15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

219. mál, framkvæmd laga um grunnskóla

Flm. (Kristján Friðriksson):

Herra forseti. Virðulegt sameinað Alþingi íslendinga.

Hér skal gerð grein fyrir till. til þál., 219. mál, nr. 413. Till. er þess efnis að vissar greinar grunnskólalaga verði framkvæmdar með ákveðnum hætti. Í grg. með till. er skilgreint í aðalatriðum hvernig sú tilhögun er hugsuð sem þar er stungið upp á. Þess vegna mun ég nú láta nægja að fara nokkrum orðum um málið almennt.

Með grunnskólafrv. tel ég að hafi verið kveðinn upp einhver þyngsti refsidómur sem nokkru sinni hefur verið kveðinn upp hér á landi, einkum vegna þess hvað hann snertir margt fólk og hvað hann gildir fyrir langt tímaskeið úr ævi þess.

Stóridómur hinn forni, sem svo var nefndur og var lög þótt hann væri nefndur dómur, tók gildi seint á 16. öld og var illræmdur mjög. Hann var dæmi um gerræði valdhafa gegn varnarlausum almenningi á sama hátt og Stóridómur hinn nýi. Stóridómur hinn nýi, en svo nefni ég grunnskólalögin, dæmir hvorki meira né minna en alla æsku landsins til að sitja kyrra á skólabekkjum í 9 mánuði í 9 ár eða blómann úr æsku sinni. Skólastjórar og kennarar reyna að vísu að milda dóminn eftir því sem þeir sjá sér fært og hafa aðstöðu til með föndri, leikfimi og með vinnu í kennslustundum o. s. frv. En líklega um 70/100 af þessum umrædda tíma fara í að sitja á skólabekkjum og hlusta og horfa á kennarann eða skrifa það sem hann segir.

Og nú vil ég biðja ykkur, vel virta alþm., að reyna að setja ykkur í spor þessa æskufólks. Þetta ætti að vera auðvelt einmitt fyrir ykkur. Hugsið ykkur að þið yrðuð að sitja kyrrir í sætum ykkar undir öllum ræðum hér í þinginu. Þetta ættuð þið auðvitað að gera, en þið gerið það ekki. Þið laumist út þegar ræðuhöld hefjast. Hér er algengast að sjá næstum auða bekki meðan ræðuhöld fara fram. Má þykja gott ef svo sem 10–15 þm. sitja kyrrir og hlusta. Þó eru þingfundir yfirleitt tæplega jafnlangir og hálfur skóladagur og þingtíminn er næstum aldrei 9 mánuðir á ári, og svo eruð þið búnir, hv. alþm., að stytta vikuna þannig að þið mætið næstum aldrei á föstudögum. Ég varð satt að segja hissa, þegar ég uppgötvaði að það var búið að fella niður föstudaginn. En áfram með samanburðinn við Stóradóm.

Ykkur er að vísu vorkunn þótt þið sitjið ekki kyrrir því að flestar ræður hér eru heldur bragðdaufar og leiðinlegar. En margar þeirra eru meira og minna skynsamlegar, sbr. þá ræðu sem flutt var hér síðast, og þess vegna margar þess virði að hlustað sé á þær af þeim mönnum sem eiga að taka ákvarðanir um málið. Já ykkur finnst víst ræður hér leiðinlegar eða svo er að sjá af stærð áheyrendahópsins sem oftast er hér. En þó skal ég fullvissa ykkur um að það er fullt af kennurum sem eru miklu leiðinlegri en þið. Og enn eitt, ýmsir þeirra, sem hér sitja, búa einmitt yfir nokkrum leikarahæfileikum bæði kómískum og dramatískum, og ekki trútt um að þeir hæfileikar hafi einmitt greitt götu ýmissa að sætum hér, jafnvel engu síður en raunverulegur málefnaáhugi eða hæfileikar til yfirsýnar um efnahagsmál og þjóðmál almennt. Ég held, að þið séuð því yfirleitt frekar skemmtilegri en kennarar ganga og gerast.

En vesalings börnin og unglingarnir verða að hlusta á sama mann oft klukkustund eftir klukkustund, dag eftir dag, viku eftir viku, jafnvel ár eftir ár. Hér er þó alltaf verið að skipta um persónur á sviðinu. Hvernig þætti ykkur ef þið yrðuð að sitja kauplaust, skulum við segja, sitja kyrrir í sætum ykkar, í 5 klst. á dag 5 eða 6 daga í viku 9 mánuði í 9 ár og hafa lengst af sama mann í pontu og eiga þá eftir að sitja 8 eða 9 mánuði í 5 ár til viðbótar ef þið ætluðuð að komast í stúdentspróf og eiga þá eftir mörg ár í einhverjum framhaldsskóla, líka þá meira og minna sitjandi við skólapúlt? Það þarf sterka menn til að vera ekki orðnir að aumingjum eftir slíka meðferð, enda útkoman ekki góð. E. t. v. er ástandið í ýmsum þjóðmálum hér á landi eins og það er meðfram af því, að hér í þessari gömlu virðulegu stofnun er orðið of margt af langskólabandingjum, hverra hæfni til framtaks, dómgreindar og hugljómunar hefur beðið hnekki við langvarandi innilokun í skólastofum. Þó hefur enginn þeirra manna, sem hér sitja nú, orðið að þola þá meðferð sem þið nú hafið dæmt æsku landsins til að þola að þessu leyti.

Ég læt þess getið hér án þess að tefja með útskýringum að ég tel að af hinni löngu skólasetu séu 3 af 6 meginþáttum manngildisins settir í mikla hættu með langskólasetunni og vísa ég til þess sem ég hef um það ritað og hverjum manni er aðgengilegt, sem vill verja stund til að kynna sér það.

Með þeirri till., sem hér er flutt, er í rauninni ekki farið fram á mikið. Það er farið fram á það að skólasetan verði stytt til reynslu fyrir nemendur í nokkrum skólahverfum þar sem hentugt væri að koma því við. Stytt úr 9 mánuðum í 51/2 eða 6 mánuði eftir atvikum, en ungmennunum lofað að starfa með fullorðna fólkinu helming ársins. Það er verið að fara fram á örlitla mildun Stóradóms til reynslu. Og nú vísa ég í þær lagagreinar, sem tillögugerðin styðst við. Í 3. mgr. 2. gr. grunnskólalaganna stendur, með leyfi forseta:

„Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð og stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.“

Sem sagt, það á ekki alltaf að teyma eins og gert er inni í skólanum. Með tillöguflutningnum vakir alveg sérstaklega fyrir, að þeir þættir námsins, sem hér um getur, verði ræktir í vinnunáminu utan skólans á hverri árshelft sem nemandinn er ekki innan veggja skólans.

Í V. kafla laganna, 41. gr., stendur:

„Æski skólanefnd, að hluti námsskyldu barna í 1.–6. bekk sé fullnægt með sumarskóla, getur fræðsluráð, að fenginni umsögn fræðslustjóra, heimilað að allt að fjórðungur kennslunnar fari fram með þeim hætti.“

Í 42. gr. segir:

„Í samræmi við markmið grunnskóla skal að því stefnt að nám í öllum bekkjum skólans tengist sem best raunhæfum athugunum og þroskandi störfum utan skólaveggjanna.“ Sbr. enn fremur 65. gr. l., sem áréttar þetta enn betur ef menn gefa sér tóm til að líta á hana.

Þessar tilvitnanir sýna að það er síður en svo að verið sé að brjóta grunnskólalögin þótt farið verði inn á þá braut að framkvæma þau samkv. tvenndarskólaskipulaginu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka alþm. fyrir að hafa opnað þessar smugur í grunnskólal., opnað möguleika til að milda Stóradóm, já í rauninni að opna leið til að fella hann að verulegu leyti niður því að ekki er hér verið að amast við skólahaldi, það er nauðsynlegt. Það er verið að amast við of löngu skólahaldi, mannskemmandi skólahaldi. En rétt tel ég að vekja athygli á að þær gr. l., sem ég hef hér tilnefnt, sýna að í grunnskólal. berjast í rauninni tvær stefnur. Önnur er sú sem ríkt hefur um mikinn hluta Vesturlanda nú um langt árabil og er fólgin í því að halda nemendum sem lengst innan skóla. Sú stefna hefur nú í reynd gengið sér til húðar, sbr. þær fréttir sem berast alls staðar frá úr heiminum, einmitt þegar verið er að innleiða hana hér með meginefni grunnskólal. En hin nýrri stefna, sem hefur fylgi meðal þeirra sem hafa gert sér grein fyrir hættum langskólasetunnar, hefur einnig sett mark sitt á grunnskólal. og þökk sé ykkur fyrir það, vel virtir alþm.

Nú vill svo til að þótt góðæri ríki í landi hér, þá er nokkurt tómahljóð í ríkiskassa og talað um niðurskurð áður gerðra fjárl. Ég hef reynt að fara yfir fjárl. og leita að liðum sem mætti lækka án þess að tjón hlytist af. Ég hef að vísu fundið nokkra, en sýnist að verkefnið — niðurskurðurinn — sé ekki vandalaust. En nú get ég þó bent á leiðir þar sem ekki aðeins má spara, heldur mætti spara til mikilla hagsbóta. Með því að taka upp tvenndarskólafyrirkomulag mætti auðveldlega fresta byggingu skólahúsa hér og hvar um landið því að á langflestum stöðum er nægilegt húsrými til fyrir nemendurna ef aðeins helmingur hópsins er innan veggja skólans í senn eins og tvenndarskólafyrirkomulagið gerir ráð fyrir. En skólabyggingarnar mundu nýtast allt árið. Og ekki er minnsti vafi á nægum verkefnum fyrir þá nemendur sem yrðu utan veggja skólans hverju sinni, sbr. þá reynslu að 70–80% fá nú sumarvinnu með núverandi fyrirkomulagi, þó að öllum sé dengt út í atvinnulífið samtímis. Við þetta vil ég svo bæta eftirfarandi: Sama fyrirkomulag, þ. e. tvenndarskólaskipan, mætti og ætti að taka upp í mörgum öðrum skólum — og er reyndar gert í sumum skólum, t. d. stúdentaskólum og ýmsum sérskólum og jafnvel í ýmsum deildum háskólans. Kæmi þá til greina önnur spörun, ekki minni en sú fyrrnefnda. Með því að breyta námsönnum háskólans nokkuð gætu nemendur verið aðeins 6 mánuði hver í háskólanum árlega, en tekið þátt í daglegum framleiðslustörfum þjóðar sinnar hálft árið, en byggingar háskólans, kennaralið og annað starfslið mundi nýtast allt árið því að frí þeirra mætti skipuleggja með nýjum hætti. Mætti þá fella niður að mestu leyti hið hvimleiða námslánafargan sem komið er út í hreint óefni og spillingu. Lán til fólks erlendis yrðu að vísu að haldast og að litlu leyti einnig hér heima þetta ár a. m. k. því að ekki er hægt að snögghætta þess háttar fóðrun. En hálfan milljarð mætti auðveldlega spara til mikilla hagsbóta fyrir nemendur og hollustu fyrir þjóðina í heild.

Að síðustu skal leitast við að vekja athygli á einni hættu sem nú vofir yfir skólakerfinu og þjóðinni. Og það er alveg á sínum stað að vekja athygli á þeirri hættu í tengslum við tillögugerð um tvenndarskólann því að einn af mörgum kostum við tvenndarskólann er sá að hann dregur úr þeirri hættu sem ég nú ætla að greina frá að vofir yfir.

Vegna þess að augljóst er og komið er í ljós að 9 sinnum 9 mánaða skólabekkjasetan er óþolandi fyrir alla, þá er nú komin af stað talsvert öflug hreyfing fyrir því að reyna að draga úr þjáningum nemenda við langskólasetuna með því að reyna að fara með atvinnulífið inn í skólana. Þetta hefur alveg gegndarlausan kostnað í för með sér og verður sjaldnast annað en gervimennskukák. Hættan er sú að reynt verði að fara með einhvers konar gerviiðnað, gervilandbúnað, jafnvel gerviútgerð inn í skólastofurnar. Ómögulegt er að sjá fyrir hvað þetta gervikapphlaup getur gengið langt. En það mun reyna mjög á gjaldþol ríkissjóðs, ef farið verður út í það. Ég skal fullvissa ykkur um það. Þetta á allt að gera undir því yfirskini eða skulum við segja í þeim tilgangi að auka verklegt nám í skólunum. Aukið verklegt nám er að vísu góðra gjalda vert, en vel að merkja því aðeins að verkefnin séu þess eðlis að þau henti til kennslu innan veggja skóla. Því aðeins má fara með það inn í skólann, annars er það kák og spilling. Svo er um sum verkefni. En það er ákaflega takmarkað hvað hægt er og skynsamlegt að gera í þessu efni. Hin stefnan er tvenndarskólastefnan að fara með nemendur út í atvinnulífið í stað þess að gera oftast vonlausa tilraun til að fara með atvinnulífið inn í skólana.

Nú er á döfinni hér á Alþ. svonefnt fóstureyðingafrv. Ég verð að játa að ég hef mikla tilhneigingu til að standa með þeim sem minnstur er máttar í þeirri deilu sem nú stendur hér yfir um þetta mál, en það er stúfur litli eða litla budda í móðurkviði. Mér er hjarta næst að standa helst með þeim sem er minnstur máttar eins og mörgum íslendingum er tamt, því að það er eitt af einkennum okkar göfugu þjóðar. Sannleikurinn er hins vegar sá að hinar efnaðri og úrræðameiri konur ráða nú á tímum oftast sjálfar framvindu mála í þessu efni. Það eru þá þær úrræðaminni og fátækari sem valdið kynni að verða tekið af. Er öruggt, spyr ég, að þjóðfélagið búi svo að þeim verr settu að réttlátt sé að láta þær sæta einhverri nauðung í þessu efni? Ég spyr í þessu efni, en fullyrði ekkert. En þess vegna blanda ég umr. um þetta mál inn í skólamálaumr. að mér hrýs hugur, að því er snertir þessi böru jafnt og önnur við þeim örlögum sem þeim eru búin með því að tjóðra þau við skólapúlt blómann úr ævi þeirra, gera þau að fóðri fyrir hina viðbjóðslegu langskólasetumaskínu, en leyfa þeim ekki að taka þátt í hinn skemmtilega, fjölbreytilega lífi á eðlilegan hátt í starfi með samtíðarfólki sínu á mismunandi aldri. Þess vegna höfða ég til mannúðar ykkar, góðir alþm., og bið ykkur að opna leið til mildunar Stóradóms, til reynslu til að byrja með. Ég sem gamall skólamaður, sem hef hugleitt skólanám meira og minna í 40 ár, er þess fullviss að aðeins ef brautin er rudd með þeim tilraunum sem gert er ráð fyrir í þeirri till. sem hér um ræðir, þá muni það greiða leiðir til betra og hollara lífs fyrir æ stærri og stærri hluta íslensks æskufólks.

Svo legg ég til að málinu verði vísað til allshn.