23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þegar við 1. umr. komu fram vangaveltur um þetta frv. og fannst mér að menn væru heldur á því að styðja það, og efnislega er ég á því, þó að við teldum þá að væru erfiðar aðstæður. En ég gat þess um leið að fyrst væri verið að viðurkenna hugverk hér í framkvæmd með því að veita úr ríkissjóði ákveðna greiðslu fyrir slíka vinnu, þá teldi ég að tónskáld ættu að fylgja með, sem væri þá efling fyrir tónlistina í landinu að mínu mati. Ég drap á þetta á nefndarfundi, en það var ekki útrætt. Svo urðu þau mistök að þegar málið var endanlega afgr. í menntmn., þá fékk ég tilkynningu um skakkan fundartíma og kom því nokkuð of seint, eftir að fundi var lokið, og því stend ég einn að brtt. á þskj. 459 um að við bætum tónskáldunum hér við og að mynda skuli sjóð til þess að styrkja rithöfunda og tónskáld, þ. e. a. s. þá menn er leggja vinnu í að semja hugverk, og vil ég ekki gera greinarmun á í þessu sambandi. Hitt er staðreynd, að tónskáld hafa ekki verið eins aðgangshörð í sínum kröfum og rithöfundar og haft sig minna í frammi. En ég tel að fyrst þjóðin er hér að greiða fyrir huglæg verk, þá muni hún ekki síður njóta verka tónskálda frá morgni til kvölds við dagleg störf og annars staðar en talaðs orðs. Og þó að einhver kunni að segja að þetta séu óskyld mál og tónskáld hafi ekki enn tekið endanlega afstöðu hvað þau vilji í þessu efni, þá liggja fyrir bréf frá fyrri tíma hér á hv. Alþ. þar sem þau óska eftir því að eftir þeim sé munað. Ég trúi því varla að hv. d. vilji afgreiða svona mál öðruvísi en athuga það gaumgæfilega að tónskáld fylgi hér með. Ef mönnum sýnist að upphæðin verði þá of lág, ef þeir koma inn, þá er hægur vandi að hækka þá tölu um 2 eða 3 millj. Það er hægur vandi.

Það segir í 3. gr. að heimilt sé að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku. Ég verð að segja það að ef á að beita þessari heimild þá tel ég í hæsta máta ósanngjarnt að viðurkenna ekki eðlilega launagreiðslu til tónskálda, heldur fara að greiða mönnum áður fyrir þýðingar, þótt á góðum skáldverkum séu eftir erlenda rithöfunda. Ég vil leggja starfsemi þessara ágætu manna, sem fást við huglæg verk, að jöfnu vegna þess að þjóðin nýtur tónskáldanna og túlkenda þeirra verka ekkert síður en rithöfundanna. Þess vegna hef ég leyft mér að koma með þessa brtt. sem er á þskj. 459. Hún gerir ráð fyrir því eins og sjá má, hún er skýr og lítil, að inn í þetta komi einnig tónskáld og liggur því ljóst fyrir að þá yrði þetta kallað „um launasjóð rithöfunda og tónskálda“. Ég vænti þess að hv. þdm., ef þeir á annað borð vilja veita frv. framgang, hafni ekki því að tónskáldin fylgi hér með nú.