12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3940 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það virðist ekki vera nóg fyrir hæstv. ráðh. að hann þurfi að fara á námskeið til þess að læra eitthvað í sjávarútvegsmálum. Ég sé því miður ekki annað en að hæstv. ráðh. þurfi líka að fara í heyrnarmælingu. Mér líkar það ekki þegar hv. þm. hlæja að því, því að það er ekki gaman að því þegar skynfæri manna fara að bila. Ég sagði ekkert um það í ræðu minni áðan að ég hefði mótmælt því að þetta fé hefði farið í gengishagnaðarsjóðinn og verið útbýtt til útgerðarinnar. Ég sagði það aldrei. Og hæstv. ráðh. getur flett upp á því sem ég sagði hér, en ég talaði alllangt mál í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðar í haust, ég vék hvergi að því orði. Hitt vil ég taka fram, að ég efast um að nokkrum þm. hafi þá verið ljóst hvaðan allir þessir peningar komu. Það var talað bara um gengishagnað, og ég er nokkurn veginn viss um að þeir, sem sáu þann lista, hafi hvergi nokkurs staðar getað séð að þarna hafi verið laumað inn 400 millj. kr. viðbót. Ég segi fyrir mig að ég var auðvitað hlynntur því að sem mest kæmi í þennan sjóð og sem mest yrði gert fyrir útgerðina á því stigi. Hins vegar voru menn ekki sammála um aðferðina, hvernig ætti að fara að því að útbýta þessum peningum. Við vorum ekki sammála því á þeim tíma að taka 400 eða 600 millj. í að breyta stuttum lánum og vanskilaskuldum í 2–3 ára lán. Við gerðum ýmsar aðrar athugasemdir við það hvernig þessum peningum var útbýtt. Og fyrst og fremst beindust athugasemdir okkar að því að við vildum ekki fela allt vald í hendur hæstv. ráðh. Við vildum ekki láta hann hafa allar þessar upphæðir upp á 1600 millj. kr. eða hvað það nú var til útbýtingar úr eigin vasa að því er virtist. Það var málsmeðferðin og ýmsir liðir í því frv. sem við deildum á, en ekki það hversu miklir peningar voru þarna til ráðstöfunar. Það er rangt hjá hæstv. ráðh. eins og flest annað sem hann sagði hér varðandi mitt mál.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að nokkrum vikum eftir að þeir samþ. þessi lög, blessuð ríkisstj., hæstv. ríkisstj., um að skerða gengishagnaðarsjóð um 400 millj. til þess að bæta upp Verðjöfnunarsjóðinn sem átti að vera gengistryggður öðruvísi, — þegar þeir fóru að undirbúa brbl. og farið var að kanna til hlítar þessi mál, þá var Verðjöfnunarsjóður ekki gengistryggður. Þetta sýnir nú vinnubrögðin, að þeir skyldu ekki hugsa þetta svolítið fyrr, og það, sem er staðreynd í þessu máli og við deilum helst á, eru vinnubrögð hæstv. ríkisstj. Þeir samþykkja lög í ágúst og sept. og breyta þeim svo aftur í maí. Það eru þessar fálmkenndu aðferðir þessarar hæstv. stjórnar og stjórnleysi og klaufaskapur sem verið er að deila á hæstv. ríkisstj. fyrir. En ég hef aldrei sagt að ég vildi heldur að Seðlabankinn gæti hirt þarna 400 millj. en að þær færu í sjávarútveginn. Það er hreinlega útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh., hreinn útúrsnúningur.