15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4292 í B-deild Alþingistíðinda. (3525)

347. mál, skýrsla um Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., enda vart tími til mikilla ræðuhalda þegar þinglok standa fyrir dyrum. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það hefur ekki gefist mikið tækifæri til þess að skoða innihald þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir. A. m. k. vænti ég þess að hv. 3. þm. Austf., núv. kommissar annar, fallist á það að ég hafi ekki haft mikinn tíma til þess að kynna mér efni þessarar skýrslu, og svo er sjálfsagt um marga og kannske flesta hv. þm. (Gripið fram í: Alla.) Ekki vildi hann nú meina það, en ég læt ykkur um það.

Það er líka rétt, sem hér hefur komið fram, að hann er minni gusturinn í hv. þm. Sjálfstfl. núna við umr. um þessa skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins heldur en á undanförnum árum. Ég sé að einn af þeim, sem í fararbroddi voru í þeim umr., hv. 1. þm. Sunnl., núv. formaður þeirrar merku stofnunar, er ekki viðstaddur umr. um þessa núv. skýrslu, hvað sem því kann að valda, um það skal ég ekkert segja. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það hér.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson kom í lok ræðu sinnar að því að þeim sjálfstæðismönnum hefði sýnst vera á ferðinni gríðarlegt bákn í yfirstjórn til lands og sjávar, þeim hefði sýnst þetta, en það hefði nú ekki aldeilis orðið sú raunin. Og reyndin varð ekki þessi vegna þess, sagði hann, að viðvaranir okkar höfðu þau áhrif að málum virðist nú vera komið a. m. k. í miklum mun skikkanlegra horf og á þá leið að hv. þm. Sjálfstfl. geta miklu betur við unað nú en áður hefur verið. Ég skil vel þetta sjónarmið hv. 3. þm. Austf., en ég skal ekki ræða frekar um það.

Ég vil þó undirstrika það sem hér kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds vegna ummæla hv. 4. þm. Austf., hins kommissarans, í sambandi við þá miklu aukningu á fjármagni sem hann taldi vera til ráðstöfunar hjá Framkvæmdastofnun og Byggðasjóði, að það vantar einmitt inn í þetta dæmi. Ég skal ekki rengja þær tölur sem hann fór með, ég hef ekki um það neinar glöggar upplýsingar og vil ekki rengja það, a. m. k. ekki að svo stöddu, en það vantar einmitt inn í það dæmi hvað hefur verið bætt á Byggðasjóð og Framkvæmdastofnun sem ekki var þar áður, og það gerir talsvert strik í reikninginn að því er ég hygg.

En þó að ekki hafi gefist mikill tími til að skoða þessi plögg, þá finnst mér allathyglisverðar þær upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu og eru á bls. 22 og varða Vestfirði sérstaklega, þar sem gerð er úttekt á stöðu fólksfjölda á hinum ýmsu stöðum, en þar er komist að þeirri niðurstöðu að á Vestfjörðum einum hafi orðið stöðnun að því er þetta varðar. Og það er sérstaklega undirstrikað að framhald á fólksfækkun á Vestfjörðum í kjölfar áratugareynslu af fækkun í þeim landshluta hljóti að vera sérstakt áhyggjuefni. Og hér er einnig tekið fram að ekki sé hér um að kenna skorti á atvinnutekjum í þessum landshluta. Þetta vil ég biðja hv. þm. að taka til athugunar vegna þess að fram undan er hér afgreiðsla vegáætlunar fyrir næstu 4 árin. Ég vil þess vegna biðja menn að taka eftir þessari niðurstöðu í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins að því er varðar Vestfirði, en þar segir orðrétt:

„Hins vegar kreppa að samgönguleysi og einangrun og er vert að minnast þess í sambandi við þá miklu og nokkuð einhliða áherslu sem nú er lögð á hringvegarframkvæmdir.“

Ég vildi vekja athygli hv. þm. á þessum niðurstöðum í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins, ekki síst með hliðsjón af því að kannske innan örfárra klukkutíma eiga hv. þm. að afgreiða hér í Sþ. vegáætlun fyrir næstu 4 árin. Ég vænti þess að þeir verði, áður en endanleg afstaða verður tekin til þess máls, búnir að kynna sér þessar niðurstöður í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins að því er Vestfirði varðar.