14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef á undanförnum þremur þingum flutt frv. til l. um heimild til að setja á fót vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegsins sem er að efni til svipað því frv. sem hér er nú til umr. Ég tel að vísu að í það frv., sem nú er til umr., mætti bæta nokkrum þáttum til frekari útfyllingar. Ég tel að slíkar heimildir eigi að ná til fleiri veiða en rækju- og skelfiskveiða, t. d. til humarveiða og raunar til allra þeirra veiða sem háðar eru aflatakmörkunum. Mér sýnist að það sama gildi þarna í mörgum atriðum.

Í öðru lagi lagði ég til í frv. mínu að þriggja manna n. fjallaði um leyfisveitingar. Það kom inn í þetta frv. við flutning þess í annað sinn á síðasta þingi og var skv. ábendingu frá sjútvrn. sem hafði fengið það til umsagnar við fyrsta flutning. Ég féllst á það sjónarmið að þarna þarf að gæta að ýmsu öðru en eingöngu aflatakmörkunum, eins og t. d. byggðasjónarmiðum og raunar mjög nauðsynlegt að til byggðasjónarmiða sé litið þegar slíkt sem þetta er ákveðið. Því lagði ég til að fulltrúi Framkvæmdastofnunar ríkisins, Fiskveiðasjóðs auk fulltrúa frá sjútvrh. sætu í þessari n. sem slíkt ákveður.

Og í þriðja lagi er í því frv. tekið fram að leitað skuli umsagnar Hafrannsóknastofnunar um leyfisumsóknir, og kem ég þá að því sem hv. frsm. gat um. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt, en vitanlega er sjútvrn. það opið þótt ekki sé það fram tekið í frv.

Þrátt fyrir þessi atriði hef ég ákveðið að styðja það frv. sem hér er til umr. og mun ekki þrýsta á að frv. það, sem ég hef flutt, komi hér til afgreiðslu. Það er nú hjá hv. sjútvn. og mun þá sitja þar áfram. Ég geri þetta vegna þess að mér er ljóst að hér er um mikið ágreiningsmál að ræða og um það mjög skiptar skoðanir. Ég geri mér jafnframt ljóst að það er orðið ákaflega aðkallandi að fá heimild til að takmarka fjölda vinnslustöðva, einkum á sviði rækjuveiða. Þetta er ljóst þessa dagana og raunar komið á elleftu stundu að fá slíkt frv. sem þetta og slíka heimild sem þessa samþ. Ég vil því ekki verða til þess að tefja framgang þessa máls með því að flytja brtt. til samræmingar við það frv. sem ég hef flutt. Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel mér að sjálfsögðu frjálst að beita mér fyrir breyt. á þeim lögum sem samþ. kunna að verða á grundvelli þessa frv.