16.04.1975
Neðri deild: 66. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

130. mál, fóstureyðingar

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Eins og ég læt getið í nál. minn, þá er ég þeirrar skoðunar að merkasti kafli þessa frv. sé I. kafli þess sem fjallar um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Ég tel að þessi kafli sé mikilvægastur vegna þess að hann snertir alla íslendinga, hvern einasta mann. Þarna er tekið á ákaflega mikilvægum sviðum mannlegs lífs og gerð grein fyrir því hvernig um þau skuli fjallað bæði í skyldunámsstigi í skólakerfinu og eins vegna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og annarra hliðstæðra stofnana. Þetta er þáttur sem hefur verið vanræktur mjög herfilega hér á Íslandi til skamms tíma, og það hefur leitt til þess að fáfræði á þessum sviðum hefur verið ákaflega algeng hér á Íslandi og að ég hygg nú um skeið algengari en í mörgum öðrum löndum.

Ég er í sjálfu sér mjög ánægður yfir því að svo virðist sem alþm. allir séu sammála því að þessi I. kafli nái fram að ganga og verði að lögum. Þetta sýnir mjög verulega hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hér á Íslandi á tiltölulega stuttum tíma. Ég er sannfærður um að fyrir ekki ýkjamörgum árum hefði till. um það, að tekin væri upp fræðsla um kynlíf og siðfræði kynlífs á skyldunámsskeiði í skólum landsins, mætt harðri andstöðu bæði hér á Alþingi og á meðal almennings. Menn hefðu haldið því fram að þar væru skólarnir að fjalla um mál sem alls ekki ætti að fjalla um á þeim vettvangi. Þarna væri verið að halda að börnum fræðslu sem væri ekki aðeins óþörf, heldur ósæmileg. Þannig voru viðhorfin hér á Íslandi fyrir tiltölulega fáum árum og þess vegna eru það að mínu mati allmikil tíðindi að allir virðast nú vera sammála um að á þessum þætti verði að taka á eðlilegan hátt bæði í skólakerfinu og annars staðar í þjóðfélagskerfi okkar. Ég held að þetta skipti ákaflega miklu máli, vegna þess að traust þekking á kynlífi og siðgæði kynlífs er að mínu mati ein af forsendum þess að fólk geti lifað heilbrigðu og eðlilegu lífi, og það eiga ákvæði þessi kafla fyrst og fremst að tryggja. Þess vegna er þetta aðalatriði frv. og það skiptir ákaflega miklu máli að framkvæmd þessa kafla verði bæði flýtt og unnið að honum af myndarskap.

Við endurskoðun frv. kom til það annarlega ákvæði að skólayfirlæknir ætti að sjá um framkvæmd og uppbyggingu fræðslustarfs um kynlíf og siðfræði kynlífs, líkt og kynlíf sé einhver sjúkdómur, líkt og kynlíf heyri undir lækna, en ekki eðlilegt mannlegt líf. N. hefur sem betur fer fallist á að fella þetta fráleita ákvæði niður. Fræðsluyfirvöldum er falið að gegna þessu verkefni, en í samráði við skólayfirlækni. Við það er ekkert að athuga. En þetta á að vera eðlileg kennsla sem falli á eðlilegan hátt að öðru kennsluefni og verði á engan hátt flokkuð til neinna feimnismála.

Þetta er mjög stórt mál, eins og ég gat um áðan. Þetta kemur til með að verða æðikostnaðarsamt, og ég vænti þess að hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa frv., ætli næga fjármuni til að framkvæma það eins fljótt og unnt er þrátt fyrir niðurskurðarhótanir sínar.

En sem sagt um þessi atriði hefur sama og ekkert verið deilt. Það eina, sem deilt hefur verið um í raun og veru, er ákvæði sem var í frv. eins og það var flutt upphaflega meðan ég gegndi störfum heilbr.- og trmrh. Það var ákvæði 9. gr. um heimild til fóstureyðingar að ósk konu. Ég vil minna menn á hvað stóð í þessari gr., á fyrri hluta hennar. Hún var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fóstureyðing er heimil að ósk konu sem búsett er hér á landi eða hefur íslenskan ríkisborgararétt ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngutímans og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla á móti aðgerð. Skilyrði er að konan hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerð og hafi hlotið fræðslu um hvaða félagsleg aðstoð stendur til boða í þjóðfélaginu fyrir þungaða konu og við barnsburð.“

Því hefur verið haldið fram, m. a. af hv. þm. Jóni Skaftasyni, að þarna sé um að ræða till. um frjálsar fóstureyðingar og þetta orðalag er jafnan notað í umræðum fjölmiðla. Þetta er fjarri sanni, eins og hver maður sér sem les greinina. Þarna er ekki um neinar frjálsar fóstureyðingar að ræða. Það eru sett mjög skýr skilyrði: Í fyrsta lagi að lengd meðgöngutímans verði að vera innan við 12 vikur, í öðru lagi að engar læknisfræðilegar ástæður mæli gegn aðgerð og í þriðja lagi að konan fái fræðslu um það, hvaða félagsleg aðstoð standi henni til boða í þjóðfélaginu og hvaða áhættur eru samfara aðgerð. Þetta eru þau mörk sem þarna eru sett, og við skulum gera okkur ljóst að þetta eru mjög skýr mörk. Hver einasta kona, sem lendir í slíkum vanda, yrði að ganga í gegnum það að láta lækni athuga sig, ræða við sig, ráðgast við sig, leggja á ráðin með sér, enn fremur að ræða við félagsráðgjafa og ræða málin þar, taka við sjónarmiðum annarra, vega þau og meta. Þetta eru ekki frjálsar fóstureyðingar. En endanlega valdið, ákvörðunarvaldið, sem einhvers staðar verður að vera, það er gert ráð fyrir að það verði að lokum í höndum konunnar þegar búið er að standa að málinu eins og gert er ráð fyrir í þessum kafla.

Um þetta atriði hefur mikið verið rætt og ritað á Íslandi um langt skeið. Ég hef heyrt margar ákaflega fallegar ræður og ég hef lesið mjög vel skrifaðar greinar um það, hver undur og stórmerki það eru þegar nýtt barn fæðist í heiminn. Ég held að allir heilbrigðir menn hljóti að taka undir það að fæðing barns er eitt af undrum veraldar og ætti helst enginn einstaklingur að missa af því að eiga aðild að slíku undri. En hvers vegna er verið að skrifa greinar og halda ræður um jafnsjálfsögð mannleg viðbrögð eins og þetta. Með þessu er verið að dylgja um það að á Íslandi sé hópur einstaklinga sem sé andstæður þessum mannlegu viðhorfum, sem vilji fóstureyðingu fóstureyðingarinnar vegna. Því er hreinlega haldið fram að hópur íslenskra kvenna bíði eftir því fullur löngunar og eftirvæntingar að fá framkvæmda fóstureyðingu og muni jafnvel standa í biðröð til þess að ná þessu eftirsóknarverða marki. Ég mótmæli þessum ósæmilega málflutningi. Ég staðhæfi — og það hlýtur hver einasti maður að gera — að það er hvorki til á Íslandi né í nokkru öðru landi á heimsbyggðinni ein einasta kona sem óskar eftir því að þurfa að lenda í þeirri þungbæru raun að láta eyða fóstri sínu. Staðhæfingar um hið gagnstæða eru óheiðarlegar og ósæmilegar og stangast svo á við heilbrigða skynsemi að naumast ætti að þurfa að eyða orðum að þeim. Engu að síður hefur þetta fráleita viðhorf verið uppistaðan í flestum þeim greinum og ræðum sem ég hef séð og lýsa andstöðu við ákvörðunarvald konu. Og þegar öðrum eru þannig gerðar upp fráleitar skoðanir og tilfinningar, þá er auðvelt að skreyta fordæminguna með hvers konar stóryrðum eins og margir hafa því miður gert.

Enda þótt viðhorf allra til fæðingar barns sé á eina og sömu lund, þá er það staðreynd, sem engir vefengja nema þá einhverjir örfáir ofstækismenn, að upp geta komið aðstæður sem gera barnsburð mjög erfiðan eða óbærilegan jafnt af læknisfræðilegum og sálrænum ástæðum. Við ættum ekki að þurfa að deila nú um þessa staðreynd. Hún var viðurkennd með löggjöf hérlendis fyrir 40 árum. Hér liggur ekki fyrir nein till. um að afnema þau lög, sem sett voru 1935, eða lögin frá 1938, heldur telja stuðningsmenn þessa frv., sem hér liggur fyrir, að það sé verið að gera þessa gömlu löggjöf rýmri, mannlegri og í meira samræmi við siðgæðisviðhorf okkar tíma. Ég sé því ekki ástæðu til þess að rökræða það hér hvort fóstureyðingar geti verið réttlætanlegar sem neyðarúrræði. Um það virðast mér allir alþm., sem betur fer, vera sammála og vafalaust þjóðin öll. Spurningin er hins vegar sú og sú ein, hver á að taka ákvörðun, konan sjálf eða einhverjir sérfræðingar á sviði læknisfræði, lögfræði og félagsmála. Ég lít svo á að engir sérfræðingar séu bærir um að taka slíka ákvörðun fyrir aðra. Þeir geta vissulega gefið góð ráð og þess ber að gæta að það sé tryggt að þau ráð verði tiltæk. En ákvörðun af þessu tagi er svo persónubundin, svo nátengd skaphöfn og tilfinningum einstaklingsins að enginn getur tekið hana nema einstaklingurinn sjálfur. Þannig er um ákaflega margar ákvarðanir í mannlegu lífi. Hver einstaklingur verður að gera upp persónubundin vandamál við samvisku sína og enginn annar er til þess fær. Þetta er dæmigert vandamál af þessu tagi.

Hv. þm. Jón Skaftason vék í ræðu sinni áðan að ýmsum atriðum og mér þótti röksemdarfærsla hans ganga æðimikið á skjön í ýmsum atriðum. Hann hélt því m. a. fram að fóstureyðingum mundi fjölga mjög ef ákvæðinu væri breytt í það horf sem ég lagði upphaflega til hér á þingi, og hann las í því sambandi upp tölur frá Norðurlöndum um fjölgun sem orðið hafi á fóstureyðingum á síðustu árum og voru þær tölur miðaðar við árið 1973. Hann las fyrir okkur um Finnland, Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Það var ekki búið að breyta neinum lögum um fóstureyðingar á Norðurlöndum 1973. Þessar breytingar eru ekki til komnar af því. Það er ekki búið að breyta neinum lögum í Noregi um þetta efni. Lagabreyting var felld í Noregi. (Gripið fram í.) Já, en þessar tölur eru þá ekki til marks um neitt slíkt sem þessi hv. þm. var að halda fram. Þessar tölur eru til marks um allt annað. Þær eru til marks um það að á Norðurlöndum hefur verið að gerast nákvæmlega það sama og hér á Íslandi. Hér á Íslandi hafa fóstureyðingar samkv. lögum frá 1935 og 1938 meira en tvöfaldast á örfáum árum, enda þótt lögin séu óbreytt og enda þótt reglugerðirnar séu óbreyttar. Þeim hefur fjölgað vegna þess að viðhorf sérfræðinga, embættismanna, fulltrúa kerfisins hafa breyst á þessum árum, en ekki löggjöfin. Þær tölur, sem hv. þm. nefndi um þetta, eru því ekki réttar.

Raunar voru ýmsar aðrar reikningskúnstir hans ákaflega einkennilegar, eins og þegar hann vildi halda því fram að ákvörðunarvald konu um fóstureyðingu innan þeirra marka, sem ég gat um áðan, gæti leitt til þess að konur hættu að nota getnaðarvarnir. Ég er ákaflega vantrúaður á speki af þessu tagi af þeim ástæðum sem ég gat um áðan. En í reikningskúnstum sínum varð niðurstaða þessa hv. þm. sú að ef um 5% kvenna hættu að nota getnaðarvarnir af þeim sem notuðu þær núna, þá mundu svo og svo mörg börn fæðast á Íslandi næsta árið þar á eftir. Þessar tölur voru við það miðaðar að allar þessar konur, hættu að nota getnaðarvarnir, mundu eignast barn. Hvers konar þekking er þetta eiginlega á líffræði. Heldur hv. þm. að konur eigi barn á hverju einasta ári þó að þær noti ekki getnaðarvarnir? Ég hygg að samkv. þeim tölum, sem fyrir liggja, láti nærri að þarna geti verið um fjórðung kvenna að ræða, en ekki allan þann fjölda sem hv. þm. var að tilgreina.

Svo var það ákaflega einkennilegt í máli þessa hv. þm. að hann sagði í öðru orðinu að frv. í þeirri mynd, sem ég flutti það, kynni að leiða til þess að fóstureyðingum fjölgaði stórlega á Íslandi, en hann sagði í hinu orðinu að hann teldi að það yrði ekki ýkjamikill munur á þeirri framkvæmd sem yrði samkv. þessum afar frjálslyndu lögum, sem hann var að mæla fyrir, og þeirri gerð sem ég lagði til. Hann sagði það hvort tveggja í senn, þessi hv. þm. Ef það er rétt að á framkvæmdinni verði lítill munur, ef það verða ámóta margar fóstureyðingar eftir hvorri gerðinni sem er, þá fellur þessi röksemdafærsla þm. gjörsamlega um sjálfa sig.

Það var nú sitthvað fleira, sem hv. þm. minntist á, sem ástæða væri til að gera athugasemdir við. T. d. lagði hann ákaflega þunga áherslu á það hvað læknar væru andvígir þeirri tilhögun sem ég gerði till, um í hinni fyrri gerð frv. Mér er kunnugt um það að forráðamenn læknasamtakanna eru andvígir þeirri tilhögun. En þetta hefur aldrei verið borið undir lækna almennt á neinn viðhlítandi hátt. Um þetta hefur verið fjallað á fulltrúafundi, þröngum fulltrúafundi innan læknasamtakanna. Það voru greidd atkv. um þetta á almennum læknafundi hér í Reykjavík þegar komið var fram yfir miðnætti og samþ. till. með 26 atkv. gegn 10. Við höfum hins vegar samþykktir frá geðlæknum, frá læknanemum sem ganga í þveröfuga átt. En hvatir þessara lækna, sem eru forustumenn læknasamtakanna, hafa komið ákaflega einkennilega fram í sumu af því sem þeir hafa sagt. Þeir hafa ekki verið með sjónarmið siðgæðis eða mannúðar. Þeir hafa verið að kvarta undan því að það væri verið að draga frá þeim vald, — vald til að taka ákvarðanir um örlög annars fólks. Ég er þeirrar skoðunar að ekkert slíkt vald eigi læknar að hafa eða neinir aðrir sérfræðingar þegar um er að ræða persónubundin vandamál af þessu tagi.

Við ræðum stundum hér á Íslandi um rétt einstaklingsins, og einn tiltekinn stjórnmálaflokkur telur sig vera sérstakan málsvara einstaklingsréttarins. Hann hefur það orð ákaflega mikið uppi. En þegar maður fer að kanna nánar hvenær þetta ágæta orð er notað, þá kemur í ljós að það er fyrst og fremst notað í sambandi við efnahagsmál, að einstaklingar eigi að fá tækifæri og frelsi til þess að hagnast á kostnað annarra. Þegar um er að ræða annars konar frelsi, það frelsi sem ég tel skipta mestu máli, það frelsi að einstaklingurinn geti notið hámarksfrelsis í frjálsu þjóðfélagi, þá stendur á þessum hv. flokki að hafa áhuga á frelsi einstaklingsins. Ég hef tekið eftir því að a. m. k. allverulegur hluti af forustumönnum Sjálfstfl. virðist vera algjörlega andvígur því að frjáls ákvörðunarréttur komi til mála á þessu persónubundna sviði.

Það hefur mikið verið rætt um siðgæði í sambandi við þetta mál, og ég gerði grein fyrir því áðan að viðhorf mín mótast af því siðgæðismati, að ég tel að þetta vandamál verði einstaklingurinn að gera upp við sig sjálfur. Siðgæði okkar er ofið af ákaflega mörgum þáttum, eins og við vitum. Biskupinn yfir Íslandi hefur t. d. sent okkur bréf og vitnað til hins kristilega siðgæðis sem er ákaflega ríkur þáttur í viðhorfum okkar allra, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. En siðgæði eins og kristin kirkja hefur reynt að innræta þjóðinni nú í næstum því 10 aldir, það er eigind sem á að koma fram í lífi og viðhorfum einstaklinganna sjálfra. Því aðeins hefur siðgæðiskenning náð markmiði sínu að hún gagnsýri þegnana, að þeir breyti í samræmi við hana. Ef slík siðgæðisvitund væri uppi hjá íslendingum hvað þetta atriði varðar, þá þyrfti að sjálfsögðu ekki að setja neinar slíkar reglur. En biskupinn yfir Íslandi tekur málið ekki frá þessum forsendum. Hann telur að honum hafi ekki tekist að koma inn þeim siðgæðisviðhorfum sem hann aðhyllist, og þá vill hann fá að stjórna siðgæðisviðhorfum almennings með eins konar páfabréfi sem hann gefur út í skrifstofu sinni. Ég er algerlega andvígur því að nokkur maður, hvort sem hann er biskup eða annað, hafi neina slíka heimild til þess að kveða á um viðkvæmustu siðgæðisviðhorf almennings.

Hv. þm. Jón Skaftason sagði áðan að ef konur fengju það ákvörðunarvald sem rætt var um að veita þeim, þá kynni það að koma fyrir að konur tækju óviturlegar ákvarðanir. Ekki dreg ég það í efa. Það kemur vafalaust fyrir. En það kemur ekki síður fyrir um þær ákvarðanir sem sérfræðingarnir taka, hinir lærðu menn á sviði læknisfræði, lögfræði og félagsmála. Þeir geta líka tekið rangar ákvarðanir eins og hægt er að rekja mörg dæmi um. Þess vegna er ekki verið að skera neitt úr um það hvort teknar verði almennt séð réttar eða rangar ákvarðanir með þessum ákvæðum í væntanlegum lögum. Það er aðeins verið að skera úr um það að ákvörðunin verði ekki skilin frá þeirri persónu sem í vandanum stendur, hún verði að gera vandamálið upp við sig sjálf. Það er meginatriði að þessi ákvörðun verði persónubundin og að kona, sem tekur slíka ákvörðun, geti engum um kennt nema þá sjálfri sér ef hún sér ástæðu til að harma það sem hún hefur gert.

Ég tel það ekki vera neitt keppikefli að fóstureyðingum fjölgi, miklu heldur hið gagnstæða. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að kappkosta að efla sem mest þá félagslegu þætti þjóðfélagsins sem valda því að konur lendi ekki í neinum efnahagslegum eða félagslegum vanda í sambandi við barneignir. Við eigum að gera allt sem við getum til þess og einnig til þess að auka þekkingu eins og um er fjallað í I. kafla frv. Það er ekki fyrr en að neyðarúrræðinu kemur sem spurningin kemur upp: Hver á að ákveða?

Á það hefur verið bent réttilega að í löndum, þar sem ákvörðunarréttur konu hefur verið lögfestur, — ég á þá ekki við þær tölur sem hv. þm. Jón Skaftason var með sem ekki stóðust, heldur raunverulegar tölur um þróunina, — hafi fóstureyðingum fjölgað, og það er alveg rétt. En í þessum löndum hefur verið svo ástatt að þar hefur verið ákaflega mikið um ólöglegar fóstureyðingar. Ég hygg að þeir, sem eitthvað þekkja til í grannlöndunum, viti að ólöglegar fóstureyðingar voru og hafa verið um langt skeið smánarblettur á þessum þjóðfélögum. Þær voru það í ákaflega ríkum mæli á kreppuárunum fyrir stríð þegar harðast svarf að fólki, en hafa haldið áfram alla tíð síðan. Sú fjölgun, sem nú kemur fram í dagsljósið, stafar ekki síst af því að konur, sem áður leituðu til kuklara, eiga þess nú kost að fá þessa aðgerð framkvæmda við tryggilegar aðstæður.

Ég hygg að ólöglegar fóstureyðingar hafi verið færri á Íslandi en í öðrum löndum. Að vísu hef ég enga örugga vitneskju um það og enginn sá sem ég hef um það spurt. Það er hægt að sanna dæmi um slíkar ólöglegar fóstureyðingar og raunar einnig sem læknar hafa staðið að, en engu að síður hygg ég að þetta hafi verið sjaldgæft hér á Íslandi. Því þurfum við ekki að óttast að af þessum ástæðum komi fram í dagsljósið hlutir sem hingað til hafa verið duldir.

Hv. þm. Jón Skaftason sagði áðan í ræðu sinni að hann teldi mikla hættu á því að konur færu að taka upp fóstureyðingar í stað getnaðarvarna. Ég hef minnst á þetta áður en ég vil minnast á það enn einu sinni, því að mér finnst þessi kenning vera svo fráleit að ég undrast að nokkur maður með fulla dómgreind skuli taka hana sér í munn. Fóstureyðing er það alvarlegt mál að það gerir enginu maður sér leik að því að þurfa að lenda í þeim vanda. Það gerir það enginn maður að leik sínum eða vitandi vits. Og ég tel það vera móðgun við dómgreind íslenskra kvenna að vera með málflutning af þessu tagi.

Það er margt fleira sem ástæða væri til að minnast á í þessu sambandi. Ég hef svo oft talað hér um þetta mál að mér finnst ég alltaf vera að endurtaka sömu röksemdirnar, og maður verður nú leiður á því sjálfur. En vil minnast á eitt atriði enn þá sem skiptir ákaflega miklu máli í þessu sambandi, og það er um viðhorf íslendinga til barneigna. Hér á Íslandi þykir það — sem, betur fer — alla vega ekki mikill ljóður á stúlku sem ekki er gift þó að hún eignist barn. Þannig hefur það verið á Íslandi um mjög langt skeið og þannig er það enn sem betur fer, segi ég. Í ýmsum nágrannalöndum okkar hefur ástandið verið þannig að ungar stúlkur, sem lent hafa í slíkum vanda, hafa kramist undir siðferðilegu fargi foreldra sinna og aðstandenda og umhverfisins, og það hefur hrakið ýmsar slíkar stúlkur til þess að grípa til hvers kyns örþrifaráða. Við þurfum sem betur fer ekki að óttast slík viðhorf hér á Íslandi í sama mæli og annars staðar, og það er í mínum huga enn ein röksemd fyrir því að við þurfum ekki að gera ráð fyrir, þó að tekin væri upp ákvörðun um rétt konu innan þeirra marka sem ég gat um áðan, að fóstureyðingum mundi fjölga óeðlilega. Það mundu að vísu vafalaust flytjast inn í landið þær fóstureyðingar á íslenskum konum sem sannað hefur verið að framkvæmdar hafa verið í Bretlandi, en þær voru 115 á síðustu 5 árum. Það hafa verið forréttindi kvenna sem hafa haft fjármuni, sem hafa haft þekkingu, sem hafa haft aðstöðu, að fara til annarra landa og láta framkvæma fóstureyðingu þar, þar sem löggjöf hefur verið frjálslegri en hér. En þetta hefur ekki verið réttur þeirra kvenna sem hefur skort fé eða þekkingu eða sambönd — þeirra kvenna sem samt hafa vafalaust lent í miklu meiri vanda en hinar.

Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki til frambúðar haft hér á Íslandi kerfi sem sé á aðra lund en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þá erum við aðeins að ýta undir þetta tvöfalda siðgæði, að þeir sem eiga fjármuni, þeir sem hafa þekkingu og sambönd, þeir geli fengið sinn vanda leystan á allt annan hátt en annað fólk.

Ég hef tekið þátt í því ásamt nefndinni að standa að þeim brtt. sem hv. þm. Jón Skaftason gerði hér grein fyrir. Ég tel að þær séu til bóta í sjálfu sér og ég mun greiða þeim atkv. ef þær brtt., sem ég flyt, verða ekki samþ. Þó er ein till. sem ég vil gera aths. við. Í upptalningunni um félagslegar ástæður, sem heimiluðu fóstureyðingu, var fellt niðul. orðið „fátækt“, og rökin voru þau að í þessu ágæta velferðarþjóðfélagi, sem við búum í, sé í sjálfu sér ósæmilegt að nefna orðið „fátækt“. Ekki er ég nú öldungis viss um að þetta sé rétt. Hitt er rétt að orðið „fátækt“ hefur skipt mjög um merkingu. Það hefur allt aðra merkingu nú en það hafði fyrir aðeins örfáum áratugum. það er að sjálfsögðu afstætt og önnur slík hugtök. En ég held að það sé ekki tímabært að uppræta orðið „fátækt“ úr málinu. Ég held að við ættum ekki að gera það og ég held að þessi till. hafi verið vottur um fullmikla viðkvæmni hjá mínum ágætu meðnefndarmönnum.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég flyt á þskj. 429 brtt. sem eru á þá leið að ákvæði 9. gr. verði eins og þau voru í hinu upphaflega frv. og 11. gr. og 13. gr. breytist í samræmi við það, þannig að þarna verði um að ræða ákvörðunarvald konu innan vissra takmarka eins og ég gat um áðan.

Ég vil leggja áherslu að lokum á það meginatriði að við, sem teljum að konan eigi að hafa ákvörðunarrétt innan skýrra marka, erum ekki að hvetja til kæruleysis og lausungar, heldur erum við að gera hið gagnstæða. Við erum að leggja ábyrgðina á þann sem á að bera ábyrgðina sjálfur, þ. e. a. s. konuna. Við erum að auka vanda hennar. Við erum að gera henni alveg ljóst að hún ber ein afleiðingar gerða sinni. Hún getur ekki skotið sér á bak við neina sérfræðinga og kennt þeim um ef hún iðrast þeirrar ákvörðunar sem tekin hefur verið. Hún verður að horfast í augu við sjálfa sig. Ég verð að segja það eins og er að ég undrast hroka þeirra sérfræðinga sem telja sig til þess bæra að taka slíkar persónubundnar og örlagaríkar ákvarðanir fyrir aðra. En sá hroki hefur því miður komið fram hjá litlum hópi lækna, þótt sérfræði á þröngu sviði læknavísinda þurfi síður en svo að gera nokkurn mann hæfan til þess að skilja eða meta aðstöðu konu sem horfist í augu við þann vanda hvort hún eigi að láta eyða þunga eða ekki. Það eitt er í samræmi við hugmyndir mínar um frelsi og ábyrgð einstaklingsins að hann taki slíkar ákvarðanir sjálfur eftir það hugarstríð og þá sjálfskönnun sem slíkri ákvörðun hlýtur að fylgja. Ég vil ekki að einstaklingar séu á þessu sviði frekar en öðrum hluti af einhverju ómennsku kerfi sem segi fyrir um það hvað einstaklingur má eða má ekki á sviði persónubundinna ákvarðana.