13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

271. mál, framfærslukostnaður

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þm. í svonefndri mþn. um byggðamál leggja fram á þskj. 559 till. til þál. um athugun á framfærslukostnaði. Þetta eru þm. úr öllum flokkum, nema Alþfl., en meðlimur n. úr þeim flokki á ekki setu á Alþ.

Í þessari till. er lagt til að ríkisstj. feli Hagstofu Íslands að reikna út framfærslukostnað a.m.k. á einum stað í hverjum landsfjórðungi, þessari athugun verði hraðað, þannig að niðurstöður liggi fyrir um endurskoðun á vísitölugrundvelli.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þær deilur sem eru stöðugt við samanburð á framfærslukostnaði í Reykjavík og hinum ýmsu landshlutum. Ýmsir hlutir eru að sjálfsögðu kostnaðarmeiri á landsbyggðinni, eins og t.d. vöruverð og margt fleira, það er óumdeilanlegt. Hins vegar er einnig kostnaður að öðru leyti meiri hér í höfuðborginni.

Byggðanefnd telur ákaflega mikilvægt að fá þetta skoðað og telur raunar að skoðun á þessu sé nokkur grundvöllur að áframhaldandi störfum n. Hún mun leggja áherslu á að skila endanlegu áliti sínu fyrir áramótin n.k. Þetta hefur verið skoðað af n. og raunar reynt að fá þennan samanburð gerðan en því miður hefur það ekki tekist, fjármagn hefur ekki fengist til þess. Þetta er kostnaðarsöm athugun ef einkaaðilar eru fengnir til þess að annast hana. Hins vegar ætti Hagstofa Íslands að geta gert þetta mjög auðveldlega. Slík athugun er í hennar verkahring. Og þar liggur allur grundvöllur og öll þekking fyrir.

Það er einlæg von n. að þessi þáltill. fáist afgreidd nú, þannig að slíkur samanburður geti legið fyrir fljótlega, ekki aðeins, eins og kemur fram í till., vegna endurskoðunar vísitölugrundvallarins, heldur einnig, eins og ég sagði áðan, vegna áframhaldandi starfs nefndarinnar.

Ég hefði að sjálfsögðu getað flutt um þetta langa ræðu og hefði gjarnan viljað rekja þetta mál nokkuð ítarlega, en það vil ég ekki gera nú. Ég met það við hæstv. forseta að fá að koma till. til n., og í þeirri einlægu von, að hv. formaður allshn. vilji koma einu sinni enn í ræðustólinn áður en þingi er slitið, ætla ég að leyfa mér að leggja til að þessari till. verði vísað til allshn.