03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2726 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það hefur teygst úr þessum umr. lengur en ég bjóst við og hv. 3. þm. Reykv., sem hér var að ljúka máli sínu, mun hafa afgr. þetta mál í fyrrv. ríkisstj. sem þáv. iðnrh. Ég man ekki betur en að í frv. í fyrra — ég skal þó ekki fullyrða það, hef ekki frv. hjá mér — þá hafi verið gert ráð fyrir að gildistaka frv. yrði á árinu 1974, og merkilegt má það vera ef það hefur ekki verið. En ég skal sem sagt ekki fullyrða um það, svo að mér finnst það ósköp mannlegt þó að mönnum geti sést yfir þess háttar. Mér fannst líka hv. þm. sjást yfir að ég hafi tekið neikvætt undir það atriði, því að mér fannst ég vera mjög mildur í ræðu minni áðan og kannske um of, af því að ég kærði mig ekkert um annað og tel að hér sé ekki um mál að ræða sem geti orðið neitt flokksmál eða pólitískt mál, heldur að menn hafi sínar skoðanir á þessu og það mundi svo ráða úrslitum og mismunandi um það hvort þeir teldu að væri rétt að hafa þarna meira eða minna ráðstöfunarfé til að leysa úr brýnustu verkefnum. Það er í raun og veru ekki um annað sem við erum að deila. Það vita allir að það er alveg sama hvaða fjármuni er um að ræða, þeir eru alltaf frá einhverjum teknir, það getur ekkert verið um annað að ræða.

Út af því um gildistökuna, þá hefur nú annað eins atriði verið leyst og það, og ef það yrði það sem stæði erfiðast í mönnum, þá er nú hægt að skoða það atriði. En ég vil segja það að ég held að þegar hv. alþm. skoða þetta mál í rólegheitum, þá komist þeir að sömu niðurstöðu og var komist að 1964 um að nauðsyn bæri til að hafa einhverja fjármuni sem vegamálastjórnin gæti haft til ráðstöfunar til að flýta hinum nauðsynlegustu verkum. Og ég held að hv. 1. þm. Suðurl. hefði nú átt að viðurkenna þá reglu, eiginlega meira en mér fannst hann nú gera. (Gripið fram í.) Já, en 10% regla er nú ekki neitt það sem er heilagt, svo að það getur alveg eins verið einhver önnur tala en það, ekki síst þegar á það er litið að náttúrlega hefur allt þetta fjármagn aukist, en þá hefur líka kostnaðurinn aukist stórkostlega. Við sjáum hvað þetta t. d. var lítið mál í Kópavogsframkvæmdinni. Hún hefði aldrei komist áfram með þeim hætti, þó að hún hefði notið 10% ákvæðanna. Þess vegna var gripið til þess að gera hann alveg að ríkisvegi.

Við skulum nú gera okkur grein fyrir þessu, enda veit ég að hv. þm. gera það og ég bar ekki neinn kvíðboga fyrir því að menn sýni þessu máli ekki fulla sanngirni og átti sig á því að hvort sem það eru 25% eða 10%, þá er engin regla algild, heldur reynum við náttúrlega að leita að því sem réttmætast er. Ég tek undir það að ég vil ekki vera að ala hér á metingi á milli höfuðborgarinnar og annarra byggða þessa lands og tel það engum til farsældar og mun ekki taka þátt í því. Ég stóð með því á sínum tíma að ríkið eitt byggði brýrnar yfir Elliðaárnar og veginn upp Ártúnsbrekkuna og allt það þó að það mætti segja að þetta væri byggðamál Reykjavíkur. Mér fannst það jafn nauðsynlegt.