21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., felur í sér þátt í heildarstefnu núv. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Það mótast af ískyggilegri og þröngri stöðu þjóðarbúsins, sem stafar af efnahagslegri óstjórn fyrri ára og mestu viðskiptakjaraskerðingu gagnvart útlöndum sem íslensk hagsaga síðustu áratuga greinir frá að skollið hafi yfir á einu ári. Viðskiptakjararýrnunin hefur skert kjör þjóðarheildarinnar svo mjög af algerlega utanaðkomandi og óviðráðanlegum orsökum að láta mun nærri að íslendingar geti nú sem þjóð keypt ríflega þriðjungi minna magn af innfluttum nauðsynjum fyrir hvert tonn af almennum útfluttum sjávarafurðum en unnt var í byrjun ársins 1974 eða fyrir rúmu ári. Þetta stafar af gífurlegri hækkun á innfluttum vörum og þjónustu í erlendri mynt á sama tíma og tilfinnanlegt verðfall hefur orðið á sjávarafurðum á heimsmarkaði. Þessi staðreynd er byggð á opinberum tölum Þjóðhagsstofnunarinnar sem segja allan sannleikann um það hve viðskiptakjarasveiflan hefur orðið okkur óhagstæð á undanförnu ári. Þessar tölur segja ekki bara hálfan og skrumskældan sannleikann, eins og tölur sem komu fram í máli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, og hann las upp eftir þingbróður sinn og félaga, Lúðvík Jósepsson, sem skrifaði meiri hlutann af nál. minni hl. fjh.- og viðskn., en það mun sennilega vera nokkurt einsdæmi í þingsögunni, að einn þm. skrifar formála og eftirmála að nál., en annar meginefni nál.

Kjarni þessa frv. er sá að skapa svigrúm til almennrar skattalækkunar og aukinna orkuframkvæmda. Þetta svigrúm er óumflýjanlegt að mynda með því að lækka heildarútgjöld fjárl. um allt að 3 500 millj. kr. og setja fjárfestingarlánasjóðnum almennan útlánaramma, svo sem gert er í frv. Í frv. eru ákvæði sem kveða á um að heimila lækkun beinna og óbeinna skatta sem svarar yfir 2 000 millj. kr. á þessu ári, miðað við þá skattbyrði, sem fólk fengi að óbreyttum lögum. Auk þess er í frv. ákvæði sem heimila ríkisstj. að taka aukin lán til orkuframkvæmda og nemur aukningin tæplega 1300 millj. kr. frá heimildum fjárl. Þá felur frv. í sér mikilvæga skattkerfisbreyt. sem er mjög hagstæð láglaunafólki, og í því er stigið fyrsta skrefið í samræmingu almannatryggingakerfis og skattkerfis, þannig að tekjujöfnunaraðgerðir ríkisvaldsins verða við lögfestingu frv. einfaldari og auðveldari í framkvæmd.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar í dag. Hann taldi sig finna út úr till. meiri hl. fjh.- og viðskn. að það væri stefnt að því með þeim að svíkja loforð forsrh., sem gefið var verkalýðshreyfingunni, um að heildarskattbyrði á almenningi yrði minnkuð um allt að 2 000 millj. kr. Ég vil benda á í þessu sambandi að í frv. eru bein ákvæði og heimildarákvæði um skattalækkanir sem gætu numið verulega meiri upphæð en hér er um að ræða, þannig að það er á valdi ríkisstj. samkv. till. fjh.- og viðskn. að framkvæma þetta mál.

Sú meginstefna, sem hér er lýst að felist í þessu frv., þ. e. a. s. að skapa svigrúm til þess að hraða nýtingu innlendra orkugjafa og létta skattbyrði alls almennings, er í senn rökrétt og réttlát þegar svo kreppir að kjörum þjóðarinnar sem raun ber vitni og erlend orka hefur hækkað jafngífurlega í verði og reynslan sýnir. Þetta er ekki síst rökrétt og rétt stefna við núv. aðstæður þegar það er haft í huga að skattbyrði þeirra, sem minnst mega sín, léttist mest samkv. ákvæðum þessa frv. Framangreinda stefnu þessa frv. er útilokað að framkvæma, ef til þess er ekki jafnframt svigrúm hjá ríkissjóði. Til þess verður að lækka ríkisútgjöldin og vega þannig upp á móti skattalækkuninni. Það gefur auga leið að ríkissjóður notar ekki það fé til útgjalda eða framkvæmda sem hann hefur gefið almenningi eftir í sköttum.

Ef einhverjir halda því fram að lækkun ríkisútgjalda sé óþörf, því að óhætt sé að reka ríkisbúskapinn með halla og skuldasöfnun við Seðlabankann þegar samdráttur er í efnahagslífinu og slaknað hefur á spennu á vinnumarkaðnum, þá er við þá röksemd að athuga að nú höfum við ekki úr neinni gjaldeyriseign að spila. Sannleikurinn er sá að segja má að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins sé nú svo tæp að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar sé hætt ef ekki tekst á næstunni að bæta þar um og helst verulega. Hallarekstur ríkissjóðs, sem hlytist af nauðsynlegri skattalækkun án þess að útgjöld ríkissjóðs yrðu lækkuð á móti, kæmi vitanlega fram í aukinni gjaldeyriseyðslu og veikti því þá veiku gjaldeyrisstöðu sem nú er við að glíma. Af þessu leiðir að lækkun útgjalda ríkissjóðs, aðhald og sparnaður í ríkisrekstrinum eru nauðsynlegar forsendur fyrir því að létta skattbyrðina á almenningi og draga þannig úr kjaraskerðingunni vegna efnahagsáfallanna. Sömu forsendur eru fyrir því að auka orkuframkvæmdir frá því sem stefnt var að við gerð fjárlaga.

Þeir hv. þm., m. a. þeir félagar hv. þm. Magnús Kjartansson og Lúðvík Jósepsson, sem segjast vera á móti niðurskurði á útgjöldum fjárlaga á þeim forsendum að þær aðgerðir komi um of niður á verklegum framkvæmdum, en eru fylgjandi meiri skattalækkun en ríkisstj. stefnir að og meiri aukningu orkuframkvæmda, gera sig því seka um gagnsæjan pólitískan loddarahátt og algert ábyrgðarleysi í þeirri alvarlegu efnahagsstöðu sem nú er við að glíma (MK: Við erum með till. um hækkun á sköttum.) Hv. þm. er með till. um verulegar lækkanir á sköttum, (MK: Hækkun á sköttum.) Verulegar lækkanir á sköttum. Hv. þm. ætti að kynna sér hvað felst í hans eigin till. Till. hans eru í því fólgnar að lækka verulega skatta með því að lögfesta að söluskattur skuli lækkaður á ákveðnum vörutegundum sem nemur miklu meiri fjárhæð en skattahækkunartill. hans sem eru rétt um 120–130 millj. kr. (MK: Eru þá fyrirtækin reiknuð með?) Fyrirtækin, já, það er dæmi sem hv. þm. þyrfti að sýna mér fram á að kæmi út með verulegar skattahækkanir — (Gripið fram í.) (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hafa ekki samtöl á meðan á ræðutíma stendur?) - miðað við það ástand sem er hjá atvinnuvegunum nú.

Þetta frv. ber að sjálfsögðu að ræða í samhengi þeirrar þróunar sem orðið hefur undanfarna mánuði og ár í innlendum og erlendum stjórnmálum og efnahagsmálum. Í því sambandi er auðvitað mikilvægt að hafa í huga þá stórfelldu alþjóðlegu verðbólgu, sem skollið hefur yfir vestrænar þjóðir að undanförnu, olíukreppuna svonefndu, verðfall á íslenskum sjávarafurðum svo og það almenna upplausnarástand sem ríkti í íslenskum efnahagsmálum í tíð fyrrv. ríkisstj., og er þó sérstaklega að minnast þróunarinnar þá 8 mánuði sem hún sat að völdum á s. l. ári. Staðreyndin er sú, sem flestir viðurkenna, m. a. fyrrv. hæstv. ríkisstj. með því að lögfesta að taka kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi á s. l. sumri, að kjarasamningarnir, sem gerðir voru í jan. 1974, voru slíkir að einsýnt var að þjóðarbúið og atvinnuvegirnir fengju ekki undir þeim risið, auk þess sem þeir voru afar óréttlátir gagnvart láglaunafólki. Þótt hið háa verð á sjávarafurðum, sem samningarnir voru miðaðir við, hefði haldist út árið 1974 var samt sem áður engin von til þess að atvinnuvegirnir þyldu kauphækkanir samkv. þessum samningum hvað þá þegar verðfall sjávarafurða kom til eins og raun varð á. Við þetta bættust stórfelldar erlendar hækkanir á nauðsynjum almennings og atvinnuveganna, ofþensla á vinnumarkaði og óðaverðbólga sem nam 50% á árinu. Allir undirstöðuatvinnuvegirnir voru reknir með stórtapi og flest atvinnufyrirtæki sveitarfélaga og opinberar þjónustustofnanir m. a. t. d. Landssíminn og Ríkisútvarpið, reknar frá degi til dags með feiknalegri yfirdráttarskuldasöfnun hjá bankakerfinu. Um þetta ástand í efnahagslífi þjóðarinnar eru handbærar tölur, sem ég hirði ekki að rekja hér. Þótt þær séu hrikalegar kom síðar í ljós að þessar skýrslur Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar, sem gerðar voru við stjórnarskiptin, fólu í sér verulegt vanmat á þeim efnahagsvanda sem blasti við þegar í haust. Þetta kom fram í svari eins af traustustu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar á fundi fjh.- og viðskn., en hann sagði þar að hluti þess vanda, sem við var að glíma eftir áramótin og tekið var á að hluta með gengisbreytingu í febr., mætti rekja til þess að úttektin, sem gerð var í íslensku efnahagslífi s. l. haust, við stjórnarskiptin, hafi ekki leitt í ljós allan vandann sem þá var orðinn. Hann taldi á að giska 1/3 þeirrar gengisbreyt., sem gripið var til í febr., nauðsynlegan vegna þessa vanmats, en 2/3 vegna áframhaldandi verðfalls sjávarafurða eftir áramótin með tilheyrandi sölutregðu.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um kaupmátt launa og þá kjaraskerðingu sem menn telja sig hafa orðið fyrir frá janúarsamningunum 1974, eins og mörgum hefur orðið tíðrætt um. Rétt er að minna á að á árinu 1973 höfðu orðið ævintýralegar hækkanir á íslenskum sjávarafurðum. Þær hækkuðu um 51% í kr., en 40% í erlendri mynt. Þetta var meginástæðan fyrir því að á árinu óx kaupmáttur útflutningstekna okkar yfir 20%, þ. e. a. s. stórfelldur bati varð á viðskiptakjörum þjóðarinnar gagnvart útlöndum. Þessi mikla og óvænta hækkun sjávarafurða fleytti útflutningsatvinnuvegunum áfram þrátt fyrir gífurlega innlenda verðbólgu og þensluástand. Þótt nokkrar blikur væru á lofti í ársbyrjun 1974, t. d. var farið að bóla þá á olíuhækkunum, ríkti nokkur bjartsýni um að útflutningsverðlag á afurðum okkar mundi enn fara hækkandi. Í samningunum í jan. var gengið út frá þjóðhagsspá, sem miðaðist við eftirgreint verð á helstu sjávarafurðum okkar og raunar einnig við fiskverðsákvörðun: Fiskimjöl, verð á próteineiningu 12 dollarar og 20 cent. Þetta verð er nú 3 dollarar og 50 cent. Loðnumjöl: þar var gengið út frá 9 dollurum og 50 centum á próteineiningu. Þetta verð er nú álitið vera 3 dollarar og 25 cent. Hvorar tveggja þessar afurðir hafa sem sagt lækkað í verði um nærri 300%. (MH: Hvernig er hægt að lækka um 300%?) Loðnulýsi var áætlað á tonn 427 dollarar, en er nú álitið seljast á 360 dollara. Saltfiskur hefur hækkað, eina afurðin sem hefur hækkað, úr 1700 dollurum á tonn í 1850 dollara á tonn. Þorskflök: það var miðað við 92 cent á pund í samningunum 1974, en nú er verðið á þessari afurð 84 cent. Þorskblokk: 84 cent var verðið miðað við í samningunum 1974, er nú 58 cent.

Þannig hefur orðið stórfelld lækkun á útflutningsverðlagi sjávarafurða frá því verði sem gengið var út frá í kjarasamningunum 1974. Ef framleiðsla ársins 1974 af ofangreindum sjávarafurðum hefði verið seld á því verðlagi, sem nú er í dag, fengjum við fyrir hana um 47 millj. dollara minna en ef hún hefði öll selst á því verði sem var grundvöllur kjarasamninganna í jan. 1974. Í þessu dæmi er að sjálfsögðu reiknað með verðhækkun á saltfiski. Þetta merkir 7 004 millj. kr. tekjutap fyrir þjóðarbúið í erlendum gjaldeyri miðað við núv. gengi. Þótt tekjutapið hafi í raun orðið nokkru minna en þetta, vegna þess að hluti framleiðslunnar seldist á hærra verði en gildir í dag, sést um hvaða þróun er að tefla. Þetta sýna tölur Þjóðhagsstofnunar svart á hvítu ef þær eru ekki valdar með tilliti til blekkinga eins og hefur verið gert í þessum umr.

Með verðfallinu á fiski er þó ekki nema hálf saga sögð eða tæplega það. Verðlag á innflutningi í erlendum gjaldeyri hækkaði hvorki meira né minna en um 35% á árinu 1974, sem er miklu meiri hækkun en nokkurn óraði fyrir í ársbyrjun þegar kjarasamningarnir voru gerðir. Innflutningur nam á árinu 1973 22 200 millj. kr. Sama magn kostaði þjóðarbúið ári síðar 7 700 millj. kr. meira í erlendri mynt, á sama gengi reiknað. Þetta er tekjutap fyrir þjóðarbúið, kjaraskerðing fyrir þjóðarbúið, og það má kannske til glöggvunar greina frá því að þarna er um upphæð að ræða sem jafnast á við það sem öll málmblendiverksmiðjan í Hvalfirði er talin kosta, það sem íslenska þjóðin þurfti að greiða fyrir sínar erlendu nauðsynjar á árinu 1974 fram yfir það sem hún þurfti fyrir sama magn á árinu 1973. M. ö. o.: kaupmáttur útflutningstekna þjóðarbúsins raskaðist, rýrnaði um þriðjung á árinu, og má líkja því við heimili þar sem heimilið varð að kaupa nauðsynjar á 35% hærra verði á sama tíma og tekjur þess lækkuðu.

Það er ljóst af þessu, sem ég hef hér rakið, að öll viðmiðun við kaupmátt launa eftir kjarasamningana í janúar 1974 er alveg jafnóraunhæf og því sé haldið fram að engu máli skipti hvernig framleiðsla þjóðarbúsins gangi og hvaða verð fáist fyrir hana, þetta hafi engin áhrif á laun eða getu atvinnuveganna til þess að standa undir launakostnaði.

Gleggsta dæmið um þær miklu búsifjar, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna hækkunar á innfluttum nauðsynjum, er að sjálfsögðu olíuhækkunin. Eftirtaldar tölur um innflutning okkar á bensíni og olíum frá Sovétríkjunum tala skýru máli í þessum efnum. 1972 fluttum við inn 380 þús. tonn af bensíni og olíum og það kostaði 935 millj. kr., meðalverð var 2.2. millj. kr. á þús. tonn. 1973 fluttum við inn 490 þús. tonn og það kostaði 1 635 millj. kr. eða 3.3 millj. kr. meðalverð á þús. tonn. 1974 480 þús. tonn og það kostaði 4.433 millj. kr., meðalverð 9.3 millj. kr. á þús. tonn. 1975 er áætlað að við flytjum 500 þús. tonn inn af bensíni og olíu frá Sovétríkjunum og er áætlað að það kosti 7 300 millj. kr. eða 14.6 millj. kr. meðalverð á þús. tonn. Þetta sýnir að heildarbyrði olíuverðhækkana mun enn vaxa á árinu 1975, þótt verðlag á olíu haldist óbreytt út árið, vegna þess að fyrri hluta ársins 1974 var flutt inn olía og bensín á tiltölulega lágu verði miðað við verðlag í dag.

Á sama tíma lækkaði fiskur í verði sem við seldum sovétmönnum. Mér reiknast til að fyrir framangreindan innflutning af olíu og bensíni höfum við þurft að greiða í þorskflökum sem hér segir: 1972 1706 tonn af frystum þorskflökum, 1973 2666 tonn af frystum þorskflökum, 1974 4061 tonn og 1975 hvorki meira né minna en 7 000 tonn, Olíuverðhækkunin frá árinu 1973 til og með yfirstandandi árs jafngildir því blóðtöku sem nemur um 4 000 tonnum af frystum þorskflökum. Þau verðmæti koma ekki lengur til skipta milli íslenskra heimila þótt hliðstæð verðmæti hafi gert það á árinu 1973 sem var viðmiðun kjarasamninga í jan. 1974.

Af framansögðu er óhætt að fullyrða að fáar ríkisstj. á Íslandi hafa tekið við hrikalegri efnahagsvanda en ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar á s. l. hausti — vanda sem stafaði bæði af innlendum og erlendum orsökum. Úttekt sýndi að gengi íslensku krónunnar var fallið. Síðar kom í ljós að það var í raun fallið meira en gengisskráningunni var breytt. Meginástæður fyrir verðfalli gjaldmiðilsins voru innlend óðaverðbólga og stórversnandi viðskiptakjör, sem útflutningsatvinnuvegirnir fengu með engu móti undir risið. Samtímis þessu var gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða sökum hækkunar söluskatts og framlengingar laga sem fyrrv. ríkisstj. setti um afnám vísitölu. Síðar komu í kjörfarið láglaunabætur í stað vísitöluuppbóta á laun, Þessi úrræði og aðrar aðhaldsaðgerðir reyndust þó því miður alls ónóg, sumpart vegna vanmats á þeim vanda sem við var að glíma við stjórnarskiptin, eins og áður segir, en að verulegu leyti vegna 8–10% áframhaldandi verðfalls á sjávarafurðum eftir áramót. Því varð að grípa til annarrar gengisbreytingar í febr. s. l. og síðan hafa verið í undirbúningi víðtækar efnahagsráðstafanir sem þetta frv. er hluti af, sem allar hafa það markmið að koma þjóðarbúskapnum á réttan kjöl eftir áföllin, tryggja fulla atvinnu og jafna byrðum viðskiptakjaraskerðingarinnar réttlátlega á þjóðfélagsþegnana.

Allar þessar viðkvæmu og erfiðu aðgerðir þurfti að gera á sama tíma sem velflest launþegasamtök í landinu voru með lausa samninga og gátu gripið til vinnustöðvana með fárra daga fyrirvara. Ríkisstj. lýsti yfir því frá upphafi að hún mundi hafa náin samráð við launþegasamtökin í þessum efnum, Það hefur eðlilega tekið sinn tíma, en borið þann árangur að bráðabirgðasamkomulag hefur náðst um almennan vinnufrið sem m. a. á að hagnýta til þess að aðilum vinnumarkaðarins gefist tóm til að ræðast við um skynsamlegra vísitölukerfi en hér hefur tíðkast og um uppstokkun á flóknu sjóðakerfi sjávarútvegsins og hlutaskiptareglum. Engum blöðum er því um það að fletta að þær vinnuaðferðir sem núv. hæstv, ríkisstj. hefur beitt við það vandasama verkefni að ná tökum á þeim hrikalega efnahagsvanda sem fyrrv. ríkisstj. skildi eftir sig og orsakaðist einnig af hinni geigvænlegu viðskiptakjaraskerðingu, hafa borið árangur og reynst réttar á þeim viðkvæmu tímum, sem jafnan eru, þegar miklar og almennar kjaradeilur standa yfir í landinu. Fyrir þetta tel ég að ríkisstj. og þá einkum núv. hæstv. forsrh. eigi miklar þakkir skildar.