14.05.1975
Efri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um mikilvægi vegamálanna. Ég hygg að það sé ekki um það deilt að eitt af brýnustu og þýðingarmestu verkefnum, sem almannavaldið hefur við að glíma hér á Íslandi, sé að koma á betri samgöngum. En okkur er sniðinn stakkur eftir vexti í því efni eins og öðrum. Það er sama sagan í þessum efnum og viða í öðrum málum, að það, sem ræður ferðinni, eru fjármagnsmöguleikarnir.

Og þá komum við að því hvaða fjáröflunarleiðir sé eðlilegt að hafa til þess að fjármagna þessar mikilvægu framkvæmdir sem vegagerðin er. Við höfum að stofni til fyrst og fremst byggt á því að skattleggja bilaeigendur í landinu með bensínskatti, gúmmígjaldi og þungaskatti, og enn fremur er gert ráð fyrir því í lögum að árlega sé nokkru fjármagni af fjárl. ríkisins varið í þessu skyni. Ég held að það sé ekki margra kosta völ í þessum efnum og þó að það kunni að mega finna kannske eitthvað að þessum fjáröflunarleiðum þá er mér ekki kunnugt um að það hafi verið bent á aðrar sem séu hagkvæmari eða eðlilegri. En auðvitað hlýtur það alltaf að eiga að vera opið að gera breyt. í þessum efnum ef þær geta orðið til bóta, geta eflt fjáröflun til vegagerðarinnar og gert hana traustari og öruggari.

Fyrir nokkrum árum var farið inn á aðra leið með því að gefa út happdrættisskuldabréf. Það var gert til þess að ljúka ákveðnu verkefni, að leggja veg yfir Skeiðarársand og koma á svokölluðu hringvegarsambandi umhverfis landið. Ég þarf ekki að minna á þetta, en þó minni ég á þetta vegna þess að mér finnst að menn megi ekki missa sjónar af því að þessi fjáröflunarleið var tekin upp í sérstökum tilgangi, við sérstakar aðstæður og til þess að fást við sérstakt verkefni. Og það, sem var sérstakt og einstætt við þessa framkvæmd, var að það var ákveðið að leggja veg þar sem enginn vegur hafði verið áður. Þessi fjáröflunarleið var ekki farin til þess að bæta vegi, sem fyrir voru, eða koma slitlagi á vegi, sem fyrir voru, heldur til þess að leysa úr vanda sem var einstakur í sinni röð.

Það, sem næst skeður í þessu efni varðandi þessa sérstöku fjáröflunarleið til vegagerðar, er það sem skeði í sambandi við Djúpveginn. Það voru einnig sett lög um fjáröflun til Djúpvegarins með happdrættisskuldabréfum ríkissjóðs. Þar stóð einnig sérstaklega á. Þar stóð eins á og um Skeiðarársandinn. Það var enginn vegur fyrir þar sem Djúpvegur átti að leggjast. Þar voru engar samgöngur. Það var til þess gert að bæta úr þessu einstaka tilfelli sem að mínu viti var hliðstætt því tilviki sem um var að ræða þegar þessi leið var farin í sambandi við Skeiðarársandinn.

Þegar frv. til l. um happdrættisskuldabréf ríkissjóðs vegna Djúpvegarins var til umr. á sumarþinginu s.l. sumar hér í þessari hv. d. og 1. umr. fór fram í þessari hv. d. um það frv., sem hér er um fjallað, vék ég að þessum atriðum, sem ég hef nú komið að, til þess að leggja áherslu á að það væri sitt hvað að efna til fjáröflunar með happdrættisskuldabréfum ríkissjóðs þegar um afmörkuð verkefni væri að ræða sérstaks eðlis, eins og Skeiðarársandurinn og Djúpvegurinn, eða fara inn á þá braut að taka upp þessa aðferð til viðtækrar fjáröflunar fyrir vegagerð landsmanna, til þess að bæta vegakerfið og vegi landsins almennt sem vissulega er ekki vanþörf. Mér þykir þessi aðferð, þegar henni er beitt almennt, vera nokkuð varhugaverð og ég sagði það í umr. hér s.l. sumar og í des. s.l. þegar ég, ræddi þessi mál. Ég er enn sömu skoðunar. En ef menn vilja ekki gera stórátök, sem þarf að gera í vegamálum landsins, á annan hátt en með því að grípa til þessarar nýju fjáröflunarleiðar, þá virðist mér úr nokkuð vöndu að ráða fyrir þá sem eru sömu skoðunar og ég, og það hygg ég að séu flestir ef ekki allir hv. þm., að það megi láta einskis ófreistað til þess að efla vegagerð landsmanna. Ég vil því á þessu stigi málsins ekki algjörlega fordæma þessa aðferð, með sérstöku tilliti til þess að ég verð að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj. og ber raunar það traust til hennar að hún haldi vel og skynsamlega á þessum málum ef þetta frv. verður samþ.

Hins vegar tel ég að það sé ekki hægt að samþ. þetta frv. óbreytt. Ef það er hugsunin að taka upp aðferð happdrættisskuldabréfa ríkissjóðs til þess að fjármagna vegagerðina almennt, þá hlýtur að leiða að því að það er ekki hægt að binda þær fjármögnunarleiðir við einstaka hluta landsins. Ef fjáröflunarleiðin er almenn, þá verður að vera hægt að veita því fé, sem fæst með þessu móti, til vegagerðar almennt um allt landið. Það eru engin rök fyrir því að skilja eftir einstaka landshluta, eins og Vestfirði eða Norðausturland, svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir í núverandi mynd sinni eins og það berst hingað til okkar í þessari hv. d. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 718 þar sem lagt er til að því fjármagni, sem inn kemur fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skuli ráðstafað þannig að það renni til greiðslu kostnaðar skv. vegal., þ.e.a.s. að allar tekjur af þessari fjáröflun renni í hinn almenna sjóð, Vegasjóðinn, og verði ráðstafað eftir sömu leiðum og öðru fé sem skv. lögum rennur í Vegasjóð. Þetta þýðir það, að ef till. mín verður samþ., þá eru Vestfirðir og Norðausturland jafnhlutgeng til þessa fjár og aðrir landshlutar. Það er lágmarkskrafa, sem verður að gera, að allir standi jafnt að vígi í þessum efnum vegna þess að um allt land er vangert í þessum efnum.

Mér líkar ekki alls kostar till. á þskj. 469 frá Steingrími Hermannssyni og Inga Tryggvasyni. Þar er ekki gengið afdráttarlaust til verks í breyt. á sama hátt og ég geri með minni brtt. Þar er lagt til að vísu að fjármunir þeir, sem inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skuli renna til Vegasjóðs, en það er tekið fram að þeim skuli varið til að greiða kostnað við gerð hringvegarins og þjóðbrauta sem tengja landshluta þeim vegi. Þetta er að vísu nokkur bót. Ef við tökum t.d. Vestfirðina, þá mundi þetta geta þýtt, ef till. hv. 2. þm. Vestf. væri samþ., að það mætti verja einhverju af þessu fé í vegarspotta frá Borgarfirði og í Gilsfjörð. En það er ekki rétt að breyta frv. á þennan veg. Þetta er ekki nema hálfköruð breyt., fylgir engu „prinsipi“ og hefur þá þýðingu fyrir landshluta eins og t.d. Vestfirði, sem við hv. þm. Steingrímur Hermannsson þekkjum báðir vel, að skv. hans till. kæmi ekkert af þessu fjáraflafé til greina í vegi á Vestfjörðum sjálfum. En skv. minni till. kæmi þetta fé þar að notum einnig. Mér kom því ekki á óvart að hv. þm. Steingrímur Hermannsson skyldi taka það fram, að mér skildist, að hann fylgdi minni till., og ég þykist vita að hann hafi ekki minni áhuga á því en ég að fara hinn rétta veg í þessu efni svo að Vestfirðir sitji við sama borð og aðrir landshlutar. Vona ég af þessum ástæðum og almennum ástæðum, sem ég er búinn að skýra hér og túlka, að till. mín verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í þessu sambandi við þetta mál út í almennar umr. um vegamálin. Það gefst alltaf tækifæri til þess að gera slíkt og því skal ég ekki fjölyrða frekar um málið.