21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

45. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni till. sjálfa, heldur þann málflutning, sem henni fylgdi frá hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan. Ég er þannig stemmdur, ef ég má svo að orði kveða, að ég vil taka undir þessa till. að mörgu leyti, en þær sendingar og þau skeyti, sem fylgja hans málflutningi af slíku stærilæti að ótrúlegt er til höfuðborgarinnar, finnst mér ég þurfa að gera aths. við það.

Ég held að það sé meira húsnæðisleysi á höfuðborgarsvæðinu einu heldur en á landinu öllu saman, eins og fram kemur í Breiðholtshverfi, sem hann minntist á með fyrirlitningu, þar sem 25 þús. manns koma til með að búa, og þó er eftirspurn eftir bæði leiguhúsnæði og húsnæði til kaups enn þá það mikil að ekki er hægt að anna eftirspurn. Ég er reiðubúinn til þess að taka undir og hjálpa þeim þm. dreifbýlisins sem vilja vinna fyrir sín kjördæmi og fyrir landið allt. En þeir mega ekki gera það allan tímann á kostnað Reykjavíkur og með þeim ummælum að Reykjavík sé eitthvað svo slæmt í þjóðskipulaginu og þjóðfélaginu að hana þurfi að varast allan tíma. Ég held að þm. almennt, og ég tala þá alveg sérstaklega til síðasta ræðumanns, ættu að fara að gæta tungu sinnar í ummælum eins og þeim sem hann hefur viðhaft hér hvað eftir annað. Hann byrjar yfirleitt ræðu sína með slíku stærilæti að furðu sætir. Slík ummæli og slíkur málflutningur getur hreinlega eyðilagt góð mál, gæti orðið til þess að t.d. menn eins og ég, sem hugsa og les um húsnæðisvandamál dreifbýlisins með jákvæðu hugarfari, bókstaflega snúist gegn þeim vegna slíkra neikvæðra ummæla um höfuðborgina og þau störf sem þar eru unnin.

Reykjavík er höfuðborg með öllum skyldum og því óhagræði sem því fylgir fyrir íbúa höfuðborgarinnar, og slík slagorð sem meiningarlaus eru og slettur í átt til hennar eiga ekki rétt á sér. Ég vil láta því mótmælt hér.

Ég verð að lýsa furðu minni á því ef það á að vera eitthvert innlegg í málið að oft geti vantað eitt og eitt plagg til þess að afgreiðsla fái eðlilega meðferð. Ég veit ekki betur en að umsækjandi um húsnæðislán fái lista yfir þau plögg sem hann á að skila. Ef hann fer ekki eftir þeim lista og eftir þeim upplýsingum sem viðkomandi ríkisstofnun lætur honum í té, þá er það hans eigið mál. Ef sá listi berst honum ekki í hendur hlýtur hann að gera eins og allir aðrir viti bornir aðilar, þ.e. að leita upplýsinga um það hvaða plögg hann á að útvega, áður en hægt er að fullnægja kröfu þess kerfis sem virðist að öllu leyti vera óalandi og óferjandi, einhver ófreskja eftir lýsingunni sem kom hér fram áðan. Ég skal viðurkenna, að kerfið er oft þungt og erfitt að átta sig á því, en að það eigi skilið slík ummæli sem hér komu fram áðan, það er alrangt.

Ekki skal ég mæla á móti því að þjónustustofnunum sé dreift og sumar þeirra fluttar frá Reykjavík. En hvort það borgar sig að flytja einmitt þessa stofnun, það skal ég ekkert segja um enn þá. En svo segir mér hugur að þau byggðarlög, sem koma til með að hýsa þessar stofnanir, þurfi að leggja í meiri kostnað við byggingu skrifstofuhúsnæðis og aðstöðu fyrir starfsemina og íbúðarhúsnæði fyrir það starfsfólk, sem augljóslega verður að fylgja stofnuninni, heldur en kannske lausn á því húsnæðisvandamáli, sem er á staðnum, þarf að draga til sín í byggðarlagið af fjármagni. Það verður að liggja einhver rökstuðningur, einhverjar tölulegar upplýsingar um hagkvæmni fyrir þjóðfélagið allt af því að flytja stofnanir frá einum stað til annars.

Með þessum orðum er ég ekki að reyna að halda mig við Reykjavík, það er langt frá því. En herra forseti, ég vildi aðeins nota þetta tækifæri á þessu stigi umr. til þess að mótmæla þeim ummælum, þeim óréttmætu ummælum, sem oft hafa fallið og sérstaklega frá síðasta ræðumanni, um reykvíkinga og Reykjavík.