02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta fara nú að verða nokkuð spaugilegar umr., sbr. það sem hv. þm. Magnús Torfi sagði hér áðan þegar hann spyr: Hafa menn áhuga á því að flytja sníkjudýr inn til landsins? — og nefndi ýmis nöfn og annað þess háttar og virtist hafa lokað alveg augum og eyrum fyrir því að vísindin hafa nú sem betur fer unnið mikinn bug á þessu nú orðið og komið vörnum við.

Hv. þm. taldi það alveg fráleitt að nota Vestfirði að einhverju leyti fyrir sauðnaut. Ég sagði hluta af Vestfjörðum. Ég átti þar við þann hluta sem ekki er notaður í dag fyrir neinn og það er hluti af Vestfjarðahálendinu sem ekki er notaður í dag, farinn í eyði og á engan hátt nýttur. Hv. þm. telur að það geti verið betra að flytja inn einhver önnur klaufdýr en sauðnaut vegna þess að sauðnaut séu svo mannýg að þau geti drepið menn. Við íslendingar höfum lengi verið varnarlausir, en þó ekki hræddir við dýr. Við vorum það hérna á árunum þegar útlendingar sóttu að okkur og þorðum ekki að skjóta úr byssum þó að við ættum þær, sbr. Tyrkjaránið. Það gæti vel verið að sauðnautin gætu gert okkur hrædda þannig að menn þyrðu ekki einu sinni að bera hönd fyrir höfuð sér,

Ég tel ekki ástæðu til þess að segja meira um það sem hv. þm. Magnús Torfi sagði hér áðan. Sannleikurinn er sá að ég ætlaði ekki að lengja tíma þingsins með umr. um þetta mál þótt hæstv. landbrh. hafi komið mér af stað í fyrstu. En í sambandi við það sem hér var sagt áðan, hvort við íslendingar hefðum eitthvað lært í sambandi við innflutning dýra af fyrri reynslu, — þeir höfðu báðir orð á því, hæstv. ráðh. og hv. þm. Magnús Torfi, að við hefðum átt að læra af fyrri reynslu, — þá vona ég að við höfum gert það því að nú dettur engum í hug að flytja inn lifandi dýr nema það sé tryggt að það valdi ekki smitun. Þess vegna er alveg fráleitt að tala um að það eigi að fara að endurtaka það sem gert var þegar karakúlhrútarnir voru fluttir til landsins. Það dettur engum í hug. Þetta sauðnautamál ætti ekki að fara svo í taugamar á mönnum að það verði gripið til slíkra umr. og rakaleysu eins og að það eigi að fara að endurtaka það sem gert var þegar karakúlhrútarnir voru fluttir inn. Þá var ekki allrar aðgæslu gætt og þá var ekki sú þekking fyrir hendi á sjúkdómum sem nú er.

Mér fannst hæstv. ráðh. verða svolítið tvísaga áðan því að í fyrri ræðu sinni talaði hann um að það væri ekki ráðlegt að samþ. þetta frv. því að það væri nóg að standa undir þeim kostnaði sem af því leiðir að flytja inn holdanautasæði og einangrunarstöðin í Hrísey yrði það dýr að það væri ekki skynsamlegt að fara að efna til kostnaðar á þessu sviði samhliða. En svo segir hæstv ráðh. í seinni ræðunni að það sé hægt að flytja inn nautin án þess að spyrja Alþ. um það vegna þess að það eru einstaklingar sem eru tilbúnir til þess, að leggja í þennan kostnað, það þurfi ekki að taka fé á fjárlög til að standa undir þessum kostnaði. Í fyrri ræðunni varaði hann við því að samþ. þetta kostnaðarins vegna. Menn geta svona lagt út af þessu ef þeir vilja, en þessu ber nú ekki alveg saman.

Hæstv. ráðh. talaði um að það væri ekki ráðlegt að samþ. lög sem byggðust á framkvæmd dauðlegir og hefur það ekki verið þannig í því? Hafa ekki bæði ráðh. og þm. alla tíð verið dauðlegir? Og hefur það ekki verið þannig í okkar stjórnarfari að ráðh. eru alltaf að koma og fara? En sem betur fer kemur alltaf maður í manns stað. Það vill nú þannig til að það veljast ekki frekar menn í ráðherrastöður en aðrar stöður sem eru ábyrgðarlausir. Flestir munu þeir finna til ábyrgðar og meiri ábyrgðar en áður þegar þeir eru komnir í ráðherrastól. Það er illa komið hag okkar íslendinga ef við eigum ekki að hafa þessa skoðun áfram að það verði alltaf menn í ráðherrastól sem hafi nokkra ábyrgðartilfinningu. Ég sagði áðan að ég hefði mætur á yfirdýralækni og treysti honum. En er nú nokkur ástæða til að ætla að það veljist maður í yfirdýralæknisstarfið á eftir Páli A. Pálssyni sem ekki hefur þekkingu og ekki hefur samvisku eða ábyrgðartilfinningu.

Alþingi er alltaf að samþ. lög sem dauðlegir menn eiga að framkvæma, og lögin eru alltaf framkvæmd þótt mannaskipti séu. Þannig er með þetta mál. Það er barnalegt að halda því fram að það geti stafað nokkur hætta af því að samþ. umrædd heimildarlög. Ég held að við allir sem skrifum undir nál. og mælum með því að frv. verði samþ., höfum gert það til þess að málið verði betur athugað en annars yrði gert. Þegar heimildarlögin eru fyrir hendi, þá hlýtur að því að leiða að málið verður rannsakað á raunhæfan hátt, Getur það verið til hags fyrir þjóðina að flytja inn sauðnaut, og er mögulegt að koma í veg fyrir hættuna sem af því kynni að leiða? Er unnt að koma hér upp nokkurri atvinnugrein af þessu tagi sem gæti orðið til fjárhagslegra nota? Hv. þm. Magnús T. Ólafsson gerði ekki mikið úr því, það væru litlir ullarlagðar sem hægt væri að tína og það væri 1 kg á hverju nauti. Mig minnir að það séu 2 kg, en um það þurfum við ekki að þræta. Um það getum við lesið hvort það eru 2 kg eða 1 kg. Ullin er mjög dýr. Það sem skiptir máli, að það verði kannað hvort það geti verið til hagsbóta að flytja sauðnaut inn í landið. Af hverju hafa norðmenn verið að flytja inn sauðnaut? Er það bara til gamans til þess að auka við dýrastofninn hjá sér? Ég held að það hafi verið einnig og ekkert síður vegna þess að þeir töldu vera. fjárhagslegan ávinning að því, og þannig mætti það kannske einnig verða hér.