12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3903 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Við 2. umr. þessa máls lét ég þess getið að ég mundi við 3. umr. flytja brtt. ef sú fjáröflunartillaga, sem minni hl. heilbr.- og trn. flutti, yrði felld. Mér hefur ekki snúist neitt hugur í þessu efni, en sú tillaga, sem ég hugðist flytja, fjallar um önnur lög en hér er flutt breyting á og það út af fyrir sig er ekkert einsdæmi hér á hv. Alþ. að fluttar séu tillögur í sama máli um breytingar á ýmsum lögum. Hafa allar ríkisstj., held ég, gengið mjög á undan í þeim efnum. Hins vegar er þetta út af fyrir sig ekki sérlega þingleg meðferð.

Í öðru lagi er þannig ástatt að þetta mál er áfram keyrt með sama hraða og verið hefur áður og virðist eins og það liggi allt við að flýta því sem framast er hægt. Hins vegar er mínum málum þannig háttað núna að ég á að vera á öðrum fundi, sáttafundi í einum af þeim vinnudeilum sem nú standa yfir, og get því ekki verið hér viðstaddur við þær umr. sem ég hefði gjarnan viljað að hér færu fram nú við 3. umr. Þess vegna mun ég nú hverfa frá því að flytja þessa brtt., en vona að menn skilji það sem ég hef verið að reyna að segja við þessa umr., að Fjármunir Atvinnuleysistryggingasjóðs, þær krónur, sem þar eru til ráðstöfunar, verða ekki á sama tíma notaðar nema til eins verkefnis í einu. Og ef hv. Alþ. ætlar að velja þann kostinn að verja sjóðnum nú í þetta nýja verkefni sem út af fyrir sig er mjög gott mál, ekki er ég neitt að draga úr því, þá er sjálfsagt að menn hafi í huga að það hlýtur að skerða önnur verksvið sjóðsins, og ef hv. þm. Sverri Hermannssyni, sem nú er að ganga út, finnst ég tala með bankastjóratón, þá er þetta bara einfaldur sannleikur sem ég veit að hann skilur manna best, enda má vera að hans aðstæður séu stundum slíkar. Hann hefur fengið svo góða fyrirgreiðslu til sinna mála frá ýmsum sjóðum að vel getur verið að honum finnist að það sé sjálfsagt að sjóðir geti gert svona hluti, en það er nú því miður ekki. Þetta er aðeins lögmál og staðreyndir.

Hins vegar mun ég, eins og ég sagði við 2. umr., greiða atkvæði gegn því að þessar grundvallarbreytingar verði nú gerðar á Atvinnuleysistryggingasjóði sem eru gerðar þvert ofan í ráðleggingar þeirra sem hefur verið leitað umsagna hjá og að öðrum algjörlega forspurðum. Málið er til komið eins og hér var rakið við 2. umr. og öllum hv. alþm. er kunnugt að hér er um að ræða samningamál í einhverri hörðustu vinnudeilu sem verið hefur á Íslandi. Málið er þess vegna býsna viðkvæmt. Það er auðvitað ekki vegna þess að ég sé ekki, eins og ég hef margtekið fram, fyllilega sammála því að það er mjög brýnt úrlausnarefni að konur fái þann rétt sem um ræðir í þessu frv. Það er ekki það málefni sem hér er um deilt, enda vona ég að störf mín að því máli á undanförnum árum sanni hver afstaða mín hefur verið til þeirra efna. Heldur er aðeins það að hér er verið að gera grundvallarbreytingu á Atvinnuleysistryggingasjóði sem ég er andvígur.