07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal í upphafi máls míns taka undir minningarræðu um ágæti þess framherja sem stóð sig svona vel í sambandi við þörungavinnsluaðferðir og þá sérstaklega hjá þessari væntanlegu verksmiðju. Ég þekki ekki mikið til hans, nema það sem ég hef heyrt gott um hann sagt hér á þessum stað og annars staðar. ég tek það allt trúanlega og læt það liggja á milli hluta. Ég get líka tekið undir það að þetta er gott og þarft fyrirtæki og þá sérstaklega fyrir byggðarlagið þar sem það á að standa og tvímælalaust atvinnuskapandi. En ég vil ítreka það að ég tel æskilegra að fyrirtækið byggist upp á löngum tíma á eðlilegan hátt, en ekki sé hlaupið út í dýrustu uppbyggingu án eðlilegrar þróunar sem skapar þá bæði fjármagn og reynslu. Það var mergur máls míns áðan.

Ég ætla ekki að láta draga mig inn í umr. um járnblendiverksmiðjuna sem formaður iðnn. svo faglega vitnaði í áðan, enda eðlilegt, hann hefur komið þar mikið við mál og á margan hátt unnið þar gott starf og merkilegt. En hann er heldur seinheppinn að mínu mati þegar hann vitnar í það hvað ameríkanar séu ánægðir með arðsemisprósentu þá sem járnblendiverksmiðjan á að gefa, 17%, sagði hann og taldi það mjög gott. Ég held að ég verði að vera honum sammála að það hlýtur að vera mjög gott fyrir Union Carbide að hafa 17% arðsemi af sínu eigin framlagi. En þar reikna ég með að Union Carbide sé að leggja fram eigið fé og sé ekki að fá það á dýrum vöxtum, að þar sé Union Carbide, sem talið er mjög auðugt fyrirtæki, að leggja fram eigið fé. Þar fyrir utan er arðsemi Union Carbide margvísleg. Ég hef forðast að blanda mér inn í þær umr. til þess einmitt að þurfa ekki að tala um arðsemi Union Carbide. Ég vona að sú arðsemi eigi ekkert skylt við þá arðsemi sem hér um ræðir því að arðsemi Union Carbide er ekki bara af því að útvega hingað þekkinguna, útvega hingað hráefni, hafa einkasölu á útflutningnum á framleiðslunni o. s. frv., arðsemin er 100% alls staðar, hvar sem á það er lítið. Það hefur enginn neitt annað upp úr því nema það sem við fáum hér kannske. En við erum með lánsfé. Við skulum ekkert vera að blanda járnblendiverksmiðjunni inn í þetta mál. En ég held að við verðum að vera sammála um að arðsemi af lánsfé verður að vera nægjanleg til að standa undir vöxtum og afborgunum og þá einhverjum arði til þeirra sem leggja fram peninga.

Annars vil ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér og komu fram eða komu ekki fram. Ég er ekki alveg viss um hvað er eiginlega ríkisstjórnarinnar eða hvað er skoska fyrirtækisins. Það er ekki nauðsynlegt að hafa þá með sem stjórnarmeðlimi, en það er talið drengilegt, ei ég skil hann rétt, að bjóða þeim það vegna þess að þeir ætla að leggja fram 15 millj. kr. á móti eitt hvað á annað hundrað millj. kr. frá ríkinu og íslenskum aðilum til samans, heimamönnum og ríkinu. En það er þó vitað mál að það er ekki ætlast til þess að þeir hópar eða aðilar, innlendu aðilar, sem kynnu að leggja fram sömu upphæð, 15 millj., ef þeir nú fengjust til þess eða réttara sagt fyndust til þess, að þeir fengju þá aðild að stjórn fyrirtækisins. Það var fróðlegt svar.

Mér kemur ekki á óvart að í uppgjörum, sem berast framkvæmdasjóði, komi fram að eignaraðild almennt á frystihúsum og jafnvel fleiri fyrirtækjum sem vinna að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, sé ekki nema að litlu leyti eigið fé, það séu 20–25% eigið fé, afgangurinn 75% sé þá lánsfé, þegar þau eru farin að ganga vel eftir því sem mér skilst. Þegar lánabeiðnir koma til framkvæmdasjóðs er það venjulega til þess að stækka eða bæta einhverju við, annaðhvort nýjum vélum eða stækka mannvirkin. Það munu vera nokkuð mörg stórfyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, sem ekki eiga meira en 20–25% eigið fé og þurfa að hafa 75% á 20% vöxtum eða þar um bil.

Við höfum heyrt það úr ræðustólum á hv. Alþ. að flest af undirstöðufyrirtækjum þjóðarinnar séu nú með fé á 24% sektarvöxtum hjá Seðlabankanum. Þegar þessi lán hafa fengist til bráðabirgða til þess að hlaupa undir bagga með þeim má vera talsverður arður til að standa undir því ef þar fyrir utan á að standa undir einhverri arðsermi til hluthafa. En ég verð að lýsa furðu minni á því að formaður iðnn., sem er þó í stjórn Framkvæmdasjóðs og er alltaf að fara þar í gegnum rekstrarreikninga fyrirtækja, bæði einkaaðila og annarra sem sækja um lán til framkvæmdasjóðs, skuli ekki vera betur inni í málum en þetta. Það er vitað mál að það á hvert einasta fyrirtæki á landinu í rekstrarfjárörðugleikum, ég tala nú ekki um fjárfestingarerfiðleikum, og atvinnuvegirnir eru í klemmu, þeir eru í spennitreyju og 15% arðsemi á að vera gott þegar eðlilegir bankavextir eru hærri. Hann upplýsir að það séu góð fyrirtæki sem eigi ekki nema 20% sjálf og þurfa þá að standa undir 75–80% lánsfé af 15% arðsemi. Ég tel þetta fjarstæðu. En það er eins og ég sagði að „stóra mamma“ eins og Magnús Kjartansson sagði, er búin að mergsjúga atvinnuvegina alla, þannig að það verður að hlaupa undir pilsfald hennar þegar fyrirtækin eru í vanda. Einkaaðilarnir hafa bókstaflega verið mergsognir það lengi að það er ekki hægt að safna fé í — við skulum segja arðbær ríkis- og einkafyrirtæki, sameign ríkis og einkafyrirtækja, lengur. Og reynslan, ég endurtek það, reynslan af því samstarfi, sem átt hefur sér stað í Áburðarverksmiðjunni þar sem þetta rekstrarfyrirkomulag var, er slæm. En þar voru einkaaðilar hreinlega píndir til þess að dáta af hendi sín hlutabréf.