02.12.1974
Neðri deild: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

56. mál, Námsgagnastofnun

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Nú á dögum er engan veginn nóg að byggja myndarleg og góð skólahús né heldur að þar starfi vel menntaðir og góðir kennarar. Til þess að ná svo árangri sem óskað er þurfa kennarar að hafa í höndum margvísleg kennslutæki og á síðustu árum hafa orðið gífurlega örar framfarir einmitt á sviði kennslutækja, Í upphafi var um að ræða prentaða bók eða prentað mál eitt, en nú fer kennslan fram með margvíslegum öðrum miðlum, bæði myndrænum og hljóðrænum. Í nútímaskólabókasafni eru ekki aðeins bækur, heldur eru upplýsingar geymdar í öllum þessum tækjum, flokkaðar saman, þannig að unglingar geta lært við það að afla sér upplýsinga og gagna sem þeir vita e.t.v. ekki fyrirfram hvort þeir finna í bók, á myndræmu, kvikmynd eða á annan hátt, eða hvort þeir finna eitthvað um það efni, sem þeir eiga að nema, á mismunandi tækjum.

Hér á landi er til mikið af kennslutækjum í skólunum. Ég býst við að þau skipti að verðmæti tugum milljóna, lauslega áætlað um 60 millj. fyrir 2–3 árum. En það er ákaflega mismunandi hvernig þessi tæki nýtast. Í sumum skólum eru þau notuð vel, og sumir kennarar eru meistarar í því ekki aðeins að nota þessi tæki sjálfir, heldur skilja að eitt hið merkasta við nútímakennslutækni er það hve tækin ern orðin einföld, og þau eru látin meira og meira í hendur nemendanna.

Ég held að það yrði stórt skref í framfaraátt fyrir skólakerfi okkar ef þær þrjár stofnanir sem annast útvegun og framleiðslu kennslutækja, kennslubóka, segulbanda, litskyggna og annars, væru settar undir einn hatt. Það er ekkert vit í því að vera að gefa út kennslubók um eitt, en síðan litskuggamyndir eða kvikmyndir um eitthvað allt annað. Samræmi á að vera í þessu, þannig að ef einhvers konar myndefni eða hljóðefni á segulböndum eða hvort tveggja, t.d. á myndsegulböndum, sem ekki eru til í neinum íslenskum skóla, en breiðast nú víða út um nágrannalönd okkar, ef slíkt hentar, þá á að gefa þetta út saman. Þess vegna eiga þessar stofnanir að starfa saman. Það hafa þegar verið gerðar litlar tilraunir með að gefa út myndsegulbönd sem eiga við ákveðna kennslubók, um leið og hún kemur út.

Ég vil taka fram að það er ákvörðun Alþ. hverju sinni hversu mikið fé er veitt til útgáfu kennslubóka og hvort fylgt verður áfram, eins og ég geri ráð fyrir, þeirri reglu að hér sé Ríkisútgáfa námsbóka. En við erum að því leyti til allt að því einstæðir, þó ekki alveg, að námsbækur eru að langmestu leyti gefnar út af ríkinu. Um önnur kennslutæki er það að segja að skólarnir verða yfirleitt að afla sér þeirra og borga fyrir þau. Er ekkert óeðlilegt við það. Hér verður því ekki eingöngu um aukinn kostnað ríkisins að ræða, heldur starfsemi þar sem tekjur geta komið á móti. Í mörgum tilvikum mun breytingin verða sú, að framleidd verða hér á Íslandi ýmiss konar kennslutæki, keypt af íslenskum skólum, í stað þess að skólarnir kaupa þessi tæki utanlands frá og reyna að notast við þau, þó að textar og talað mál sé oft erlent, en ekki íslenskt.

Ég vil beina athygli hv. þm. að þessu frv. Hér er um mjög merka skipulagsbreytingu að ræða, sem ég tel nauðsynlega til samræmis við aðrar framfarir sem nú verða í okkar skólamálum. Það er of mikið sagt að við íslendingar séum vanþróuð þjóð á sviði kennslutækja, en skólakerfi okkar er ákaflega misþróað og við getum því aðeins bætt úr því að við gerum það átak sem hér er um að ræða.

Hugmyndir hafa komið fram um það, að ef þessar stofnanir yrðu sameinaðar í eina og kæmi ein stjórn yfir þær í staðinn fyrir tvær, sem eru núna, þá ætti að stefna að því að útvega húsnæði fyrir þessa starfsemi á lóð Kennaraháskólans, þannig að í þessum húsakynnum yrði jafnframt kennsla kennaraefna á þessu sviði og þau gætu notað húsakynnin sem tilraunastofu. Ef væri í framtíðinni hægt að koma þessu svo fyrir, þá mundu báðir aðilar, bæði Námsgagnastofnun og sú stofnun sem elur upp kennara fyrir þjóðina, hafa af því mikið gagn.

Ég vil því mæla mjög eindregið með því að þetta frv. verði athugað alvarlega í menntmn. og ekki látið sofa mörg þing áður en það verður að veruleika.