14.05.1975
Efri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun verða sérlega stuttorður að þessu sinni. Ég ætlaði aðeins að svara hv. 12. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni, nokkrum orðum. Svo vildi til að hann beindi raunar gagnrýni sinni á viðhorf mitt til frv. þess, sem hér liggur frammi, til hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, sem hefur svipuð viðhorf mínum sem þm. Vestfjarða. Það er nefnilega ekkert hégómamál í þessu tilfelli sú staðreynd að vestfirðingum og íbúum Norðausturlands á svæðinu frá Vaðlaheiði til Egilsstaða er ætlað að borga það okurlán, sem hér um ræðir til vegagerðar, til jafns við aðra landsmenn sem þessarar vegagerðar munu njóta. Nú er því ekki að leyna að íbúar þessara landssvæða munu geta klöngrast eins og fyrri daginn um meira og minna torfæra vegi yfir á þær hraðbrautir, sem hér er ráðgert að byggðar verði, þegar þeir þurfa að fara til Reykjavíkur, en í daglegri önn og amstri og flutningum í þessum landshlutum koma þessar vönduðu milljarðabrautir ekki að gagni.

Hugmynd hv. þm. Alberts Guðmundssonar að þeir, sem skuldabréfin keyptu, þeir, sem lánin veittu, fengju að tilnefna þá vegarspotta, sem peningarnir þeirra eru lagðir í, er kannske ekki að öllu leyti fráleit. En það vil ég ætla að það yrði þá tilskilið ef menn fengju þessa heimild að vextirnir yrðu öllu lægri. Ég gæti vel hugsað mér að veita mætti með lögum einstökum þegnum heimild til þess að leggja eigið fé í vegagerð án vaxta og jafnvel án endurgreiðslu, a.m.k. þar sem ekki verða landspjöll af.

Hér er um allt annað að ræða en þetta. Hér er um það að ræða að bjóða svo háa vexti fyrir fé að menn fáist til þess að leggja þessa peninga af mörkum án tillits til notanna, án tillits til framkvæmdanna sem á að standa straum af með þessum peningum. Hér er notuð raunverulega ákaflega ófélagsleg aðferð. Hérna er boðið í peningana og þeir fást með því að boðið sé nógu hátt. Jú, það er ekki að furða þótt þm. úr hinum ýmsu kjördæmum láti sig það mál skipta hvernig almannafé er varið og hvar því er varið til framkvæmda. Þm. eru fulltrúar kjósenda sinna í hinum ýmsu kjördæmum og til þess er ætlast af þeim að þeir komi í veg fyrir það, hafi þeir máttinn til, að gengið sé á rétt umbjóðenda þeirra.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr að ég tel æskilegt að peninga verði aflað á annan hátt en með þessum hætti, með svona tilboði til vegagerðar hér á landi, en fjáröflunaraðferðina léti ég ekki standa í vegi fyrir því að ég greiddi þessu frv. atkv. ef það verður tryggt að engir hlutar landsins, engir af íbúum þessa lands verði settir hjá, endanlega settir hjá við útdeilingu þessa fjár. Ég tel að komið verði í veg fyrir misrétti á þessu sviði með því að samþykkja till. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar með þeim viðauka við þá till. sem er ætlun okkar hv. þm. Ragnars Arnalds að flytja hér. En fáist þessar till. ekki samþ., þá ítreka ég það að ég mun greiða atkv. gegn frv. og kosta öllu til í þokkabót að telja þeim hv. þm. hughvarf sem ákváðu strax í vetur að styðja þetta frv. Sannleikurinn er sá að þegar þetta frv. var lagt fram hér í hv. Alþ. í vetur voru víðhorfin nokkuð önnur en þau eru nú. Ég hygg að það verði ekki notalegt fyrir samþm. mína t.d. í Norðurl. e., eins og nú er búið að vegamálum þar með vegáætlun, að koma heim í kjördæmi sitt, a.m.k. á svæðinu austan Vaðlaheiðar, með það á bakinu að hafa greitt atkv. með frv. þar sem ráðgerðar eru tveggja milljarða kr. fjárveitingar á næstu árum í önnur kjördæmi og það til þess að koma upp hraðbrautum með varanlegu slitlagi.