14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, sem hér er til umr., felur það í sér að sjóðnum er veitt heimild til lánveitinga vegna kaupa á eldri fiskibátum. Á síðasta þingi var samhljóða frv. flutt, en náði þá eigi fullnaðarafgreiðslu.

Enda þótt Fiskveiðasjóður Íslands sé einn öflugasti af stofnlánasjóðum atvinnuveganna, þá hefur hann svo miklu hlutverki að gegna að jafnan vantar fjármagn til lánveitinga. Uppbygging sjávarútvegsins er stöðug og krefst mikils fjármagns. Það er með tilliti til þessa sem því miður hefur verið haldið fram að slík lagabreyting sem hér um ræðir sé ekki tímabær nema þá að jafnhliða sé séð fyrir auknu fjármagni sjóðnum til handa. Að vissu leyti á þessi gagnrýni rétt á sér. Sjútvn. er hins vegar þeirrar skoðunar að í vissum tilfellum muni þessi breyt., ef að lögum verður, leiða til þess að sá skipakostur, sem fyrir hendi er, nýtist betur en ella því að segja má að með þeim lánakjörum, sem í gildi hafa verið, hafi verið auðveldara að eignast nýjan bát en eldri bát í góðu standi þar sem um hefur verið að ræða verulega útborgun og lítil áhvílandi lán.

Segja má að þessi lánafyrirgreiðsla, sem hér um ræðir, sé í samræmi við það sem nú á sér stað hjá húsnæðismálastjórn, þar sem um er að ræða lán út á eldri íbúðir. Hefur sú framkvæmd verið í gildi um nokkurt árabil. Í dag hygg ég að flestir séu sammála um að stigið var spor í rétta átt þegar ákveðið var að stofna þann lánaflokk í húsnæðislánakerfinu.

Eins og fram kemur á þskj. 425 leggur n. til að lánsupphæðin megi nema allt að 1/4 af kostnaðar- eða matsverði í stað helmings eins og er í frv. og er það að sjálfsögðu að frádregnum þeim lánum sem á bátunum kunna að hvíla í Fiskveiðasjóði þegar kaupin fara fram.

Segja má að hér sé hóflega af stað farið og ætti ekki að íþyngja sjóðnum að neinu verulegu marki. Breytingu á þessu ákvæði mætti síðan gera eftir því sem ástæða verður og talin æskileg reynsla að framkvæmdinni fenginni.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Sjútvn. leggur einróma til að frv. verði, þannig breytt, samþ. og vísað til 3. umr.