09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3697 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði á varðandi samþykki mitt við þetta frv.

Ég lýsti því yfir þegar við 1. umr. þess að ég styddi heilum huga meginefni þessa frv., og ég taldi þá og tel að þarna sé hreyft mjög ágætu máli og þörfu. Ég kemst þó ekki hjá því, þrátt fyrir það að við séum sammála um þetta mál sem brýnt og nauðsynlegt, að átelja nokkuð þann flýti sem er hafður á afgreiðslu þess. Ég hélt satt að segja að það væri ekkert sem mælti sérstaklega með því að málið yrði endilega afgr. nú, það væri nóg að samþ. það í byrjun næsta þings. Ég leit svo á að Viðlagasjóður, sem starfar út þetta ár, kæmi hér inn 3, ef einstök tilfelli bæri að, og tæki þau á sig með því sérstaka ákvæði sem þar er og á að tryggja flest það sem Viðlagatrygging Íslands á að taka að sér. Ég taldi við 1. umr. að það hefði þurft að athuga stöðu Bjargráðasjóðs í leiðinni. Það hefði þurft að kanna mörkin á milli Bjargráðasjóðs og Viðlagatryggingarinnar, þurft að samræma hvort tveggja kjör og bætur, og það kom reyndar fram í heilbr.- og trn. frá fleirum en mér að þeir töldu þetta nauðsynlegt og æskilegt. Hins vegar vil ég á engan hátt verða til þess að það verði hægt að segja að ég setji fót fyrir þetta mál.

Við 1. umr. benti ég einnig á það að ég teldi æskilegt að annar háttur yrði hafður á að nokkru um stjórn þessarar Viðlagatryggingar. Þar hefur verið komið til móts við mínar óskir. Ég get sætt mig við þær breyt. sem þarna hafa verið á gerðar. Ég tel þó enn að í stað þess að tryggingafélögin tilnefndu þarna einn fulltrúa hefði hann einnig átt að vera kjörinn af Sþ.

Ég hygg að í þessu máli getum við öll verið sammála um það að stjórn þessarar Viðlagatryggingar eigi að hafa sem víðasta yfirsýn. Hér getur vissulega orðið um viðkvæma úthlutun að ræða einhvern tíma. Við vonum að sú úthlutun verði sem allra minnst vitanlega. Þrátt fyrir það held ég að það sé nauðsynlegt að sem víðtækust samstaða allra sé um það þegar þar að kemur og ef þar að kemur.

Ég sem sagt tel örlítið miður að þessu máli skuli svo flýtt, sérstaklega með tilliti til þess að ég hefði talið eðlilegt og æskilegt að aðrir þættir hefðu verið skoðaðir, og veit að hæstv. ráðh. er einnig á því að það þurfi að athuga vel jafnframt þessu stöðu Bjargráðasjóðs og samræma þar á milli. Með tilliti til þess og einnig þess hve mikla áherslu hæstv. ráðh. leggur á að koma þessu frv. í gegn, þá get ég stutt það, en tek fram að hér hefur ekki gefist nægilegur tími að mínu viti til þess að skoða málið svo sem vert hefði verið.