09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3704 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

269. mál, mörk lögsagnarumdæma Reykjavíkur og Kópavogs

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál fyrir því frv. sem hér er til meðferðar, það skýrir sig sjálft. Hv. félmn. þessarar d. hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess eins og kemur fram í nál. á þskj. 591. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ólafsson og Eggert G. Þorsteinsson.

Aðalefni frv. er að það verði breyt. á lögsagnarmörkum Reykjavíkur og Kópavogs, sem er fyrst og fremst afleiðing hinnar nýju Reykjanesbrautar. Með tilkomu hennar þótti eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að land vestan hennar úr Breiðholtslandi skyldi tilheyra Kópavogi og vera í lögsögu hans. Á sama hátt lá það enn fremur betur við að byggja lengra suður frá Breiðholtinu suður í Fífuhvammsland heldur en mörk þessara jarða sögðu til um. Með tilliti til þessa var það samkomulag gert sem vitnað er til í frv. og þau makaskipti gerð sem þar eru tilgreind: í öðru tilvikinu 30.6 hektarar og í hinu tilvikinu 33.7 hektarar eða svo gott sem jafnar landspildur. En þetta var hagkvæmnisatriði fyrir báða kaupstaðina.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að flytja nú skriflega brtt. við fyrirsögn frv. og fá leitað afbrigða fyrir henni. N. mælir með samþykkt frv. eins og ég hef áður lýst. En ég legg til að fyrirsögn frv. breytist og verði þannig: „Frv. til l. um breytingu á mörkum lögsagnarumdæma Reykjavíkur og Kópavogs“ — í staðinn fyrir: um breyt. á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Þá eru strax í upphafi tekin af öll tvímæli að þarna er um að ræða breyt. á lögsagnarmörkum. Það mun vera venja, eins og sést ef flett er upp í lögum frá Alþ., um skipti eða breytingu á lögsagnarmörkum sveitarfélaga, að þá er það ávallt tekið fram í fyrirsögn. — Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg þessa brtt. fram.