09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3694 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 72 frá 28. maí 1969, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Á nefndarfundi mætti Davíð Ólafsson seðlabankastjóri. Eins og fram kemur í nál. mælir n. með samþykkt frv., en tveir nm., JÁH og StJ. gera sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni í sérstöku nál. JGS var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í gildandi l. er sú kvöð sett á Seðlabanka Íslands að verðtryggja innstæðu í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Má segja að sú kvöð sé framkvæmanleg ef gjaldeyriseign Seðlahankans er nægilega mikil til þess að gengishagnaður bankana verði það mikill að hann hrökkvi til. Svo hefur verið þar til við gengisfellinguna í ágústlok s. l. Þá var það ekki og er frv. þetta raunar fram komið í framhaldi af því. Með því er kvöðin um fullkomna gengistryggingu raunar færð yfir á ríkissjóð, en Seðlabankanum hins vegar heimilað að ávaxta fé Verðjöfnunarsjóðs með verðtryggingu eða gengistryggingu til útlána hér á landi og tryggja þannig fjármagn hans að þessu leyti, en til viðbótar, ef gengishagnaður bankans hrekkur til að bæta tjón það sem Verðjöfnunarsjóður kann engu að síður að verða fyrir við gengisfellingu. Hins vegar ef þetta hvort tveggja hrekkur ekki til er sú kvöð lögð á ríkissjóð að bæta það sem á vantar.

Ég hygg að í hugum margra sé Verðjöfnunarsjóðurinn tryggður þannig að hann liggi í erlendum gjaldeyri í erlendum banka og væri þannig að sjálfsögðu fengin full gengistrygging. Svo er hins vegar ekki og kannske ekki eðlilegt þegar gjaldeyrisskortur er. Yrði þá að taka erlend lán sem því næmi til viðbótar fyrir þeim þörfum okkar sem fullnægja þarf með erlendum gjaldeyri. Því má segja að þessi hugsun sé kannske barnaleg og seðlabankastjórinn upplýsti að slíkt kæmi ekki til greina. Þó verð ég að viðurkenna að í mínum huga hefur þetta fjármagn í Verðjöfnunarsjóðnum verið fjármagn sem tekið er úr umferð og væri þá ekki illa geymt og ekki illa gengistryggt á þennan máta sem ég hef nú lýst. Með tilvísun til þess, að það er ekki talið framkvæmanlegt, er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ganga þannig frá málum, að Verðjöfnunarsjóðurinn sé að fullu tryggður. En Seðlabankinn getur að sjálfsögðu ekki lagt til það fjármagn sem þarna vantar ef tekjur bankans af erlendum gjaldeyri hrökkva ekki til.

Þetta er því leiðrétting, eins og ég segi, og ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta er rakið í aths. við lagafrv. og ég endurtek að n. mælir með því að það verði samþ.