16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (3641)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál allítarlega í gær og skal litlu við það bæta sem ég sagði þar, Ég var þar með ýmsar vangaveltur um þetta mál almennt og ég get svo sannarlega tekið undir margt í máli hv. 5. þm. Austf., ekki síst undir hinn sálfræðilega hluta fyrirlesturs hans sem var um margt mjög merkilegur, og ég segi það ekki í neinu háðsskyni. Hins vegar þykir mér ekki síður vænt um það að hv. 5. þm. Austf., stuðningsmaður þessarar hæstv. ríkisstj., finnur nú orðið sárt til þess hvað mál eru afgreidd hér án gaumgæfilegrar athugunar og hespuð í gegn á stuttum tíma. Höfum við gleggst dæmi þar um í kvöld og var þar ekki um hundruð millj. að ræða, heldur að mig minnir nokkra milljarða sem voru afgreiddir í snarheitum. En það er gott ef menn eru farnir að sjá að þessi vinnuhraði er óeðlilegur, og það er einnig óeðlilegt, ég tek undir það, að mál séu birt í dagskná áður en n, hefur fjallað um þau. En þetta er bara ekki í fyrsta skipti sem það er gert núna síðustu dagana. Þetta er a. m. k. í fjórða eða fimmta tilfellinu sem þetta er gert.

Ég skal svo ekki fara að endurflytja neitt af því sem ég sagði hér í gær. Ég skrifaði undir nál. heilbr.- og trn. og ég gerði það af tvennum ástæðum: Í fyrsta lagi með tilliti til þess að hér virðist nú um einu leiðina að ræða sem bráðabirgðalausn í þessu máli, takmarkaða þó, og í trausti þess að einmitt sá frestur á gildistöku, sem fram hefur fengist, verði notaður til annars tveggja, að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði nýjar tekjur eða létta af honum byrðum til þess að hann geti mætt þessu viðbótarálagi ef þess er talin þörf, einnig að þetta verði skoðað sem bráðabirgðalausn og að því unnið í framhaldi af þessu að allar konur njóti jafnréttis til fæðingarorlofs. Þetta voru þær ástæður sem réðu því, að ég skrifaði undir nál., þar sem ég vildi ekki á það hætta að þetta mál, svo gott sem það er í eðli sinu, dagaði hér uppi eða yrði hreinlega fyrir borð borið. Ég hlýt því að standa við nál. mitt og greiði atkv. á móti dagskrártill., og ég geri það einnig af því að ég treysti einfaldlega ekki þeirri ríkisstj., sem nýlega stóð fyrir að fella þessa lausn sem mér skilst, að dagskrártill. gangi út á, til þess að leysa þetta mál nú í sumar — í öllu því öngþveiti sem hún á þá við að stríða — á þann hátt sem þessi till. gerir ráð fyrir.