14.05.1975
Efri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4115 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég gat þess, er mál þetta kom fram hér í Ed. í vetur, að ég mundi því aðeins greiða þessu frv. atkv. að því yrði breytt á þá lund að Norðausturland, svæðið frá Vaðlaheiði til Egilsstaða, yrði ekki undanskilið, og hið sama gildir um Vestfirðina.

Nú hefur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson lagt fram brtt. á þá lund að happdrættisfénu fyrirhugaða verði varið til Vegasjóðs. Þessa till. mun ég styðja og mun í félagi við hv. þm. Ragnar Arnalds bera fram viðaukatill. við brtt. Þorv. Garðar Kristjánsson á þá lund að þessu fé verði ekki varið til þess að leggja bundið slitlag á vegi, heldur til þess að byggja upp vegina og gera þá vetrarfæra. Verði brtt. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um að fé þessu verði varið í Vegasjóð þannig að það komi til nytja fyrir alla landsmenn felld mun ég greiða atkv. gegn frv.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði í ræðu sinni áðan að vegamálín ættu að hafa forgang. Undir þetta sjónarmið hans get ég tekið. En að mínu mati vega hin ýmsu atriði í vegagerðinni misþungt. Mín skoðun er sú að t.d. í Norðurlandskjördæmi eystra sé gott vegasamband milli byggðarlaganna og aðalþjónustukjarna þessa landshluta miklu þýðingarmeira en skotvegasamband við Reykjavík.

Ég dreg ekki dul á það að ég er ekki hrifinn af fjáröflunarleiðinni sem hér er mælt með. Mér eru allt of minnisstæð þau missiri fyrir nokkrum árum þegar gerð var hríð að svonefndum okrurum í Reykjavík og einn þeirra a.m.k. dæmdur til tukthúsvistar fyrir að lána fé með 5% vöxtum á mánuði. Það þýddi að sá sem lánaði fékk höfuðstólinn til baka á 18 mánuðum. Fyrir þetta var hann dæmdur til fangelsisvistar samkv. okurlögunum. Kjörin, sem löggjafanum er nú ætlað að bjóða þegnum þessa lands, eru þau að lána fé með þess háttar vöxtum til vegagerðar að okrararnir, sem nú er skírskotað til að lána fé, mundu fá höfuðstólinn til baka á 11 mánuðum. Ég veit að hér er ekki um lögbrot að ræða við þessa lagasetningu, en hlutföllin í siðgæðinu, sem reiknað er með í gömlu okurlögunum, verða nokkurn veginn rétt á milli 5% á mánuði og þeirra kjara sem góðum þegnum þessa lands er nú ætlað að njóta í lánaviðskiptum við hið opinbera.

Ég legg eindregið til að hugað verði að öðrum leiðum til þess að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir en að gera þeim, sem fé hafa aflögu á landi hér, slík gylliboð. Þó mundi þessi fjáröflunarleið ekki koma í veg fyrir það að ég greiddi þessu frv. atkv., ef fólkinu, sem er ætlað að endurgreiða þetta lán, sem er ætlað að greiða þessa okurvexti, væri ætlað að njóta framkvæmdanna sem á að vinna með þessu fé að jöfnu. En svo er ekki. Þau rök, að síðar muni koma að því að vegur verði lagður fyrir atbeina sams konar fjármögnunar á Norðausturlandi og Vestfjörðum, nægja ekki í þessu tilfelli því að ofan á allt annað bætist það við að hér er verið að gera íbúa Norðausturlands, svæðisins frá Vaðlaheiði til Egilsstaða, annars vegar og íbúa Vestfjarða hins vegar, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði, að annars flokks borgurum sem mega bíða. Þá var því svarað til að einhvers staðar yrði svona vegur að byrja og þá var sjálfsagt að vegagerðin byrjaði til beggja átta frá Reykjavík.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan um gildi góðra vega sem einnig eru færir við sæmilegar aðstæður á vetrum og í vorleysingum fyrir byggðarlögin sjálf svo að menn innan héraðs komist hver á annars fund og til þeirra staða þar sem þeir sækja sína þjónustu í daglegri önn. Ég sé ekki að það hljóti að vera alveg ófrávíkjanleg og skýlaus skynsemd í þeirri ákvörðun að leggja slíka vegi endilega út frá Reykjavík. Hví skyldi ekki mega byrja á gerð slíkra vega til beggja handa t.d. út frá Akureyri, fara þá Vaðlaheiði austur um til Egilsstaða og þaðan til Reykjavíkur ef hér á að verða um hringveg að ræða áður en lýkur til nytja fyrir alla landsmenn? Og svo þetta enn, svo að það fari ekki á milli mála, ég mun styðja brtt. Þorv. Garðars Kristjánssonar, hv. þm., með þeim viðauka sem ég gerði grein fyrir áðan, till. sem við Ragnar Arnalds munum flytja á þá lund að þessu fé verði ekki, eins og nú horfir, varið til þess að setja varanlegt slitlag á þessa vegi, heldur til þess að byggja þá þannig upp að þeir megi heita vetrarfærir og komast megi um þá í vorleysingum.