10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, þótt ég að vísu saknaði svars við síðari spurningunni, sem ég hafði gert mér vonir um að fá svar við núna, en átti að vísu ekki heimtingu á að fá. Ég fagna yfirlýsingu hans að stofnlína frá Suðurlandi um Vesturland til Norðurlands skuli verða reist og að það liggi fyrir ákvörðun ríkisstj. um það efni, og ég fagna því einnig að svo var á honum að heyra að um byggðalinu yrði að ræða, enda þótt honum líkaði ekki alls kostar nafnið. Ég fagna því að þessi framkvæmd á að hans sögn að komast á svo fljótt sem auðið er. Aftur á móti kemst ég ekki hjá að átelja harðlega þann drátt, sem orðið hefur á því að hæstv. iðnrh. kæmist að þessari niðurstöðu.

Eins og ég tók fram áðan lágu allar staðreyndir þessa máls fyrir í ágústlok. Þá var hönnun verksins lokið og vilji Alþ. lá þá fyrir. Fjármagn hafði verið útvegað, en það stóð bara á því einu að hefjast handa. Síðan er ekki liðinn neinn smátími. Það eru liðnir rúmlega 3 mánuðir: september, október og nóvember. Hæstv. ráðh. segir að það hafi skort á formsatriði hvað snertir framkvæmdaaðila. En þurfti hann virkilega 11 vikur til þess að koma auga á það hvernig leysa mætti þetta formsatriði? Þurfti hann 11 vikur til þess að lyfta penna og setja saman það bréf sem hann loksins ritaði Rafmagnsveitunum upp úr miðjum nóvembermánuði? Nei, ég held það fari ekki milli mála að hér hefur orðið mjög óhæfilegur dráttur, sem getur orðið norðlendingum býsna dýr.

Iðnrh. kvaðst vonast til þess að stofnlínan yrði komin til Varmahlíðar haustið 1976. En æskilegra hefði verið að fá spádóma hans um það hvenær mætti vonast til þess að línan væri komin að laxárvatni og hvort það yrði á vetrinum 1975–76, því að þá verður um verulega erfiðleika að ræða. Ég verð að játa það, að eftir að þessi mikli dráttur hefur orðið á að hæstv. ráðh. tæki á sig rögg og tæki ákvörðun og lyfti pennanum, eru vonir mínar og annarra harla litlar um að raforkuskorti á vetrinum 1975–76 verði bægt frá.

Ég vil að lokum minna á að þessi byggðalína er ekki aðeins spursmál um það að leysa úr raforkuskorti á Norðurlandi sem nú blasir við, og það er fráleitt, eins og ráðh. vildi gera, að meta hagkvæmni þessara framkvæmdar út frá því einu hvað mikil orka verður flutt á kannske einn eða tveimur árum. Bygging þessarar tengilínu er að sjálfsögðu forsenda þess að unnt sé að reisa verulega stóra virkjun á Norðurlandi, og það hefur lengi blasað við að ef ætti að vera unnt að fara í slíka framkvæmd, þá þyrfti að vera möguleiki að leiða þá orku til annarra byggðarlaga sem ekki nýtist á Norðurlandi, og bygging línu af þessu tagi er sem sagt forsenda þess að hyggilegt sé að ráðast af fullum krafti í undirbúning orkuvers á Norðurlandi.

Ég vil taka það fram að lokum að ég tel, enda þótt ég geti ekki rökstutt það frekar á þessum stutta tíma, að flest rök hnígi að því að virkjun, sem næst á eftir Kröflu og Sigöldu, yrði á Norðurlandi. Ég held að t.d. Blönduvirkjun kæmi þar mjög sterklega til greina. Og það er ljóst að byggðalína kæmi þá að mjög góðum notum, þar sem hún gæti flutt væntanlega 50 mw. norður og austur. Sem sagt þetta er undirstrikun þess, að það er rangt hjá hæstv. ráðh. að meta hagkvæmni þessarar línu út frá því einu hvað gagn hún gerir á næstu einu eða tveimur árum, heldur verðum við að horfa lengra fram í tímann og sjá að þessi línubygging er — ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, — en þá sjáum við að bygging þessarar línu er forsenda fyrir því að þriðja stóra virkjunin héðan í frá verði virkjun á Norðurlandi.