05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er fróðlegt fyrir nýja þm. að sitja hér og hlýða á umr. sem þessar. Sérstaklega er það athyglisvert þegar maður heyrir að þm. eru þátttakendur í fundum þar sem máttur sprengjunnar er boðaður með þeim hætti sem okkur var skýrt frá áðan. En það sem er e.t.v. fróðlegast að kynnast er þegar menn eru að nudda sér utan í alþýðuna utan þingsala og tala um að aðrir sýni hroka. Það vill svo til á Íslandi að menn skiptast ekki í alþýðu eftir því hvar þeir skiptast í flokka. Þetta ættu báðir hv. þm. að vita sem töluðu áðan um að valdamenn og stjórnendur landsins færu að þessu máli með hroka.

Það var mjög athyglisvert að hlýða á ræðu hv. 5. þm. Vesturl. Satt að segja fannst mér framsögn hang og háttalag hér vera hálfgert sambland af minnimáttarkennd og hroka. Það er hörmulegt ef ekki er hægt að ræða mál sem þessi á Alþingi íslendinga án þess að menn þurfi að koma þannig fram. Og það er hörmulegt að þurfa að hlusta á það hér, að menn séu með dylgjur um að það standi til að reka fólk af jörðum sínum með valdi. Ég spyr hv. þm.: Hefur það tíðkast hingað til eða stóð þetta e.t.v. til í tíð fyrrv. iðnrh. þegar hann var að vinna að rannsókn þessa máls? Er það e.t.v. skýringin á því hversu erfiðlega honum gekk að koma þessu máli áleiðis innan Alþb.?

Ég held að enginn af þm., sem styðja núv. ríkisstj. og núv. iðnrh. hafi stutt þær aðgerðir að menn væru hraktir frá eignum sínum, hvort sem það væru jarðir eða húseignir í þéttbýli. En hv. þm. Jónas Árnason og Stefán Jónsson verða að þola það að rætt sé um nýjan iðnað á Íslandi og frumkvöðlar í stóriðju geti jafnvel verið þeirra flokksmenn.

Ég vil aðeins segja það að alþýðan á Íslandi — ég nota það orð — vill framfarir, en ekki úrtölur. Fólkið í landinu vill ekki tóma barnalega rómantík. Lífsbaráttan á Íslandi er raunverulega hörð, en ekki rómantískt hjal nokkurra þm. á Alþingi íslendinga.