15.05.1975
Efri deild: 94. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur áður verið hér í d. og er reyndar gamall kunningi allt frá því í haust. En frv. þetta er margbrotið nokkuð og ekki allt það sem það sýnist. Ég ræddi einkum um launamálin og um almannatryggingarnar og flutti brtt. varðandi almennan lífeyri og tekjutryggingu við fyrri umr. þessa máls, en ég vil gera hér að umtalsefni 1. gr. frv. enn og mun flytja brtt. við hana, en það er sú gr. sem fjallar um svokallaðar launajöfnunarbætur. Einnig mun ég fjalla sérstaklega um svokallaðan barnalífeyri þar sem ég tel einsýnt að ekki þýði að freista þess að koma fram breytingum á þeim ákvæðum sem snerta ellilífeyri.

Í 1. gr. frv., eins og hún er nú, segir, og ég bið hv. þdm., sem vilja fylgjast með rökstuðningi mínum, að taka vel eftir, en þar segir svo:

„Frá 1. okt. 1974 til 31. maí 1975 og þar til heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hafa samið um annað“ — og svo er lýst síðar í gr. hvað þetta annað er, ég held áfram — „skulu launagreiðendur greiða launajöfnunarbætur í stað almennrar verðlagsuppbótar á laun umfram þá verðlagsuppbót sem svarar til kaupgreiðsluvísitölu 106.18 stig sem hér segir.“

Og síðan er lýst hvað þetta „annað“ sé, þ. e. launajöfnunarbæturnar eins og þær voru samkv. brbl. sem sett voru í sept. á s. l. ári.

Eins og kunnugt er hafa heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins eða öllu heldur einstök verkalýðsfélög á grundvelli samninga, sem heildarsamtökin fóru með, þegar samið um annað en það sem í þessari gr. segir. Er því ljóst að þegar það hefur gerst hefur þessi gr. ekki lengur gildi og þar sem hún tímalega séð fellur úr gildi 31. maí 1975 virðist mér einsýnt að þau ákvæði hennar, sem fjalla um greiðslu kaupgjaldsvísitölu, falli úr gildi nú um næstu mánaðamót því að eftir 31. maí 1975 er sem sagt tíminn liðinn.

Nú kann að vera að einhver vilji bera brigður á þennan skilning, en ég vil þá leyfa mér að færa nokkur frekari rök að þessu. Ég bendi á það í fyrsta lagi að í þessari gr. er hvergi berum orðum bannað að greiða verðlagsuppbætur á laun og það er hvergi sagt að þær skuli ekki greiða. Ég bendi einnig á að það orðalag þessarar gr. var með talsvert öðrum hætti á s. l. hausti því að þá var beinlínis sagt: „Verðlagsuppbót á laun skal haldast óbreytt fram til 31. ágúst 1974, sú sem tók gildi 1. mars 1974 samkv. kjarasamningum.“ Og síðan var nákvæm lýsing á því í 2. gr. frv. hvernig reikna skyldi út kaupgreiðsluvísitölu. Það var sagt að inn í vísitöluna skyldi ekki taka liðinn „eigin bifreið“ og ákveðin niðurgreiðsla sem fram fór á tímabilinu frá 1. mars til 1. júní átti ekki heldur að teljast með.

Eins og ég hef sagt, þá virðist mér á öllu að orðalagið sé það losaralegt á þessari gr. að það yrði ekki túlkað á þann veg að þeir samningar um kaupgreiðsluvísitölu, sem nú eru í gildi, væru niður fallnir. Ég tel því einsýnt að hinn 1. júní komi vísitöluákvæði til framkvæmda hjá öllum þeim sem hafa vísitöluákvæði í samningum sínum.

Nú er það að vísu svo að almennu verkalýðsfélögin sögðu upp samningum sínum á s. l. vetri og hugsanlegt væri að halda því fram að þar með hefðu kaupgreiðsluvísitöluákvæðin frá því á s. l. vetri fallið niður, en síðan hefði verið gerður nýr samningur og hann væri ekki með neinum kaupgreiðsluvísitöluákvæðum. En þetta er þó meira en vafasamt vegna þess að í samningnum er vísað til fyrra samkomulags sem í gildi hafi verið. Ég tel því í öllu falli mikið vafamál hvort ekki sé hægt að líta svo á að jafnvel kjarasamningar almennu verkalýðsfélaganna séu í fullu gildi hvað kaupgreiðsluvísitölu snertir eftir 1. júní n. k. Hitt virðist mér alveg einsýnt, að þar sem samningunum hefur ekki beinlínis verið sagt upp, eins og hjá BSRB og öðrum slíkum aðilum, þar hlýtur kaupgreiðsluvísitalan að vera í gildi.

Ég vil til að auðvelda mönnum skilning á eðli þessa máls rekja gang þess, hvað hefur raunverulega gerst, í stórum dráttum. Og það er ósköp einfaldlega það að brbl. voru upphaflega sett 21. maí og þar var ákveðið að sú verðlagsuppbót, sem tók gildi 1. mars 1974, skyldi haldast óbreytt, en hún var einmitt miðuð við 106.18 stig. Og eins og ég sagði, það skyldi reikna út tvenns konar k-vísitölu, aðra með liðnum bifreið og hina án bifreiðar. Þessi brbl. voru síðan staðfest á Alþ. 22. ágúst 1974. En þessi vísitöluákvæði féllu síðan úr gildi 30. sept. 1974. Þá höfðu verið sett ný brbl., nánar tiltekið 24. sept., og samkv. þeim áttu launajöfnunarbætur að koma í stað almennra verðlagsuppbóta á laun frá 1. okt. til 31. maí 1975, eins og þar stóð. Síðan hefur þessum ákvæðum verið breytt við meðferð Alþ. á málinu og hefur verið skotið inn orðunum „og þar til heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hafa samið um annað“. Eins og ég hef þegar tekið fram, þá hefur nú þegar verið samið um annað en launajöfnunarfrv. ber með sér, og þar af leiðir að ekki þarf lengur að bíða eftir því að heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins semji um neitt annað. Þau hafa þegar samið um annað og sá frestur er því liðinn og að öðru leyti rennur fresturinn út hinn 31. maí 1975.

Þessu til viðbótar er svo rétt að benda á það að heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör fyrir starfsmenn sína. Það gera hin einstöku verkalýðsfélög. Hins vegar var það svo að heildarsamtök verkalýðsfélaganna, þ. e. a. s. samninganefnd Alþýðusambandsins, sáu um gerð rammasamnings í vetur og e. t. v. er þá átt við það með þessu orðalagi.

Ég tel æskilegt að það komi hér fram í umr. að þetta er skilningur minn á þessum lögum og væntanlega skilningur Alþ. á þessum lögum meðan því er ómótmælt. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. forsrh. og ráðh, ríkisstj. geri sér fyllilega grein fyrir þessu. Ég verð að vísu að játa að það, að þeir skuli setja inn þessa setningu, sem hér er komin inn í frv., um heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins, bendir til þess að meiningin hafi verið að reyna að lauma inn í frv. ákvæði sem fæli það í sér að bannið við greiðslu vísitöluuppbóta stæði áfram. En ég sem sagt undirstrika það við þessa umr. að þessi orð duga ekki og ég vil lýsa því yfir, eins og ég hef þegar gert, að það er ótvíræður skilningur minn á þessu ákvæði að það standist ekki sem bann við greiðslu kaupgreiðsluvísitölu og að launþegar eigi því fyllsta rétt á slíkum greiðslum hinn 1. júní, svo fremi að slík ákvæði séu í samningum þeirra. Sé ekki þessi skilningur almennt viðurkenndur er hins vegar einsýnt að upp munu rísa mikil ágreiningsmál og ekki ólíklegt að það yrði þá að leita til dómstóla um úrskurð á þessu losaralega og óljósa ákvæði.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram við þessa umr. en að öðru leyti ætla ég að fara hér nokkrum orðum um það ákvæði frv. sem fjallar um greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Ég er nefnilega að gera mér vonir um að hæstv. ríkisstj. hafi sést yfir eitt atriði varðandi þær breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingalögum og fela í sér tiltölulega litla hækkun á almennum ellilífeyri, en allmiklu meiri hækkun á tekjutryggingu. Mönnum finnst að þetta kunni að vera sanngjarnt vegna þess að það séu ýmsir óverðugir sem fá hinn almenna ellilífeyri, það kunni oft að vera fólk með sæmilegar tekjur og jafnvel á fullum eftirlaunum o. s. frv. og meira máli skipti að tekjutryggingin sé sæmileg. Það er ekki víst að menn hafi gert sér grein fyrir því þegar þeir voru að breyta þessum ákvæðum að með því voru þeir m. a. að ákveða að meðlagsgreiðslur í þjóðfélaginu hækkuðu ekki meira en þessari hækkun nemur, en það voru 9% 1. okt. 1974, 3% 1. des. og svo aftur 9% frá 1. apríl. Almennur ellilífeyrir og þar með meðlagsgreiðslur og barnalífeyrisgreiðslur hefðu átt að hækka um 34% ef þessar greiðslur hefðu fylgt kaupgreiðsluvísitölu, en þær hækka sem sagt ekki nema um 9% og er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi. Ef þessar greiðslur hækkuðu hins vegar í einhverju samræmi við framfærsluvísitölu, þá ætti hækkunin nú að nema yfir 40%. Ég vil sem sagt benda á það, að vegna þess að þessar greiðslur fylgja hækkuninni á hinum almenna ellilífeyri, þá verður hækkunin svona lítil, og ég vil sem sagt spyrjast fyrir um hvort það hafi virkilega verið ætlunin að láta bað standa áfram óbreytt svo að meðlagsgreiðslur og barnalífeyrisgreiðslur hækkuðu aðeins um 9% núna miðað við 1. apríl. Ég bið menn að gæta að því að með þessu er ekki aðeins verið að spara ríkissjóði nokkra milljónatugi eða kannske nokkuð á annað hundrað millj. — ég veit ekki nákvæmlega hvað þarna væri um háa upphæð að ræða — heldur er einnig verið að raska stórlega fjármálalegum viðskiptum t. d. fráskilins fólks ellegar einstæðra foreldra sem hafa framfærslueyri sinn að talsverðu leyti af meðlagsgreiðslum og barnalífeyri, Ég veit sem sagt ekki hvort það var raunverulega meiningin með því að skammta ellilífeyrinn svona smátt og svo aftur tekjutrygginguna eitthvað töluvert ríflegar. Ég veit ekki hvort menn gerðu sér grein fyrir því að þessi stefna hefur talsverðar afleiðingar á fleiri sviðum en hvað snertir lífeyrinn einan. Ég vil segja hæstv. forsrh. það og öðrum hv. þdm. að það er í fyrsta skipti nú, eftir að þessi breyting hefur verið gerð sem útlit er fyrir að verði nú í kvöld, í fyrsta skipti um margra, margra ára skeið að meðlag nægir ekki fyrir dagvistunargjaldi barns. Ég efast um að það hafi gerst í meira en áratug, kannske ekki tvo áratugi. Þetta tel ég sem sagt svo ótrúleg vinnubrögð að ég vil enn freista þess að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. með því að flytja brtt. þess efnis að barnalífeyrir og meðlagsgreiðslur þar með hækki sem nemur þeirri hækkun á framfærsluvísitölu sem orðið hefur á liðum árum.

Ég geri ekki frekari tilraunir til að fá hæstv. ríkisstj. til að fallast á hækkun ellilífeyris eða hækkun tekjutryggingar vegna þess að það mál er þegar fullreynt. En ef ske kynni að þessi smánarlega afgreiðsla á málefnum einstæðra foreldra og á málefnum þeirra sem lífsnauðsynlega þurfa á hæfilegum barnalífeyri að halda, ef þessi afgreiðsla byggist á misskilningi, þá hefur hæstv. ríkisstj. enn tækifæri til þess að leiðrétta það með samþykkt þessarar till.

Till., sem ég flyt, eru þessar:

„1. Við 1. gr. Niður falli úr gr. „og þar til heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hafa samið um annað“.

Ég lít að vísu svo á, eins og ég hef lýst hér yfir, að þessi setning breyti ekki neinu. En til þess að ekki sé neinn vafi á ferðum og til þess að enginn villist á því og ímyndi sér að þessi setning hafi eitthvert gildi þá tel ég rétt að flytja þessa till.

Í öðru lagi flyt ég þá brtt. við 6. gr. að við gr. bætist eftirfarandi setning: „Árlegur lífeyrir með hverju barni skal vera kr. 109 740 frá 1. mars 1975 og breytast síðan ársfjórðungslega í samræmi við vísitölu vöru og þjónustu.“

Þessar till. eru bornar fram sem skrifl. brtt. og þarf væntanlega að leita afbrigða fyrir þeim.