22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Það er nú kannske að bera í bakkafullan lækinn að fara hér mörgum orðum um það mál sem hér er til umræðu, enda skal ég ekki vera langorður að þessu sinni. Ég vil þó víkja hér að örfáum atriðum sem fram hafa komið bæði nú í kvöld og fyrr við þessar umr.

Það er auðvitað öllum orðið ljóst, öllum almenningi í landinu, fyrir löngu, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur engin tök á því að leysa þann efnahagsvanda sem hún sjálf telur vera að glíma við. Margt kemur sjálfsagt til í þessum efnum, kannske þó fyrst og fremst það ósamlyndi sem virðist ríkja á stjórnarheimilinu, ekki aðeins milli stjórnarflokkanna tveggja, heldur og innbyrðis hjá hvorum þeirra um sig. Þetta hefur komið fram í mörgum tilvikum. Hefur verið bent á með mörgum dæmum og væri hægt að auka þar við.

En það er ekki aðeins á sviði þessara mála sem fram hefur komið getuleysi og stjórnleysi núv. hæstv. ríkisstj. Það er ekki bara varðandi landsmálin, efnahagsmálin eða landsmálin í heild. Við höfum orðið þess varir hér á hv. Alþ., kannske fyrst og fremst hina síðustu daga, hvert stjórnleysi ríkir hér í þingsölum þegar það getur verið svo að önnur hv. d., þ. e. a. s. hv. Nd., er á fundum dag eftir dag, kvöld eftir kvöld, án þess að hin d. hafi eitt einasta mál til að ræða um. Og það gengur svo langt að þrátt fyrir þessa staðreynd er enn haldið áfram að leggja fram frv. í þessari hv. d. á sama tíma og hin situr aðgerðalaus dag eftir dag. Þetta er aðeins eitt dæmið um hið algera stjórnleysi sem nú virðist ríkja hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Eitt af því, sem hvað mest hefur verið um rætt varðandi það mál sem hér er nú til umr., hefur verið í sambandi við skattalækkun og þá kannske fyrst og fremst þær yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstj. gaf í tilefni af samningsgerð fyrir nokkru og efndum á þeirri yfirlýsingu og óskum samninganefndar Alþýðusambands Íslands þar um. Það er nú ljóst að það á ekki að fullu að standa við þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar, a. m. k. ekki á þann veg sem miðstjórn og samninganefnd Alþýðusambands Íslands tóku þá yfirlýsingu. Þetta er ljóst af úrslitum mála og atkvgr. hér í dag, þannig að það liggur nú fyrir að það á ekki að taka tillit til þeirra eindregnu óska samninganefndar og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þá skattalækkun sem gefið var fyrirheit um, þ. e. a. s. í því formi sem óskað var eftir að hún yrði. Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum þar um, þetta hefur komið ljóst fram í umræðum hér, bæði í dag og nú, og skal ég ekki lengja mál mitt frekar þar um. En þetta verður þó aldrei nógsamlega undirstrikað, að hér er að hluta hlaupið frá fyrir fram gefnum yfirlýsingum að því er þetta atriði áhrærir. Það virðist því vera ljóst að það er meira tillit tekið til óska ýmissa annarra stétta eða hópa, sem þarna eiga hlut að máli, heldur en miðstjórnar og samninganefndar Alþýðusambands Íslands. Nægir þar að benda á þá brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. við sína eigin brtt., sem fyrr var komin fram, í sambandi við það að leyfa ekki nema að 50% flýtifyrningarákvæði sem reist voru á tilkynningu sem út var gefin af fjmrn. í desember s. l.

Það, sem kom mér fyrst og fremst til að kveðja mér hér hljóðs að þessu sinni, er í sambandi við þá gr. frv. sem gerir ráð fyrir lántökuheimildum til handa fjmrh. til ýmissa framkvæmdaliða. Mín ósk að þessu leyti til er fyrst og fremst um það að hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. gæti gefið yfirlit eða frekari sundurliðun á því hvernig ætlað er að verja því fjármagni sem gert er ráð fyrir að fjmrh. hafi heimild til að taka að láni. Mér finnst það skipta nokkuð miklu máli, a. m. k. í mínum augum, með hverjum hætti þessum fjármunum verður varið.

Af því að ég er kominn hér upp get ég ekki stillt mig um að fara örfáum orðum um sérstaklega eitt eða ef til vill tvö atriði sem fram komu í ræðu hv. 4. þm. Austf., Tómasar Árnasonar. Hann gerði hér, að því er mér virtist, allsherjarúttekt á umræðum um efnahagsmál, kom víða við. En það sem mér fannst hvað athyglisverðast, sem ég þó raunar taldi mig vita að nokkru fyrir, það var hversu lítið þessi hv. þm. Framsfl. vildi gera úr þeirri heimild sem um er rætt í l. gr. þessa frv., þ. e. a. s. heimild til niðurskurðar á fjárlögum allt að 3500 millj. kr. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að um þetta er allmikill ágreiningur meðal stjórnarflokkanna. Hv. þm. Framsfl. halda því fram, eins og hv. 4. þm. Austf. gerði hér áðan, að hér sé aðeins um heimild að ræða sem þeir vilji a. m. k. ekkert um segja hvort notuð verði eða ekki. Mér skildist á ræðu hv. 4. þm. Austf. að hann og sjálfsagt fleiri þm. Framsfl. væru a. m. k. uppi með hugmyndir um að koma því í framkvæmd að þessi niðurskurður yrði ekki gerður.

Allt annað blasir við þegar litið er til hins stjórnarflokksins, þ. e. a. s. þess flokks sem hefur fyrst og fremst forustuna í ríkisstj., þ. e. Sjálfstfl. Það er augljóst mál að sá flokkur, fulltrúar hans bæði hér á Alþ. og í aðalmálgögnum flokksins, telja að annað af höfuðatriðum þess frv., sem hér er nú verið að ræða, sé niðurskurður á opinberum framkvæmdum um allt að 3 500 millj. kr. Nægir þar að vitna til aðalmálgagns hæstv. forsrh., þ. e. Morgunblaðsins, frá s. l. sunnudegi, en þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú eftir helgina verður tekið til óspilltra málanna að ræða frv.“ — þ. e. a. s. frv. um efnahagsmál sem hér er til umr. — „og fá það lögfest, en meginatriði þess er, eins og kunnugt er, að lækka skatta um 2 milljarða, ýmist beina skatta eða óbeina, og hins vegar“ — og þessu ætti hv. 4. þm. Austf. að taka eftir — „og hins vegar að skera niður opinberar framkvæmdir um allt að 3.5 milljarða kr.“

Hér er ekkert farið í grafgötur um það að þetta er eitt eða réttara sagt annað af höfuðatriðum þess frv. sem hér er nú verið að ræða. Annað höfuðatriði er niðurskurður á opinberum framkvæmdum um 3 500 millj. kr. sem forustuflokkurinn í ríkisstj. heldur fast við en hinn stjórnarflokkurinn í ríkisstj. vill á hinn bóginn gera sem minnst úr á öllum sviðum og reyndar gefur í skyn að það komi til einskis niðurskurðar að þessu leyti.

Hv. 4. þm. Austf. sagði áðan að a. m. k. alþb.-menn gerðu mikið úr þessu niðurskurðartali, bæði hér á hv. Alþ. og eins í skrifum þar um. Ekki bæri ég svo mikinn kvíðboða fyrir því ef hér væri einungis um það að ræða að talsmenn Alþb. hér á Alþ. væru einir um að gera mikið úr þessari gr. frv. En því miður er málinu ekki svo háttað. Það eru ekki bara talsmenn Alþb. sem gera mikið úr þessu atriði, það eru einnig stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj., a. m. k. Framsfl., sem hrýs hugur við þeirri stjórnarstefnu sem mörkuð hefur verið. Í því sambandi vil ég, með leyfi forseta, lesa úr forustugrein í Degi á Akureyri sem er málgagn Framsfl. þar. Yfirskrift þessarar forustugreinar er „Byggðastefnan í hættu“. Það væri vissulega ástæða til þess fyrir bæði hv. 4. þm. Austf. svo og aðra þá framsóknarmenn sem kynnu að vaða í þeirri villu að halda að það sé haldið uppi óbreyttri og jafnvel meiri byggðastefnu heldur en var í tíð fyrrv. ríkisstj., — það væri fróðlegt fyrir þessa hv. þm. að kynna sér þær skoðanir sem koma fram í umræddri forustugrein, en ég vil, með leyfi forseta, lesa hér eftirfarandi:

„Eitt veigamesta stefnuatriði núv. ríkisstj. er að halda uppi öflugri byggðastefnu, jafnvel meiri en á vinstristjórnarárunum. Margt er hægt að fyrirgefa mistækri stjórn sem gengur fram undir merki byggðastefnunnar í verki, jafnvel ný fjárlög með hverju nýju tungli. En stundum villast menn eða hrekjast af leið, jafnvel þótt hún hafi verið skýrt mörkuð, og nú sýnast stjórnvöld hafa tapað byggðastefnunni. Ný stóriðja á Suðvesturlandi og ný stórvirkjun hennar vegna einnig á Suðvesturlandi og niðurskurður verklegra framkvæmda, sem auðvitað kæmi fyrst og fremst niður á landsbyggðinni, er stórkostleg stefnubreyting eða alger villa því að þessar ráðstafanir ganga þvert gegn byggðastefnu.“ Og áfram heldur: „En hvernig stendur á áttavillu stjórnar og þings? Hafa þm. og þjóðin beygt sig fyrir lævísum áróðri um að þeim beri að byggja upp og treysta atvinnulífið á einum stað landsins en öðrum landshlutum verði aðeins að sinna í neyð? Á þessu tvennu er sá reginmunur að fulltrúar á löggjafarþingi og stjórnsýslunarmenn hefðu átt að halda vöku sinni. Þessi meginmunur kemur m. a. fram í stórvirkjunum hverri af annarri á Suðvesturlandi, stóriðju, vegagerð, hafnarbótum o. fl., á meðan sú deyfð ríkir á Norðurlandi sem orkumálin þar eru glöggt dæmi um.“

Ég held að ekkert fari milli mála hver er skoðun þess eða þeirra framsóknarmanna á Akureyri sem standa að forustugrein sem þessari. Það er því alveg ljóst að almenningur úti á landsbyggðinni er mjög uggandi um sinn hag verði fram haldið óbreyttri þeirri stefnu sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp í efnahagsmálum. Það er stefna sem er fjandsamleg þeirri byggðastefnu sem uppi var höfð í tíð fyrrv. ríkisstj.

Þá vék hv. 4. þm. Austf. að fjárlögunum og því stóraukna fjármagni sem hann taldi að gert væri ráð fyrir til eflingar Byggðasjóði. Að vísu er rétt, að það er gert ráð fyrir því að töluvert aukið fjármagn renni til Byggðasjóðs. En það hefur sýnt sig að núv. hæstv, ríkisstj. hefur hagað málum þann veg að með því að auka þetta framlag til Byggðasjóðs hefur hún samhliða fært af fjárlögum ýmsa pósta sem þar hafa áður verið sem útgjaldaliðir, en fært þá yfir á Byggðasjóð. Það má því segja að a. m. k. verulegur hluti af þessu aukna fjármagni sé tekinn til Byggðasjóðs með þeim hætti að það eru teknir útgjaldaliðir sem áður hafa verið á fjárlögum. Þetta er auðvitað ekkert nema tilfærsla sem hér er um að ræða, — tilfærsla sem kemur ekkert betur að notum landsbyggðinni heldur en ef það hefði verið áfram eins og verið hefur, sem útgjaldaliður á fjárlögum eða bein fjárveiting. Einnig er ljóst að verði það úr að um niðurskurð á fjárlögum verði að ræða, þá leiðir það af sjálfu sér að þetta fjárframlag til Byggðasjóðs kemur einnig til með að lækka frá því sem gert var ráð fyrir.

Ég held að það fari enginn í grafgötur um það að stefna núv. hæstv. ríkisstj. er því miður á þann veg að stíga til baka frá þeirri uppbyggingar- og landsbyggðarstefnu sem fylgt var í tíð fyrrv. ríkisstj., enda er komið í ljós að sú er staðreyndin. Það er að koma upp sama viðhorf og var í tíð viðreisnarstjórnarinnar, þ. e. a. s. að allar líkur eru á því að fólksflótti frá landsbyggðinni hefjist aftur hingað á þéttbýlissvæðið, en því var búið að snúa við í tíð fyrrv. ríkisstj. Það ber því allt að sama brunni. Efnahagsstefnan verður þess valdandi að þeir landshlutar, sem svo sannarlega hefðu þurft á því að halda að haldið hefði verið áfram uppbyggingu atvinnulífs á þeim stöðum, eru nú uggandi um að stórt skref verði stigið til baka frá því sem verið hefur undanfarin 3 ár, enda held ég að það sé svo í raunveruleikanum að þeir séu tiltölulega fáir, þeir hv. þm., a. m. k. Framsfl., sem innst inni eru um það sannfærðir að uppi sé haldið undir merkjum núv. hæstv. ríkisstj. sömu byggðastefnu og var í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég efast um að þeir finnist öllu fleiri í þingliði Framsfl., sem telja sér trú um slíkt, en hv. 4. þm. Austf., ef hann gerir það þá.

Ég skal ekki orðlengja þetta öllu frekar. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, taka það fram að við munum að sjálfsögðu fylgja þeim brtt. sem fram eru bornar af hálfu minni hl. fjh.- og viðskn., þeirra hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég tel ekki ástæðu til að fara um þær neinum orðum hér. Það hefur verið gert, þær hafa verið skýrðar, en ég vil taka það fram að við munum að sjálfsögðu greiða þeim atkv.