30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

256. mál, grunnskólar

Flm. (Sigurður Blöndal) :

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 606 að flytja frv. um breyt. á 1. nr. 63 frá 21. maí 1975 um grunnskóla. Það er breyt. í 1. gr. við 79. gr. grunnskólalaganna, þ. e. að aftan við hana bætist:

Ríkissjóður greiðir upphitun skólahúsnæðis á móti sveitarsjóðum í því hlutfalli, sem nú skal greina :

Sveitarsjóðir greiða upphitun sem nemur meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem nýtur jarðhita.

Ríkissjóður greiðir eftir á, samkvæmt endurskoðuðum reikningum og fskj., upphitun, sem er yfir því marki, sem 4. málsgr. tiltekur, upp að meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem hitað er með olíu eða rafmagni.“

Og 2. gr.: „Niður falli orðið „hitun“ í 1. línu 80. gr. 1.“

Það eru tvær höfuðástæður fyrir því að þetta frv. um breyt. á grunnskólalögunum er lagt fram. Vissulega verð ég að játa, að það má kannske teljast óeðlilegt að það komi fram frv. um breyt. á þessum l. sem eru ekki nema um árs gömul, en það eru sem sagt tvær höfuðástæður til þess að ég ber þetta frv. fram. Það er í fyrsta lagi hin gífurlega hækkun á verði olíu sem nú leggst með miklum þunga á þau sveitarfélög sem hita skóla sína með olíu, alveg sér í lagi þá skóla sem hafa heimavist, en það er einmitt í fámennum sveitahreppum, og í öðru lagi er sú ástæða að mismunurinn á kostnaði við hitun skólahúsnæðis annars vegar með jarðhita og hins vegar með olíu og í örfáum tilfellum kannske rafmagni, sem fylgir olíuverði, er svo mikill að við það skapast aðstöðumunur milli sveitarfélaga af slíkri stærð að eðlilegt og sjálfsagt sýnist að ríkið jafni hann.

Ég hef fengið frá menntmrn. upplýsingar um hitunarkostnað skólahúsnæðis víðs vegar á landinu árið 1974. Þegar þetta yfirlit var tekið saman lágu að vísu ekki fyrir upplýsingar frá alveg öllum skólum landsins, en kostnaðurinn við þá, sem hitaðir voru með olíu eða rafmagni, 112 talsins, var rúmar 60 millj. kr., en með jarðhita, utan Reykjavíkur, 24 skólar, tæpar 5 millj., 4.9 millj. rúmar, og þá vantaði ekki upplýsingar nema um 5 skóla sem hitaðir voru með jarðhita svo að telja má að sú tala sé nokkuð nærri sanni. Hitakostnaður við skólana hér í Reykjavík á skyldunámsstigi, sem grunnskólalögin ná yfir, nam rétt rúmum 17 millj. kr. Hins vegar vantaði um þá skóla, sem hitaðir eru með olíu eða rafmagni, upplýsingar frá rúmum 30 aðilum. Það verður að geta þess hér til þess að viðhafa fullan heiðarleika að í sumum þessum skólum er rafmagnskostnaður ekki sundurliðaður frá hitakostnaði því að sveitarfélögin bera þessa tvo liði, hita og ljós, saman, það kemur á sveitarfélögin ein. Það er í einstaka tilfellum sem ljós og hiti eru færð í einni tölu, en það eru svo fá tilfelli sem ég gat fengið staðfest að það breytir ekki heildarmyndinni. Heildarupphæðin hér að ofan verður þá heldur í óhag þeim sem hitaðir eru með jarðhita, þ. e. frekar of há en of lág.

Það má nefna sem dæmi um mismun á hitunarkostnaði með olíu eða jarðhita að í nokkrum þeirra skóla, sem hitaðir eru með jarðhita, er kostnaðurinn á árinu 1974, sem tölurnar ná til, núll, hann er enginn. En aftur á móti í sumum stórum heimavistarskólum í sveit er hitunarkostnaður þeirra skóla, sem hitaðir eru með olíu, gífurlega hár Ég vildi aðeins nefna hér örfáar tölur þessum staðhæfingum mínum til stuðnings. Ég hef umreiknað hita annars vegar með jarðhita og hins vegar með olíu á fermetra í skólahúsnæði sem er sú stærðareining, sem byggingadeild menntmrn. notar nú um þessar mundir. Þá kemur t. d. í ljós að ef tekið er það skólahúsnæði sem Reykjavíkurborg eða Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hefur gefið upp var kostnaðurinn árið 1974 samtals 17 millj. rúmar í 80 þús. fermetra húsnæði, þ. e. a. s. 203 kr. á fermetra fyrir árið 1974. Í Keflavík, sem hitar með olíu, það er heimangönguskóli eins og hér tíðkast í Rvík, er þessi sami kostnaður tæpar 293 kr. á ferm., þar er hann þriðjungi hærri. Svo hef ég einn heimangönguskóla í þorpi utan Reykjavíkur. Þar fer fermetrakostnaðurinn upp á hvorki meira né minna en 1300 kr. Svo hef ég hér einn heimavistarskóla sem hitaður er með jarðhita þar sem kostnaðurinn er 0. Og ég hef annan heimavistarskóla í sveit þar sem kostnaðurinn er 66 kr. á fermetra. Það virðist vera hitaveita á staðnum þannig að það þarf að kaupa þar heitt vatn. Svo hef ég einn heimavistarskóla í sveit þar sem hitað er upp með olíu. Þar koma út 529 kr. á fermetra. Og ég hef annan sem er með 687 kr. á fermetra, sem sagt nærri 700 kr. Og svo er enn einn sem er með tæpar 400 kr. á fermetra. Sést af þessu að þessi kostnaður er ákaflega breytilegur. Það er auðvitað viss ónákvæmni á þessum tölum, mundu kannske fást nákvæmari tölur ef væri tekið yfirlit yfir lengri tíma en eitt ár. Engu að síður held ég að þetta gefi vissa mynd af því hvað aðstöðumunurinn getur orðið gífurlega misjafn þarna.

Það er skoðun mín að þennan gífurlega aðstöðumun sveitarfélaganna að því er þennan sérstaka útgjaldalið varðar beri að jafna, það sé rétt og skylt af ríkissjóði að jafna hann. Mér er kunnugt um það að meðal forráðamanna sveitarfélaga á því sem mætti kalla köldum svæðum, í þeim landshlutum þar sem ekki nýtur jarðhita, hefur lengi ríkt mikil óánægja yfir að þessi sérstaki útgjaldaliður í skólakostnaði, upphitunin, skuli alfarið færður á sveitarfélögin. Og eftir hina miklu olíuhækkun, sem átt hefur sér stað s. l. tvö ár, hefur þessi munur auðvitað orðið meiri og það er sú staðreynd, að þessi mikla hækkun hefur átt sér stað núna s. l. tvö ár sem gerir það að ég leyfi mér að hrinda þessu máli hér af stað.