09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 422 hef ég leyft mér ásamt fjórum öðrum þm. af Norðurlandi að flytja brtt. við frv., sem hér liggur fyrir. Þessi brtt. er við 1. gr. frv., að við 110. gr. sveitarstjórnarl. bætist svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú óskar meiri hl. sveitarstjórna í Norðurl. v, eða e. að stofna sérstök landshlutasamtök og skal þá ráðh. heimilt að staðfesta reglugerð slíkra samtaka þrátt fyrir önnur ákvæði þessarar gr.

Það er hv. þdm. kunnugt að þetta frv. er ekki neitt nýmæli hér á hv. Alþ. Það hefur verið flutt a. m. k. tvisvar sinnum áður og dagað uppi í bæði skiptin. Á síðasta Alþ. fluttum við nokkrir þm. af Norðurlandi brtt., sem var shlj. þeirri sem ég hef hér flutt og lesið upp, og er till. nú endurflutt vegna þess að uppi hefur verið nokkur skoðanamunur á því meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi hvort þar skuli starfa ein eða tvenn landshlutasamtök. Með þeirri brtt., sem hér er flutt, er opnað fyrir þá möguleika að kljúfa Fjórðungssamband Norðlendinga í tvenn landshlutasamtök ef meiri hl. sveitarstjórnarmanna í öðru hvoru Norðurlandskjördæmanna óskar eftir að svo verði. Ég vil aðeins segja það, að ég tel að þessi till. og þeir möguleikar á stofnun slíkra sérsamtaka eftir kjördæmum á Norðurlandi, sem hún býður upp á, sé sjálfsögð, vegna þess að það á að mínum dómi að fylgja vilja sveitarstjórnarmanna í uppbyggingu þessara samtaka og að starfssvæði þeirra fari eftir því sem þeir sjálfir vilja. Þess vegna tel ég að þessi till. sé sjálfsögð og ég tel að hún sé fullnægjandi til þess að hægt verði að hafa það form á í þessum landshluta sem sveitarstjórnarmennirnir sjálfir kjósa.

Það kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Austf., að nokkur ágreiningur er uppi um þetta frv., hvort þörf sé á að lögfesta það og hvort það sé rétt að lögfesta það. Út í þetta efni skal ég ekki fara mörgum orðum. Ég vil aðeins segja það sem mína skoðun að með tilliti til þess að þessi samtök hafa starfað um nokkurra ára skeið, til þeirra er vitnað í lögum, sem afgreidd hafa verið hér á Alþ. og í lögum eru þeim falin tiltekin verkefni, þá tel ég eðlilegt að landshlutasamtökin fái lögformlega stöðu. Ég tel að með þessu frv. sé í raun og veru verið að lögfesta ríkjandi ástand í þessum efnum. Að vísu má segja að það sé rétt, sem hv. 2. þm. Austf. sagði, að með þessu frv., ef að lögum verður, sé öllum sveitarfélögum gert skylt að skipa sér í raðir landshlutasamtakanna. Það er í raun og veru hin eina breyting, sem þetta frv. felur í sér, miðað við það skipulag sem víða gildir. Hins vegar eru, að ég hygg, það fáar undantekningar frá því að sveitarfélög starfi innan landshlutasamtakanna, að ég held að mjög sé hverfandi sú breyting sem þarna yrði á. Ég vitna til þess að Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin og þar með oddamenn sveitarstjórnarmanna um land allt hafa lagt á það áherslu að frv. þetta verði afgr. og ég kem ekki auga á þá hættu, sem því væri samfara.

Það virtist svo sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson teldi að þarna væri hætta á ferðinni, að frv. væri hættulegt, en þó sagði hann: Það segir hreint ekki neitt og er hvorki fugl né fiskur. — Ég get tekið undir það síðara að vissu marki, það eru ekki mikil nýmæli í þessu frv. umfram það sem gildir hjá hinum frjálsu samtökum. Og ég tel að það sé vel af stað farið að það séu ekki færð í lög ákvæði sem fyrirskipa sveitarstjórnarmönnum og samtökum sveitarfélaga starfsháttu á annan veg en þeir sjálfir hafa samþykkt. Ég lít svo á að það sé grundvallaratriði í uppbyggingu þessara samtaka að það sé ekki farið með valdboði ofan að, heldur séu starfshættir og skipulag mótað af sveitarstjórnarmönnum sjálfum, Og ég tel að það sé eðlilegt að veita slíkri uppbyggingu lagalega stoð, ekki síst þegar þess er gætt að þessum samtökum hafa verið fengin í hendur ákveðin verkefni með öðrum lögum.

Um skoðun mína á því, hvert ég tel að eigi að vera hlutverk þessara samtaka í framtíðinni, þá vil ég aðeins segja það í almennum og fáum orðum að ég tel að þessi samtök eigi ekki að verða valdstofnanir í þjóðfélaginu þau eigi fremur að verða þjónustustofnanir. Ég tel að valdið eigi áfram að vera í höndum Alþ. og sveitarstjórnanna sjálfra, og ég lít svo á að það eigi. að færa aukin völd til sveitarstjórnanna frá því sem nú er. Hins vegar tel ég að landshlutasamtökin séu heppilegur vettvangur til þess að samræma skoðanir sveitarstjórnarmanna í tilteknum landshlutum, mynda sterkara afl til þess að hafa áhrif á gang mála og vera þannig samræmingaraðili í ýmiss konar málefnabaráttu, auk þess sem landshlutasamtökin :ettu að taka að sér þá þjónustu við sveitarfélögin sem sveitarfélögin sjálf vilja fela þeim. Þetta tel ég að eigi að vera höfuðviðfangsefni landshlutasamtakanna, og það er ærið að starfa á þessum vettvangi eins og reynslan sýnir. Ég held að það felist ekki í því nein hætta að samþykkja þetta frv. og ég held að með því að samþykkja það séum við í höfuðdráttum að fara að vilja sveitarstjórnarmanna um land allt. Ég skal ekki ræða um það frekar. En út af því sem hér hefur verið sagt um hlutverk sýslufélaga, þá tel ég að þau eigi eftir sem áður nægu hlutverki að gegna sem samstarfsvettvangur sveitarfélaga í hverju byggðarlagi, í hverju héraði, og að það megi gjarnan auka áhrif þeirra í stjórnskipaninni við þá endurskoðun sveitarstjórnarlaga sem nú fer fram. Mjög mörg verkefni á vegum sveitarfélaga eru með þeim hætti í dag og verða í vaxandi mæli með þeim hætti, ef sveitarfélögunum verður fengið aukið vald í hendur, að hin fámennu sveitarfélög ráða ekki við að framkvæma þau á eigin spýtur. Þess vegna þarf að koma til samstarf þeirra í mörgum tilvikum. Þetta samstarf hefur víða tekist vel, t. d. í sambandi við skólamál, í sambandi við gatnagerðarmál og í sambandi við fjölmörg önnur viðfangsefni á vegum sveitarfélaga. Ég tel, að þegar horfið verður að því að auka vald sveitarfélaganna og einhverra samtaka þeirra í milli þá væru það ásamt sveitarfélögunum sýslunefndirnar, sem ættu að taka það hlutverk að sér vegna þess að þær starfa innan landfræðilegra marka sem veita í flestum tilvikum hæfilegan ramma um slíkt samstarf. Þess vegna vil ég láta það koma fram sem mína skoðun að sýslunefndirnar hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna enn í dag og framvegis þrátt fyrir það að landshlutasamtökin spanni yfir mun stærra svæði og séu einnig nauðsynlegur vettvangur til annarra hluta.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að ég sé að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil einungis vonast til þess að frv. nái fram að ganga. Ég held að það sé búið að velkjast það fyrir hv. Alþ. að það sé ástæða til þess að afgreiða það, — ef það verður ekki afgreitt með jákvæðum hætti sé hreinlegra að fella það. Verði frv. samþykkt vil ég vænta þess að hv. þdm. sjái sér fært að samþykkja þá brtt. sem ég hef hér lýst.