14.05.1975
Neðri deild: 89. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., það er komið fram yfir miðnætti, en þó finnst mér ég verða að segja örfá orð við lok þessarar umr.

Þau rök, sem fram hafa komið gegn frv., eru að mínum dómi mjög lítilvæg. Meginrökin hafa verið þessi: Þetta hefur verið svona og þess vegna á það að vera svona. M.ö.o.: hér er um að ræða hreint afturhaldssjónarmið, að vegna þess að málum hafi verið skipað á vissan hátt undanfarið, þótt um langan tíma sé, þá séu það rök fyrir því að þannig eigi skipan mála að vera í framtíðinni. Þetta eru auðvitað engin rök. Aðstæður breytast, skoðanir manna breytast og þá á að gera breyttar ráðstafanir,

Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á eitt! Ég gæti nefnt mörg dæmi því til skýringar, til rökstuðnings því að þessi afstaða er ekki einungis röng, heldur beinlínis varhugaverð. Ég skal láta nægja tímans vegna að taka aðeins eitt dæmi.

Það hafði tíðkast um langan aldur að engin takmörk væru á því hvaða embættismenn tækju sæti á Alþ., nema hvað sumir dómarar gátu ekki átt þar sæti lögum samkv. Það var orðið mjög algengt að bankastjórar ættu sæti á Alþ. Ég var í hópi þeirra sem töldu slíkt vera mjög óeðlilegt og hreyfði því margoft í þeim ríkisstj., sem ég átti sæti í á árunum 1956–1971 að þetta væri óeðlilegt og bæri að gera einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að stjórnendur banka ættu sæti á Alþ., þau störf færu ekki saman, það færi ekki saman að vera bankastjóri annars vegar og að vera alþm. hins vegar. Þessu sjónarmiði var andmælt harkalega og um það var mjög deilt. Það var greinilega meiri hl. alþm. sem fannst Alþ. setja ofan ef væri verið að leggja þau bönd á alþingismennsku og störf á Alþ. að t.d. bankastjórar ættu ekki að eiga þar sæti. Mér var ljóst að það væri miklum vanda bundið og óeðlilegt að binda slíkt í lögum, en taldi hins vegar að menn ættu að koma sér saman um að þannig skyldi þetta ekki vera. En allt kom fyrir ekki. Það var greinilegur meiri hl. a.m.k. í þáv. stjórnarflokkum fyrir því að þetta skyldi ekki gert.

Eins og kunnugt er eru bankastjórar ríkisbankanna kosnir af bankaráðum, en bankastjórar Seðlabankans eru skipaðir af ráðh. Þegar það kom í minn hlut í eitt skipti að skipa í sæti seðlabankastjóra og um það sótti alþm., þá sagði ég í ríkisstj. að það væri að mínum dómi tvímælalaust hæfasti maðurinn sem til greina kom. En ég sagði: Ég skipa hann ekki nema hann segi af sér þingmennsku. Það gat vel verið að þetta hafi þá verið gegn vilja meiri hl. Alþ. En ég hvarflaði ekki frá þessari skoðun og hlutaðeigandi maður og hlutaðeigandi flokkur varð að gera það upp við sig hvort þeir vildu fá skipunina upp á þessi býti eða ekki. Mér varð ekki haggað í þessu efni. Sá kostur var tekinn að hlutaðeigandi maður, sem er einn af hæfustu mönnum í okkar bankakerfi, sagði af sér þingmennsku og tók að sér stöðu í Seðlabankanum. M.ö.o.: það var mín ákvörðun sem þessu réð á sínum tíma, áreiðanlega gegn vilja meiri hl. Alþ. Hvað finnst mönnum um þetta núna? Nú þykir það sjálfsagt. Það eru liðin ein 7–8 ár síðan og þessi 7–8 ár hafa sannfært næstum alla menn um að þetta var það eina rétta, það gæti ekki farið saman að gegna embætti seðlabankastjóra og sitja á Alþ. Og enn fremur hafa menn síðan komist að því, að það fer ekki heldur saman að vera bankastjóri ríkisbanka né stórs einkabanka og eiga sæti á Alþ., enda er það svo að bankastjórar eru horfnir úr sölum Alþ. og það tel ég vera mjög vel.

Ég nefni þetta eitt sem dæmi um hversu því fer víðs fjarri að hægt sé að beita röksemdafærslu eins og þeirri að af því að eitthvað hafi verið svona um langan tíma, þá hljóti það að verða svona áfram, og einnig hvað menn geta lagt rangan skilning í það í hverju sannur metnaður alþm. á að vera fólginn, í hverju sönn virðing Alþ. er fólgin. (GuðlG: Má ég spyrja, sat ekki bankastjóri á þingi fyrir Alþfl.?) Jú, jú, mikil lifandis ósköp. Það voru allir sammála um að það var ekki hægt að gera það að skyldu um þá menn sem sátu á Alþ. þá. Sú breyting, sem ég beitti mér fyrir, var að skipa ekki menn í slík embætti ef þeir voru alþm. Auðvitað er ekki hægt að víkja þeim mönnum af Alþ. sem eru komnir þangað eftir þeim reglum sem þá giltu, það gefur auga leið. Auk þess er venjulega gerður munur á bankastjórum annars vegar og útibússtjórum hins vegar.

Hin rökin, sem beitt hefur verið, eru að Alþ. setti ofan, að virðing Alþ. minnki ef það afsalaði sér þessu valdi. Hér er um misskilinn metnað að ræða eins og dæmi það, sem ég nefndi áðan, ber líka vott um. Ef Alþ. setur ofan við að ákveða ekki sjálft kjör sín, heldur að hafa launakjör þm. ákveðin af kjaradómi, hvað má þá segja um ráðh.? Er það einhver vanvirða fyrir ráðh. að laun þeirra séu ákveðin af kjaradómi? Og hvað má segja um hæstaréttardómara? Er það einhver vanvirða fyrir þá að laun þeirra séu ákveðin af kjaradómi? Auðvitað ekki. Auðvitað á sama að gilda. Engir tveir starfshópar eru jafnskyldir og vinna jafnlík störf og ráðh. annars vegar og þm. hins vegar. Og því á ekki sama að gilda um þá? Eða dettur nokkrum í hug að það kæmi til mála að láta ráðh. ákveða laun sín sjálfa? Þá till. hef ég aldrei heyrt, enda er hún fráleit. En það er í sjálfu sér jafnfráleitt að alþm. skuli ákveða laun sín sjálfir.

Það, sem mér þótti eiginlega lakast í málflutningi andstæðinga frv., var það, og það kom sérstaklega fram í ræðu hv. 3. þm. Austf., Sverris Hermannssonar, að hann talaði beinlínis með fyrirlitningu um almenningsálitið, það kæmi ekki til mála að gera hluti eins og þessa vegna þess að þá væri verið að hopa fyrir almenningsálitinu. Hann talaði einnig með fyrirlitningu um blaðamannastéttina, um fréttamannastéttina og það mætti enn síður gera þetta vegna þess að núv. skipun hefði verið gagnrýnd af blaðamönnum, af fréttamönnum, og talaði um hræðsluhvatir í því sambandi. Sannleikurinn er sá að þeir þm., sem telja sig hafa efni á að tala með fyrirlitningu um almenningsálitið, þekkja ekki sinn vitjunartíma. Þeir þekkja sannarlega ekki sinn vitjunartíma. Það er einmitt skylda þm., stjórnmálamanna, að taka tillit til almenningsálitsins ef það er heilbrigt. Á því er ekki nokkur vafi, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, hann vitnaði þar í greinar í landsmálablöðum, það er enginn vafi á því hvert almenningsálitið er í þessu máli. Það er skoðun mín að það almenningsálit sé heilbrigt og þess vegna vil ég taka tillit til þess.

Ég vil átelja það að fleiri en einn hv. þm. hafa nefnt nafn tiltekins fréttamanns, Eiðs Guðnasonar, haft uppi gegn honum og málflutningi hans í sjónvarpinu ádeilur. Það á ekki að tíðkast hér á hinu háa Alþ. að nefnd séu nöfn manna utan Alþ. og deilt á störf þeirra þar sem þeir geta auðvitað ekki svarað fyrir sig. En ekki meira um það að þessu sinni til þess að lengja ekki þetta mál.

En þegar ég segi að almenningsáliti í þessu efni sé heilbrigt, þá á ég m.a. við það — og skal aðeins nefna eitt dæmi til þess að stytta mál mitt sem allra mest — að skipan mála, sú sem menn vilja halda í af því að hún hefur verið óbreytt svo afskaplega lengi, er langt frá því að vera gallalaus. Ég skal nefna eitt dæmi um þetta efni. Þfkn. birtir aldrei ákvarðanir sínar.Meira að segja þm. vita ekki almennt hvaða reglur gilda um kjör þm. Þeir vita hver launaflokkurinn er, en að öðru leyti fá þm. enga vitneskju um það hvað þfkn. gerir, þannig að hún gerir hvað eftir annað breytingar á kjörum þm. án þess að þær séu tilkynntar. Þetta er auðvitað ámælisvert í hæsta máta og þetta er ein af ástæðunum fyrir þeirri tortryggni, sem skapast hefur í kringum þetta mál og skaðar Alþ., að því er ég tel ómaklega. Og það er einmitt frá þessu tjóni sem ég vil forða Alþ. og alþm. með því að láta hlutlausan aðila taka þessar ákvarðanir í stað þess að láta þingnefnd gera það sem starfar í laumi, ef ég svo mætti segja, þar eð hún tilkynnir ekki ákvarðanir sínar.

Mér vitanlega er hvergi til á prenti hvaða reglur raunverulega gilda um kaup og kjör alþm. í heild. Það er hvergi til nema í gerðabók þfkn. og þangað verða menn að fara og skoða hana til þess að vita hvaða reglur raunverulega gilda. Þegar menn vita ekki einu sinni hvenær hún heldur fundi, þá er ekki von að menn geti farið og skoðað hverjar reglurnar raunverulega eru. Þetta er ekki að skipan mála sé eins og hún ætti að vera. Það liggur við að ég taki nærri mér nú þurfa að segja þetta, en hjá því verður ekki komist þegar málflutningur er hafður uppi eins og sá sem er hafður uppi af hv. 3. þm. Austf., Sverri Hermannssyni.

Að síðustu vil ég svo segja þetta: Meginrök okkar tveggja flm. fyrir þessu frv. eru þau að 60 alþm. eigi ekki að hafa algera sérstöðu meðal opinberra starfsmanna íslensku þjóðarinnar. En það er alger sérstaða þessa 60 manna hóps að ráða sjálfir kaupi sínu og kjörum. Þá aðstöðu hefur enginn annar hópur í þjóðfélaginu og þeirri aðstöðu eiga hinir 60 alþm. að afsala sér í hendur kjaradóms, þeirrar stofnunar sem ákveður laun fyrir hliðstæð störf og þar á ég fyrst og fremst við ráðherrastörfin.