12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð við þessa umr. um frv. um fæðingarorlof. Ég skal ekki vera langorður. Ég flutti nokkuð ítarlega ræðu um þetta mál s.l. laugardagskvöld, skal því láta mér nægja fá orð í þetta skipti. Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á þann einstæða tvískinnung sem mér finnst koma fram í ræðum margra hv. þm. sem hver á fætur öðrum hafa lýst ákveðnu fylgi við þetta mál, talið það ágætt mál og þar fram eftir götunum, en það megi bara ekki undir neinum kringumstæðum samþykkja þetta frv.

Ég hef verið að velta fyrir mér þeim röksemdum sem þessir þm., t.d. þeim sem hv. þm. Tómas Árnason kom með hérna áðan, og ég verð að segja að þær mótbárur vega ekki þungt í mínum huga.

Fyrsta mótbáran hjá honum og raunar fleirum er sú að það sé ómögulegt að samþ. þetta frv. vegna þess að með því sé ekki tryggt að allar konur njóti fæðingarorlofs. Ég skal taka undir það með hv. þm. Tómasi Árnasyni að vissulega væri æskilegt að við gætum nú tryggt öllum fæðandi konum í landinu fæðingarorlof, og að því verður stefnt. Ég vék að því að verkalýðsbaráttan hér á Íslandi hefði að langmestu leyti unnist með áfangasigrum. Ef maður gæti ekki náð 100% sigri í eitt skipti, þá yrði að sætta sig við að taka sigurinn í nokkrum áföngum. Ég benti í laugardaginn á jafnréttislaunamál kvenna sem flutt var á hv. Alþ. fyrir nokkrum árum og gert var lítið úr af ýmsum sem um það fjölluðu, en þó hefur tryggt launajafnrétti kvenna við karla í sambærilegum störfum. En þessir hv. þm., sem harma það og telja sig ekki geta fylgt frv. af því að það tryggi ekki að allar konur í landinu fái þennan rétt, þeir hafa margir hverjir setið hér á Alþ. í mörg ár og í 20 ár hefur það verið í lögum að konur, sem vinna störf hjá ríki og sveitarfélögum, hafa átt rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs. Sá réttur var veittur þeim með lögum frá Alþ. Það er því rangt hjá hv. þm. Tómasi Árnasyni þegar hann staðhæfði áðan að réttindi sem þessi verði að fást fram fyrir samkomulag þeirra, sem stjórna Atvinnuleysistryggingasjóðnum, þ.e. fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.

Annað atriði, sem hann vék að og raunar fleiri þm. hafa vikið að, er að þeir segja að þetta frv. sé ekki nægilega undirbúið. Ekki hafa þeir fært nein rök fyrir því hvað á vanti um undirbúning þessa frv. Það eina, sem ég hygg að hafi komið fram í þessum efnum og ekki hefur verið hægt að svara nákvæmlega, er að við höfum ekki getað sagt hvað þetta mundi kosta upp á krónu af einni og mjög einfaldri ástæðu, þeirri að það er ómögulegt að segja fyrir um hversu mörg börn kunni að fæðast á þessu ári eða næstu árum af konum sem rétt ættu til fæðingarorlofs ef þetta frv. verður samþ. En mér, sem er búinn að sitja á Alþ. í 16 ár, finnst nú bregða nokkuð nýrra við í sambandi við samþykkt á frv. til útgjalda úr ríkissjóði eða öðrum sjóðum í landinu ef það hafa ævinlega verið fluttar nákvæmar upplýsingar um hvað slík frv. hafa í för með sér af útgjöldum. Ég þykist geta fullyrt það að í fjölda dæma hafa slíkar áætlanir ekki legið fyrir.

Þetta um ónógan undirbúning, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék að áðan, er líka fjarstæðukennt vegna þess að þetta mál er hvergi nærri nýtt og er ekki flutt í fyrsta sinn nú. Mig minnir að árið 1960 hafi hv. þm. Margrét Sigurðardóttir flutt frv. svipað þessu og síðan hefur, má ég segja, a.m.k. einu sinni eða jafnvel oftar verið hreyft svipuðu máli sem þessu, auk þess sem málið hefur legið fyrir á þessu þingi í þáltill. sem Bjarnfríður Leósdóttir hefur flutt. Þessar mótbárur þeirra sem í reyndinni eru á móti þessu frv., en þykjast þó vilja styðja það, eru því í mínum huga afar léttvægar. Mér er vissulega fyllilega ljóst að það að samþykkja þetta frv. kostar nokkurt fé og mér er fyllilega ljóst að það fé verður að taka úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum og mér er fyllilega ljóst að við það takmarkast að einhverju leyti möguleikar sjóðsins til þess að ráðstafa fé til annarra verkefna. Ég sé á skýrslu sem við fengum með umsögn Atvinnuleysistryggingasjóðs að á undanförnum árum hefur hann lánað allverulegar upphæðir, ef ég man rétt um 130 millj. kr., m.a. til bygginga félagsheimila víðs vegar um landið. Er það skyldara verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs að lána til slíkra hluta heldur en að veita fé til þess að greiða fæðingarorlof til kvenna úr verkalýðsstétt? Ég dreg það í efa.

Nei, sannleikurinn er sá að við þm. stöndum hér í þeirri aðstöðu, sem við raunar gerum oft, að við þurfum að velja á milli valkosta. Í þetta skipti stöndum við frammi fyrir spurningunni: Viljum við verja nokkrum tugum milljóna á ári til þess að styrkja þær útivinnandi konur í þjóðfélaginu, sem hvað erfiðast eiga, með því að samþ. þetta frv. og veita þeim þriggja mánaða fæðingarorlof sem fjölmennur hópur kvenna í þjóðfélaginu hefur búið að í 20 ár, eða viljum við það ekki? Viljum við samþ. þetta þó að það kosti að það verði að draga úr lánveitingum Atvinnuleysistryggingasjóðs til annarra hluta? Þetta er spurningin sem hv. þm. standa frammi fyrir og verða að svara. Það þýðir ekki að drepa þessu á dreif með því að færa fram tylliástæður gegn frv. eins og ég var hér að víkja að og komið hafa fram í umr.

Ég vil endurtaka að lokum það sem ég sagði á laugardaginn, að ef þetta frv. verður samþ., þá er náð að mínu viti mjög merkum áfanga í sögu verkalýðsréttinda í landinu. Og þau réttindi verða ekki aftur tekin, jafnvel þó að það sýni sig að samþykkt frv. þrengi um ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs, því að ef það kemur í ljós, þá verður heldur vikið að því ráði að efla tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs, svo að hann geti sinnt eðlilegum verkefnum, heldur en að kippa þeim réttindum til baka sem frv. þetta á að tryggja verkakonum í landinu.