15.04.1975
Sameinað þing: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2912 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

227. mál, erlend sendiráð á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina til utanrrh. fyrirspurn í 6 liðum þannig:

„1. Hve mörg eru ríkin, sem íslendingar hafa stjórnmálasamband við?

2. Hvaða erlend sendiráð starfa í Reykjavík?

3. Hve fjölmennt er allt starfslið hvers sendiráðs um sig, og hver eru stöðuheiti starfsmanna þeirra?

4. Hverjar eru skráðar eignir erlendra sendiráða og sendiráðsfólks hér á landi:

a) fasteignir, b) bifreiðar?

5. Hversu mikið fjölskyldulið fylgir erlendum sendiráðsstarfsmönnum hér?

6. Hvaða ríkisstjórnir erlendar eða aðrir erlendir aðilar starfrækja hér á landi fasta upplýsingastarfsemi og fréttamiðlun, og hve margt fólk vinnur að slíkum störfum á vegum hvers um sig?“

Ég beini þessum fyrirspurnum til hæstv. utanrrh.