09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3716 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

224. mál, tónlistarskólar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki að mótmæla tónlistarskólum eða tilverurétti þeirra og ekki heldur þátttöku sveitarfélaga í rekstri þeirra á einhvern hátt.

Ég get ekki skilið þessa brtt., sem hér liggur fyrir, öðruvísi. En ég les hana nú. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tónlistarskólar, sem fullnægja framangreindum skilyrðum,“ segir í 2. gr., „skulu fá styrk úr ríkissjóði og frá viðkomandi sveitarfélagi er nemi launagreiðslum til skólastjóra og kennara skólans.“

Það er verið að skylda sveitarfélögin til þess að taka ákveðinn þátt í kostnaði við skólana og vil ég vara við því. Það er ekkert í frv. sem heimilar sveitarfélögunum að annaðhvort samþykkja eða samþykkja ekki að tónlistarskólar séu settir á stofn.

Þá vil ég benda á þá þróun sem hefur verið hér í Reykjavík undanfarið og komið nokkuð aftan að borgarráði að tónlistarskólar hér hafa án heimildar stofnað útibú víðs vegar um borgina og hefur verið kostnaðarauki fyrir skólana sem þeir hafa ekki getað staðið undir og framlög borgaranna hafa aukist í hlutfalli við það að viðbættum þeim tilkostnaði sem eðlilegur er af þeim aukningum sem hækkanir almennt hafa bætt á kostnaðarliði. Þetta er nú hægt að gera án heimildar sveitarfélaganna. Það er hægt að stofna tónlistarskóla, það er hægt að stofna útibú án þess að hafa nokkur samráð við sveitarfélög eða ríki og þar með skapa aukakostnað sem ekki er gert ráð fyrir við samningu fjárhagsáætlana eða fjárlaga. Það er það sem ég er að benda á að vanti í það frv. til l. sem hér liggur fyrir um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Mér finnst það ekki koma til mála að hver og einn sem vill geti stofnað til tónlistarskóla, og svo framarlega sem skólinn fullnægir ákvæðum laga, þ. e. a. s. 1. gr., þá skuli, hvort sem sveitarfélög vilja eða vilja ekki eða hvort sem ríkisstj, eða Alþ. vill eða vill ekki, ákveðinn kostnaður falla á opinbera aðila. Það er þetta sem ég er að vara við. Ég er ekki að mótmæla því að tónlistarskólar séu til, heldur vil ég að þeir séu stofnaðir í samráði við þá sem eiga að standa undir kostnaðinum við þá.

Ég vil að lokum segja það, að ef þetta frv. til l. verður samþ. og þá kannske þessi brtt. frá þeim Ragnari Arnalds og Axel Jónssyni, þá finnst mér sjálfsagt að starfsmenn tónlistarskólanna fái aðgang að lífeyrissjóðnum eins og aðrir opinberir starfsmenn því að það eru þeir orðnir ef þetta frv. verður að lögum.