30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í 2. gr. l. nr. 78 frá 1974 er gert ráð fyrir að myndaður verði sérstakur sjóður af gengismun af sjávarvörubirgðum og ógreiddum útflutningi sjávarvöru vegna þessarar gengisbreytingar. Þar eru í 2. gr. ákvæði um þrenns konar greiðslur sem inntar skulu af hendi af gengishagnaði áður en hann kemur til ráðstöfunar:

a. Hækkanir á flutningskostnaði og öðrum sambærilegum kostnaði við útflutning vegna þeirra afurða sem framleiddar hafa verið fyrir gengisbreyt. eða fyrir 1. sept. 1974, en fluttar út á hinu eldra gengi.

b. Gengisbætur vegna innstæðna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sbr. ákvæði l. nr. 18 frá 4. apríl 1972.

c. Halli sem verða kann vegna niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa fram til 1. okt. 1974.

A- og c-liðir hafa verið greiddir upp skv. 1ögunum, en b-liðurinn, gengisbætur vegna innstæðna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, hefur ekki verið greiddur, og seint á s. l. hausti gaf ríkisstj. út yfirlýsingu um að hún muni beita sér fyrir því að þessi b-liður yrði felldur niður. Það hefur orðið dráttur á því að þetta frv. væri flutt. En gengið var út frá því við afgreiðslu Alþ. á brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegi fyrir jólin að þessi b-liður yrði felldur niður og við skiptingu á gengishagnaði eru þessar 400 millj. teknar með í þá skiptingu svo að í reynd hefur verið fallið frá þessum b-lið, en er nú verið að óska eftir lagalegri staðfestingu á því með því að bera fram þetta frv.

Um þetta frv. eða niðurfellingu á þessum b-lið er enginn ágreiningur því að það var samdóma álit allra við sjávarútveg, að ekki kæmi til greina að taka af gengishagnaðinum í des. þessar 400 millj. til þess að bæta innstæðu Verðjöfnunarsjóðsins. Sá eini aðili sem þarna var mótfallinn, var bankastjórn Seðlabankans, en eins og ég sagði áðan hefur náðst fullt samkomulag við hana, þannig að um þetta atriði á því ekki að vera nokkur ágreiningur.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til hv. sjútvn.