02.05.1975
Sameinað þing: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

208. mál, stórvirkjun á Norðurlandi vestra

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa mikilli ánægju yfir flutningi þeirrar till. sem hér er til umr., ekki einungis vegna efnis hennar, heldur einnig vegna þess hverjir flm. eru. Það er því miður fátítt að þm. flytji till. um meiri háttar framkvæmdir í öðrum kjördæmum en þeim sem þeir hafa boðið sig fram í. Slík víðsýni heyrir hér til undantekninga. En nú flytur þm. Vestf. og landsk. þm., sem í framboði var í Reykjavík, till. um stórfelldustu framkvæmdir sem um getur í Norðurl. v., framkvæmd sem gerbreyta mun lífsafkomu fólksins í þessum landshluta, vekja með því bjartsýni og verða undirstaða nýrrar framfarasóknar ef í verður ráðist.

Raunar kom það skýrt fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Stefáns Valgeirssonar, að þessi skoðun mín er rétt. Hér er allt of fátítt að menn líti út fyrir sín kjördæmi. Það er sjálfsagt að menn gæti hagsmuna þeirra kjördæma sem þeir eru kosnir fyrir, þeir eiga að gera það, en þeir eiga ekki að einskorða hugann við hagsmuni þeirra kjördæma. Og það var að mínu viti heldur leiðinlegt að þurfa að hlusta á það að þessi hv. þm. rangtúlkaði beinlínis þáltill., sem til umr. er, því að hann sagði margsinnis eitthvað á þann veg að ef hún yrði samþykkt yrði Hrauneyjarfoss á undan virkjunum norðanlands. En upphaf þáltill. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar, að næsta stórvirkjun vatnsafls sem í verður ráðist skuli eiga sér stað á vestanverðu Norðurlandi“ — að næsta stórvirkjun skuli eiga sér stað þar. Samt sem áður segir hv. þm. að samþykkt þessarar till. mundi leiða til þess að Hrauneyjarfoss yrði á undan. Ég skil ekki slíkan málflutning. Ég met það og skil að þessi hv. þm. vill gæta hagsmuna Norðurl. e. og hefur gert það vel í mörgu tilliti, veit ég, og það er allt gott um það að segja. En hitt er ekki eins gott, að rangtúlka mál á þennan veg.

Hv. þm. sagði að menn í Húnaþingi skiptust í tvo hópa, — þeir, sem hafa sauðfé, eru á móti virkjunum, hinir ekki, sagði hann. Ég veit ekki til þess að þessi skoðun sé rétt. Ég veit ekki betur en á fundi þeim, sem hæstv. iðnrh. hélt með bændum norður þar fyrir skemmstu, hafi allir eða a. m. k. svo til allir talið æskilegt að í þessa framkvæmd yrði ráðist.

Hv. þm. sagði að það lægi meira á línu austur heldur en á línunni héðan að sunnan norður í land, ef Kröfluvirkjun næði fram á tilskildum tíma. Hv. þm. veit eins vel og ég að það er byrjað á línunni norður. Á enn að fara að rugla menn í ríminu? Á að fara að hætta við framkvæmd sem byrjað er á og ákveðin er og bíða eftir einhverju öðru?

Ég veit að það geta verið hagstæðar virkjanir í Jökulsá á Fjöllum. Dettifossvirkjun var rætt um hér fyrir 50–60 árum og vissulega hefði mátt hraða athugunum á virkjunum í Norðnrl. e. meira en gert hefur verið. En staðreyndin er hin, að það sem beinast liggur við nú, er virkjun Blöndu eða Jökulsánna. Um það hygg ég að allir þeir séu sammála, sem til mála þekkja. Og þá á ekki enn að byrja að reyna að rugla menn í ríminu og tala um að það verði orkuskortur hér ef ráðist verður í Blönduvirkjun, næstu stórvirkjun eftir Sigöldu. Þvert á móti ættu þeir sem skilja nauðsyn þess að hafa virkjanir víðar en hér sunnanlands, að snúa bökum saman um það að hrinda þessu í framkvæmd.

Ég sagði áðan að menn ættu að gæta hagsmuna sinna kjördæma, en ekki að einblína á þá. Ég reyni að gæta hagsmuna þess kjördæmis sem ég er kosinn í, og ég hlýt að mótmæla svona málflutningi, einkum vegna þess að virkjun Blöndu og Jökulsánna í Skagafirði er að mínum dómi annað tveggja mestu hagsmunamála þess kjördæmis sem ég er þm. fyrir. Hitt er, eins og sjálfsagt allir skilja, lagning Norðurvegar sem Nd. Alþ. samþykkti einróma að hafa skyldi sérstakan forgang þegar ráðist verður í meiri háttar vegaframkvæmdir á næstu árum, og langar mig að fá að víkja örfáum orðum að því efni hér á eftir.

Um langt skeið hefur atvinnuástand á Norðurlandi vestra verið einna verst hér á landi og raunar hvergi verið þar um að ræða verulegar tekjur síðan síldin hvarf á braut fyrir nær þrem áratugum. Í öllum landshlutum öðrum hefur oft á þessu tímabili árað vel og tekjur verið miklar, stundum uppgrip. Afleiðingin hefur orðið sú að fólkið í Norðurl. v. hefur dregist aftur úr efnahagslega, tekjur hafa verið þar lægri en í nokkrum öðrum landshluta, framkvæmdir minni og atvinnulíf ótraustara. Svo rammt hefur að þessu misrétti kveðið að hvergi á landinu eru færri ungmenni að tiltölu sem sækja framhaldsnám en í þessu kjördæmi. Þannig er sama hvar borið er niður. Vegna ytri aðstæðna hefur á þessu svæði landsins verið erfiðara um öflun lífsgæða en annars ataðar og í sumum þessara byggðarlaga hefur verið háð stöðug varnarbarátta meðan aðrar byggðir hafa getað sótt fram til stórbættra lífskjara.

Eitt meginstefnumál núv. ríkisstj. er byggðajafnvægi og stjórnarandstaðan styður einnig þá stefnu. Þm. eru sammála um að nauðsyn beri til þess að íslendingar byggi landið sitt allt og aðstaðan til að hagnýta gæði landsins og njóta kosta þess verði sem jöfnust. Ef menn meina eitthvað með þessum staðhæfingum er alveg ljóst að sá landshluti, sem hér er um rætt, Norðurland vestra, á að njóta sérstaks forganga við uppbyggingu meiri háttar atvinnurekstrar nú um skeið. Hitt er líka ljóst, að öflun ódýrrar orku heima fyrir í þessum héruðum er eitt af meginskilyrðum þess að öflug atvinnufyrirtæki á sviði iðnaðar risi þar.

Nú þegar er ljóst að stórvirkjanir, bæði í Blöndu og Jökulsám, eru hagstæðar virkjanir, kannske þær hagstæðustu sem unnt er að ráðast í í nánustu framtíð. Þessar virkjanir yrðu utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða eins og hv. flm. gat um og þær yrðu þegar í stað tengdar Vesturlandinu því að byggðalínu er þegar tekið að byggja. Virkjun á Norðurlandi vestra ætti að geta verið fullgerð þegar upp úr 1980 eða um það leyti sem orkuskortur verður, en ekki 1982 eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson vildi fullyrða. Þannig mætti um nokkurt árabil leiða allmikla orku suður, t. d. til þess að fullnægja kröfum málmblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, meðan unnið væri að uppbyggingu iðnaðar á þessu svæði og annarri hagnýtingu orkunnar heima fyrir. Síðan mætti með stórvirkjunum austanlands eða sunnan fullnægja þörfum fyrir norðan um skeið þegar orka þar væri fullnýtt og meðan unnið væri að öðrum virkjunarframkvæmd í þeim landshluta.

Upplýsingar hafa nú barist um það að norska fyrirtækið Norsk Hydro hafi áhuga á að reisa stóra álverksmiðju á Íslandi, annaðhvort norðanlands eða austan, og einna helst er þá rætt um Eyjafjörð. Hv. þm. Magnús Kjartansson, sem meginheiðurinn ber af byggingu málmblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, og félagar hans gerðu mig allfrægan fyrir nokkrum árum er þeir héldu því fram að skoðun mín væri sú að á Íslandi ætti að byggja 20 álbræðslur eða nokkurn veginn sem svaraði tvöföldun heimsframleiðslunnar á þeim ágæta málmi. Ég væri alveg til með að semja við þá um það að strika núllið aftan af og hafa álbræðslurnar tvær. Ég held að ágætt væri að fá aðra slíka verksmiðju, t. d. í tengslum við Blönduvirkjun. Gjarnan vildi ég að húnvetningar hagnýttu sem mest þeirrar orku sem í héraði þeirra væri aflað, og vil ég benda á að hreppsnefnd Blönduóshrepps hefur gert um það ályktun að virkja beri Blöndu og hefja stóriðju í héraðinu og þá sérstaklega bent á áburðarverksmiðju.

En þótt ég hafi talið ástæðu að vekja athygli á viðsýni og réttsýni tillögumanna, þeirra hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar og Karvels Pálmasonar, þá dettur mér ekki í hug að ætla að umhyggja fyrir hagsmunum íbúa Norðurlands vestra ein hafi ráðið gjörðum þeirra, enda kom það og fram í framsöguræðu flm. Þeir gera sér ljóst að nauðsyn ber til þess að dreifa meiri háttar framkvæmdum og virkjunum um landið og hagnýta bestu kostina, ekki einungis sunnanlands, heldur líka í öðrum landshlutum. Og að því er varðar hv. þm. Karvel Pálmason, þá sér hann út yfir túngarðinn heima hjá sér. Hann gerir sér grein fyrir þeim miklu hagsmunum sem bundnir eru við það fyrir vestfirðinga að fá t. d. Blönduvirkjun því að Vestfirðir eru þá í nágrenni við ódýra orku og hún hlyti að verða nýtt þar ekki síður en í Húnavatnssýslum og Skagafirði, bæði til iðnaðar og húshitunar, en jafnframt væru virkjanir siglfirðinga í Fljótaá tengdar þessu svæði. Raunar teldi ég að meginátakið, sem landsmenn allir ættu að gera til að rétta við hag byggðanna við Húnaflóa og í Skagafirði, sem við lægstu tekjur búa, ætti að vera að tryggja ódýra orku til sérhvers híbýlis á þessu svæði, ýmist varmaorku eða raforku. Og þegar rætt er um bætur fyrir þau landspjöll, sem verða munu við virkjunarframkvæmdir, er eðlilegt að líta til þess að virkjunin tryggði þessu landssvæði þá orku, sem þarf til húshitunar, á vægu verði. Slíkt væri mikilvægasta byggðajafnvægismál sem unnt væri að vinna og slík ákvörðun mundi auka mönnum bjartsýni og stuðla að fólksfjölgun og margháttaðri nýrri athafnasemi.

Við umræður um sérstaka fjáröflun til Norðurvegar benti annar þm. frá Vestfjörðum, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, á hverja þýðingu það hefði fyrir byggðir Vestfjarða að góðar samgöngur yrðu um aðalbraut, ekki einungis til höfuðborgar Suðurlands, heldur einnig til Norðurlands og um það allt til Akureyrar. Hann taldi það réttilega eitt af meginhagsmunamálum vestfirðinga að efla tengslin við Norðurland. Raunar á hluti Vestfjarðakjördæmis beina landfræðilega samleið með Norðurlandi vestra og þessi tvö kjördæmi ættu að stórauka samskipti sín og samstöðu, ekki einungis um orkuöflun, heldur einnig í samgöngumálum. Auðvitað er alveg ljóst að það yrði gífurleg lyftistöng fyrir Norðurland vestra að vera í þjóðbraut milli höfuðborga Suðurlands og Norðurlands þegar fullkominn vegur lægi þar um garð og þetta er líka geysimikið hagsmunamál vestfirðinga og landsmanna allra. Það furðar mig þess vegna að þetta frv. skuli hafa mætt nokkurri andstöðu í Ed. Ég hygg þó að því megi treysta að viðsýni þm. almennt sé svo mikil að sú framkvæmd verði ekki stöðvuð. Sérstaklega er athyglisvert að þm. Reykv. og Reykn. vilja með ánægju stuðla að þessari stórfelldustu umbót í vegamálum strjálbýlisins þótt kostnaðarsöm sé.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar fyrir flutning þessarar till. og benda enn á ný á það að engin byggðastefna á Íslandi getur í dag verið raunhæf nema Norðurland vestra njóti sérstöðu, meðan það er staðreynd að lífskjör þar eru langlökust og svo rammt kveður að að æskufólk getur ekki notið menntunar nokkurn veginn á borð við það sem annars staðar gerist.