07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

211. mál, hefting landbrots

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Á fjárlögum fyrir árið 1975 eru ætlaðar til varnar landbroti af völdum vatna 25.2 millj. kr. Hér er að vísu ekki um ýkjaháa fjárhæð að ræða þegar litið er til þeirrar þarfar sem virðist vera fyrir hendi. Engu að síður er full þörf á að taka fastari og skipulegri tökum þessi landbrotsvandamál svo að fjármunum verði beint að brýnustu verkefnunum og heftur sá vandi sem í vaxandi mæli herjar góð nytjalönd og breiðar byggðir. Aðgerðir ríkisvaldsins á þessu sviði hafa verið grundvallaðar á vatnalögunum, en réttara þykir að setja um þessi efni sérstök lög við hlið vatnalaga þar sem þau spanna ekki allt viðfangsefnið. Landgræðslu- og landnýtingarnefnd hefur lagt til að þessi lög verði sett. Hún hefur byggt þau upp og get ég vísað til ræðu hæstv. landbrh. við 1. umr. hér í Ed. til frekari rökstuðnings fyrir nauðsyn sérstakrar lagasetningar.

Landbn. Ed. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með breyt. sem hún flytur á sérstöku þskj. og mun ég nú leitast við að skýra þær nánar.

1. brtt. er við 2. gr. frv. Sú brtt. er ekki efnisleg breyting. Þar er um að ræða að í hverri sýslu skuli vera matsmenn eins og í frv. segir, en eðlilegra þykir að matsmenn starfi í matsnefnd sem fulltrúar síns vinnuveitanda, sem í þessu tilfellinu er Vegagerð ríkisins og Búnaðarfélagið, en ekki sem sjálfstæðir einstaklingar, og miðar orðalag 1. málsgr. að því. Þótt á þennan hátt sé breytt um orðalag verður það aðalregla að umdæmisverkfræðingnr Vegagerðarinnar og héraðsráðunautur í jarðrækt verði kvaddir til þessara matsstarfa, enda má gera ráð fyrir því að starf þeirra sem matsmanna samkv. frv. fari að mestu fram í tíma og í tengslum við þeirra aðalstarf.

Þá er í öðru lagi gerð breyting á um skilafrest matsnefndar, enda er nauðsynlegt að álitsgerðir þeirra hafi borist svo snemma til rn. að rn. geti skilað till. til fjárlaga fyrir 1. júní, eins og því er gert að gera um önnur málefni. Þá þykir ekki vera þörf á því, að matsnefndin sendi fjvn. Alþ. álitsgerðir sínar þar sem það er hlutverk landbrn. að koma till. til löggjafarvaldsins, enda skal landbrn. sjá um framkvæmd laganna eins og ég mun koma að hér síðar.

2. tölul. í brtt. varðar 4. gr. frv. Í fyrsta lagi þykir rétt að kostnaðarskipting taki einnig til undirbúnings að framkvæmdum. Þá er og ljósara orðalag um skiptingu kostnaðar því að ekki er talið rétt að landeigendur beri sinn hluta eða beri hluta kostnaðar af varnarframkvæmdum fyrir landi hvers og eins, þar sem upp getur komið sú staða að landeigandi, sem lítinn eða engan hag hefur af framkvæmdum, þurfi að bera stóran hlut kostnaðar vegna legu eða aðstæðna á landi sínu. Þykir nefndinni það ekki réttlátt og leggur til að landeigandi beri hlut sinn eingöngu í samræmi við þann hag sem hann hefur af framkvæmdinni. Þá er og nauðsynlegt að niðurstaða fáist um skiptingu kostnaðarhluta landeigenda þegar á þessu stigi máls, sem sagt áður en framkvæmd er hafin, og er því gert ráð fyrir skipun oddamanns ef ekki næst samstaða um skiptinguna í matsnefnd.

3. tölul. brtt. er aðeins orðalagsbreyting sem verður að koma fram vegna þeirra breytinga sem áður eru ákvarðaðar á þskj., þar sem sagt er að í stað setningarhlutans „Nú telja matsmenn“ í 7. gr. komi: Nú telur matsnefnd.

4. brtt. er við 9. gr. Í frv. var gert ráð fyrir að matsmenn samkv. 2. gr. úrskurðuðu um bætur vegna landsspjalla. Ekki er talið rétt að hafa þann hátt á þar sem í mörgum tilvikum væru þeir e. t. v. að dæma í sjálfs sín sök, þ. e. a. s. úrskurða um bætur fyrir landsspjöll vegna framkvæmda sem þeir hafa sjálfir til stofnað eða ákvarðað og sagt til um hvernig vinna skyldi. Nefndin leggur því til að mat vegna landsspjalla fari fram í samræmi við vatnalög. Þar eru skýr ákvæði um slíkar bætur og þykir eðlilegast að um þau mál fari eims og sagt er fyrir um í vatnalögum.

5. brtt. á þskj. 555 er um það, að ný gr. komi á eftir 10. gr., sem orðist svo:

„Landbrh. hefur yfirstjórn mála samkv. lögum þessum.“

Þetta ákvæði er ekki í frv., en þykir sjálfsagt að það komi ótvírætt fram í frv., hver skuli sjá um framkvæmd laganna og vorum við allir sammála um það í landbn. að eðlilegast væri að landbrh. og landbrn. hefðu með framkvæmd þessara laga að gera eins og það rn. hefur haft með að gera þær úrbætur sem gerðar hafa verið á undanförnum árum.

Ég hef þá lýst þeim breytingum sem landbn. leggur til að gerðar verði á frv. og sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þær. Eins og ég tók fram áðan leggur landbn. til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem ég hef lýst. Það hefur hún gert eftir að hafa skoðað frv. og rætt á nokkrum fundum, leitað umsagnar um málið frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda og auk þess rætt við vegamálastjóra á fundum nefndarinnar og fengið frá honum upplýsingar um ýmsa þætti þess og framkvæmd þessara mála.

Herra forseti. Ég læt máli mínu þar með lokið og legg til að frv. verði samþ. með þessum breytingum.