýðshreyfingunni að kenna. Nú hefur íhaldsstjórnin spreytt sig á vanda íslenskra efnahagsmála í meira en hálft ár. Hún hefur böðlast áfram með nýjum og nýjum árásum á lífskjör fólksins, meðan verkalýðshreyfingin hefur sýnt dæmalausa biðlund og þolinmæði, og árangurinn er sá að vandi efnahagslífsins fer vaxandi með degi hverjum, jafnframt er nú þolinmæði verkalýðshreyfingarinnar á þrotum og verkföll í aðsigi. Hvort sem þeim verður afstýrt eða ekki með bráðabirgðasamkomulagi til nokkurra mánaða, ætti öllum að vera ljóst að óhappaverk þessarar stjórnar eru orðin nógu mörg.

Við þurfum stjórnarskipti. Þjóðin er búin að sjá nóg af þessari nýju stjórn til að dæma hana af stefnu hennar og stefnuleysi. Við þurfum alþingiskosningar og nýja vinstri stjórn með öflugra og róttækara umboði en sú sem kvaddi á seinasta ári, — stjórn sem tekur við þar sem fyrr var frá horfið, þótt að vísu verði ekki sagt að tekið sé til óspilltra málanna.