10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2870 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

207. mál, kaupþing

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir með hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég álít að hann fari hér með gott mál og mikilvægt, og ég skora á hann og hv. alþm. alla að hrinda þessu máli í framkvæmd sem allra fyrst. Ef einhver fyrirstaða er enn þá í stjórn Seðlabankans, þá sé ég ekki ástæðu til að bíða eftir að hún verði þessu máli sérstaklega samþykk, heldur taki Alþ. ákvörðun um málið og hrindi því í framkvæmd.

Ég tel alveg sjálfsagt að hvaða fyrirtæki sem er geti aflað sér fjárfestingar- og rekstrarfjár á sama hátt og ríkið gerir nú, eins og hv. flm. kom að í sinni ágætu ræðu og vitnaði þar í þau skuldabréf sem seld hafa verið á innanlandsmarkaði og ég er afskaplega mikið á !móti og eru allt annars eðlis en hér um ræðir.

Eftirspurn eftir bréfum, sem boðin eru fram til sölu, hlýtur að ráða verði slíkra bréfa. Trú fólksins á fyrirtækjunum, meðan á uppbyggingu þeirra stendur, hlýtur að ráða verði á þeim bréfum sem verða til sölu og verða hlutabréf í fyrirtækjunum, en ekki skuldabréf eins og hingað til hafa verið gefin út af ríkinu, — trú fólksins á að það sé að fjárfesta í arðbærum atvinnurekstri sem er einhver von um að gefi meira af sér en t. d. bankavextir, eðlilegir innlánsvextir, eða jafnvel önnur bréf sem ríkið nú gefur út og þá kannske líka væntanleg atvinnuvon fyrir niðja o. fl.

Við erum hér í fjötrum á margan hátt. En fólk á að fá frelsi til að ávaxta fé sitt með fleira móti en almennt er hægt að gera hér núna. Ég er alveg viss um að ef þessi verðbréfamarkaður eða kaupþing væri sett á laggirnar mundi það hjálpa sveitarfélögum t. d. mjög mikið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fólkið á Suðurnesjum hefði keypt bréf í t. d. hitaveitufélagi eða fólk, sem skólp er enn þá opið í jörðu úti á landi, mundi fjárfesta í bréfum sem flýttu fyrir framförum í heimabyggð þess. Rafmagnsveita Reykjavíkur er nú í stórmiklum vandræðum eða Reykjavíkurborg almennt. Ég er alveg viss um að reykvíkingar mundu kaupa bréf í sínum þarfafyrirtækjum ef þeir fengju að gera það, frekar en að vera kannske án þægindanna. Það er ekki nokkur vafi. Ég held að kaupþing, bæði þess opinbera og hinna frjálsu atvinnurekenda, sé brýn nauðsyn.

Flm. fór, eins og bann sagði sjálfur, dálítið út fyrir það mál sem hann er að flytja. Ég fagna því að till. hans er um aukið frelsi í athöfnum og notkun einstaklingsins á eigin fjármunum.

Ég hef búið erlendis lengi þar sem fólk getur á frjálsan hátt gengið inn í banka með peninga sína og keypt fyrir þá erlendan gjaldeyri sem menn liggja með á kontó á sama hátt og við liggjum hér með sparifé í okkar bönkum. Við gætum þá kannske hugsanlega ráðið því, þegar við leggjum inn okkar peninga í banka hér sem sparifé, í hvaða mynt við eigum þá. Við gætum á þann hátt forðað gengistapi á sparifé. Það er ýmislegt sem kemur til greina þegar peningamarkaðir eru opnaðir. Ég vil aðeins ljúka þessum orðum með því að það var tilgangur minn með að koma hér upp í ræðustól að taka undir málflutning frsm, og heita honum fullum stuðningi mínum, að svo miklu leyti sem hann getur orðið að gagni.