21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

52. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það voru nokkrar vangaveltur í sambandi við þetta frv. sem ég ætla að tala hér um og þá nota tækifærið að beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.: Hvað má ætla að happdrættisveltan verði á árinu 1975? Geng ég þá út frá því að þetta frv. verði samþ., því að nú virðist mér æðimjög sækja á það að leysa eigi mörg vandamál þjóðfélagsins í ýmsum framkvæmdum með happdrættiskerfinu.

Háskóli Íslands fékk þetta leyfi fyrir mörgum árum, ég man nú ekki nákvæmlega hve mörgum, en það mun skipta tugum ára og hefur verið ómetanleg stoð fyrir byggingu Háskólans. Síðan komu tveir aðrir mikilvægir þættir til uppbyggingar góðra mála, þ.e.a.s. DAS-happdrættið og SÍBS-happdrættið. Ég tel að við þurfum að hafa heildaryfirlit yfir a.m.k. þessa þrjá flokka þegar við erum að gefa einum aðilanum svo mikla rýmkun sem þetta frv. hefur í för með sér. Ég tel að eftirspurnin í happdrættismiða sé ekki ótakmörkuð, og þess vegna ber ég þessa fyrirspurn fram. Það er ekki hægt að svara henni þegar í stað. En það væri æskilegt að n., sem fjallar um þetta frv., gæti fengið það svar við þessu svo að við vissum hvað þetta þýddi. Einnig væri hugsanlegt að forsvarsmenn hinna tveggja þjóðþrifahappdrættanna, sem ég vil nefna svo, hefðu líka áhuga á að hafa aukin umsvif á næsta ári. Síðan hefur ríkissjóður uppi samkeppni um happdrættismiðakaup, og einnig er komin fram mikil ásókn að fjármagna vegaframkvæmdir með happdrætti.

Við erum að verða mjög mikið happdrættisþjóðfélag, og því er ekki úr vegi að gera sér grein fyrir hvað miklir fjármunir fara í þetta, því að varla verða menn fúsir til að hafa þessa veltu ótakmarkaða. Ég reikna ekki með því. Einnig verðum við að hafa í huga að næsta ár verður að öllum líkindum nokkru þyngra í skauti fyrir almenning en þetta ár, og eru frv. um þau mál á Alþ. er gera það þyngra fyrir allan almenning að lifa í landinu. Þess vegna ber ég þessa fyrirspurn fram til að fá upplýsingar um, eftir því sem tök eru á, hvað veltan gæti orðið mikil á komandi ári.

Ég vil taka undir það sjónarmið hjá síðasta ræðumanni að nauðsynlegt er einnig að ákveða hámark í þessum málum á útgreitt hlutfall. Það er nauðsynlegt, held ég, að endurskoða þessi mál í einni heild og gera sér fulla grein fyrir því hvert stefnir þegar sótt er á happdrættiskerfið mjög víða að í fjármögnun, sem við erum allir sammála um að er þjóðþrifamál út af fyrir sig.

Það kemur fram í grg. á bls. 2 að hér á að hefjast handa um byggingu fyrir læknadeild og tannlæknadeild sem er einnig tengd Landsspítalanum. Öll þau byggingaráform nema mörgum hundruðum milljóna og þessi áfangi í þessari byggingu einni nemur 600 millj. kr. og verður fjármagnaður að hluta frá Háskóla Íslands og einnig að hluta með beinu framlagi ríkissjóðs, svo hér er um geysilega háar tölur að ræða.

Ég vildi, herra forseti, koma þessari beiðni á framfæri til 1. umr. Efnislega er ég auðvitað með þessu frv., en ég tel æskilegt að við fáum heildarmynd af þeirri veltu, sem happdrættiskerfið hefur í för með sér, ef tök eru á, varðandi komandi ár.