16.04.1975
Neðri deild: 66. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

130. mál, fóstureyðingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mitt aðalerindi í ræðustól er að gera með örfáum orðum grein fyrir afstöðu minni til þess máls sem hér er nú til umræðu.

Það mun ekki of sterkt til orða tekið þó að sagt sé að hér er á dagskrá mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál í þess orðs fyllstu merkingu. Frv. þetta, sem almennt gengur undir nafninu frv. um fóstureyðingar, var lagt fram á Alþ. árið 1973, og þó að ekki yrðu miklar umr; um það á hv. Alþ. kom þó berlega í ljós að um það voru mjög skiptar skoðanir, ekki aðeins meðal alþm., heldur og ekki síður meðal almennings í landinu sem hefur allt frá því að málið kom fram mjög rætt það og skipst á skoðunum þar um. Þá, eins og mér hefur virst nú, voru fyrst og fremst skiptar skoðanir um þau ákvæði sem 9. gr. þess frv. þá fól í sér, þ. e. um hvort leyfa ætti fóstureyðingu að ósk konu. Um þetta ákvæði voru, eins og ég sagði áðan, mjög deildar meiningar. Umsagnir, blaðaskrif og umræður um þetta mál hafa leitt í ljós að meðal almennings í landinu eru skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga í frjálsræðisátt að því er varðar fóstureyðingar.

Það frv., sem nú liggur hér fyrir til umr., er að því leyti breytt frá hinu fyrra að þetta mjög svo umdeilda mál, sem þá var, er fellt út, þ. e. a. s. að ósk konu geti ráðið ákvörðun um fóstureyðingu. Eigi að síður er ég þeirrar skoðunar að 9. gr., eins og hún nú er í frv., og er hér til umr., gangi of langt í frjálsræðisátt að því er þetta varðar. Mun ég koma að því frekar síðar.

Margt í þessu frv., sem hér er nú verið að ræða, er eigi að síður eins og í hinu fyrra mjög til bóta og jákvætt og þá fyrst og fremst, að ég tel, þau ákvæði frv. sem fjalla um ráðgjöf og fræðslu að því er varðar kynlíf og barneignir. Ég er sömu skoðunar og margir aðrir hv. alþm. hafa tekið fram að um allt of langt árabil hafi verið vanrækt að upplýsa almenning í þessum efnum, sem eru í sjálfu sér ekkert annað en einn angi og ekki hvað minnst um verður af mannlegu lífi og samskiptum kynja í þessum efnum.

Þær umr., sem átt hafa sér stað um þetta nú eins og áður, hafa kannske — ég segi kannske — eðlilega snúist fyrst og fremst um sjálfsákvörðun konu til þess að láta framkvæma fóstureyðingu. Umr. þessar hafa að mínu áliti verið um margt athyglisverðar, margt fram komið í þeim sem er athyglisvert. En þessar umr. hafa í engu breytt skoðun minni í þeim efnum, að ég tel að hér sé um að ræða, þegar talað er um fóstureyðingu, eyðingu lífs að mínu áliti. Hér er ekki verið að ræða einvörðungu um sjálfsákvörðunarrétt konunnar eða móðurinnar. Ég tel að líka eigi að taka inn í þessar umr. ákvörðunarrétt föðurins og kannske ekki síst þess lífs sem kviknað er, þ. e. fóstursins, og verði að gæta þess að það eigi málsvara fyrir þeim rétti sem því ber skilyrðislaust eftir að líf hefur kviknað.

Ég vil ekki gera lítið úr því að sjálfsákvörðunarréttur konu í þessum efnum sé allmikilvægur. En ég vil ekki undir neinum kringumstæðum ganga fram hjá hinum tveimur einstaklingunum sem þarna eiga hlut að máli.

Í mínum huga, þegar þessi mál eru á dagskrá, er það fyrst og fremst spurningin um viðhorf til lífsins. Ég er ekki í neinum vafa um það og það er mín persónulega sannfæring að fóstureyðingu má undir vissum tilvikum telja nauðsynlega aðgerð, en hún á að mínum skilningi og minni sannfæringu að vera aðeins læknisfræðileg. Ég tel að í nútímaþjóðfélagi, siðmenntuðu menningarþjóðfélagi eins og við íslendingar viljum telja okkur til, eigi ekki að vera fyrir hendi einar né neinar félagslegar aðstæður sem geta leitt til ákvörðunar um það að lífi sé eytt. Það er skylda þjóðfélagsins að mínu áliti — ótvíræð skylda — að haga svo málum að engar slíkar félagslegar aðstæður geti verið fyrir hendi í þjóðfélaginu að þær geti verið grundvöllur að slíkri framkvæmd.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tala hér fyrir mig persónulega. Ég á ekki von á því að einn eða neinn stjórnmálaflokkur geri slíkt mál að flokksmáli. Hér verður að ráða persónuleg afstaða hvers og eins einstaklings til þessa máls.

Það er vissulega rétt, sem bæði hér hefur komið fram og annars staðar, að þær skyldur, sem ég tel að hvíli á þjóðfélaginu um að skapa lífsskilyrði hverjum og einum einstaklingi á þann veg að engar félagslegar aðstæður eigi að geta verið orsök að slíkri framkvæmd, þær hafa vissulega verið vanræktar. Ég fagna því sérstaklega og tek undir það með bæði hv. síðasta ræðumanni og öðrum þeim, sem látið hafa það í ljós, að ég tel að því er þennan kafla frv. varðar að hann sé kannske hvað merkilegastur í frv. En ég tel þó galla bæði í þessu frv. svo og hinu fyrra að stjórnvöld skuli ekki hafa látið fylgja a. m. k. lauslegar athuganir um það hversu miklum fjármunum þyrfti að verja af hálfu ríkissjóðs, ríkisvaldsins, til þess að geta komið þessum málum í þann farveg og á það stig sem frv. bæði gera ráð fyrir. Ég treysti því að núv. hæstv. ríkisstj. — og hef reyndar enga ástæðu til að ætla annað en hún sjái svo um að verði þetta frv. að lögum, þá muni ekki skorta fjármagn til þess að þessi þáttur og aðrir þættir þessa máls nái fram að ganga.

Það er að sjálfsögðu rétt að sú löggjöf, sem gildir um þessi mál í okkar, landi og var á sínum tíma mjög frjálsleg talin, er á margan hátt vafalaust orðin úrelt þar sem svo langur tími er liðinn síðan hún var sett. Ég hygg því að það sé tímabært að breyta þeirri löggjöf á þann veg að leggja þá skyldu á herðar samfélaginu að allir eigi kost á ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir og ábyrgð foreldrahlutverksins. Einnig virðist mér sjálfsagt að setja lagaákvæði um að veita öllum fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra og leggja þjóðfélaginu, samfélaginu, á herðar ríkar skyldur um félagslega aðstoð í sambandi við þungun og barnsburð. Í raun og veru virðist auðsætt, að ef svo er ástatt að verðandi móðir sjái fram á neyð af félagslegum orsökum, þá beri samfélaginu að koma í veg fyrir hina félagslegu neyð svo að bæði verði lífi barns og móður borgið. Það er, eins og ég sagði áðan, mitt grundvallarsjónarmið og mín grundvallarskoðun til þessara mála, þ. e. að fóstureyðing, eyðing lífs eigi þá og þá einvörðungu rétt á sér ef lífi móður eða barns er stefnt í hættu nema slík aðgerð sé framkvæmd.

Eins og fram kemur í nál. því sem hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. gerði grein fyrir, þá hef ég skrifað undir það nál., þó með þeim fyrirvara að vera ekki bundinn af samþykkt við 9. gr. 1, sem ég hef vikið hér að áður. Það eru hinar félagslegu aðstæður sem sá fyrirvari gildir um. Mér er nær að halda að það komi til með að reynast rétt, það sem hv. frsm. meiri hl. gat um áðan og hv. síðasti ræðumaður taldi vera þversögn að sumu leyti í ræðu hv. þm., að það verði kannske í meginatriðum rétt að þessi löggjöf eða þetta frv. þegar það verður samþ. eins og það nú liggur fyrir með öllum heimildum varðandi félagslegar aðstæður, þá verði það ekki langt frá því að verða í framkvæmd eins og hið fyrra frv., hefði það náð fram að ganga. Ég er þeirrar skoðunar að það megi jafnvel ótrúlegustu hluti flokka undir félagslegar aðstæður. Eins og ég hef áður vikið að byggist minn fyrirvari varðandi fylgi við gr. 9. 1 fyrst og fremst á þessu.

Ég vona a. m. k. að allflestir, ef ekki allir hv. alþm., og sem flestir íslendingar hafi horft á mynd í sjónvarpinu fyrir nokkru sem var sýnd að gefnu tilefni þegar þetta mál var á dagskrá þá. Ég horfði á hana og ég fyrir mitt leyti sannfærðist enn frekar um það eftir að hafa horft á þá mynd að hér er full og brýn nauðsyn á að fara með gát. Ég held líka að reynsla þeirra þjóða, sem hvað lengst hafa gengið í frjálsræði í þessum efnum, sýni það og eigi að vera okkur til varnaðar í þessum efnum. Það verður erfiðara að mínu áliti að stíga skrefið til baka eftir að það er búið að taka það of langt.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta frekari orð. Ég hygg að öllum sé ljós afstaða mín til þessa máls. Ég hef ekki farið og fer ekki í neinar grafgötur með hana. Þetta er mín sannfæring, mitt persónulega grundvallarviðhorf til lífsins, eins og ég hef orðað það. Eins og ég sagði áðan, ég tel að siðmenntað nútíma velmegunarþjóðfélag, eins og við íslendingar teljum okkur til og vissulega erum, eigi að búa þannig að hverjum einasta einstaklingi í landinu að engar félagslegar aðstæður geti orðið orsök eða grundvöllur að aðgerð eins og hér er talað um. Og ég vil að síðustu segja það að það er mín skoðun að þjóðfélagið eigi að láta hvern og einn einstakling hafa það á tilfinningunni að hann sé ábyrgur gerða sinna í þessu sem öðru. Það er grundvallaratriði að hver og einn einasti þjóðfélagsþegn hafi það á tilfinningunni að hann eigi að vera ábyrgur sinna gerða og kannske ekki síst í þessum efnum,

Af framansögðu hygg ég að það sé öllum ljóst, en ég vil þó ítreka það, að við atkvgr, þessa máls mun ég greiða atkv. gegn gr. 9. 1 eins og hún nú er.