10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

71. mál, ellilífeyrisgreiðslur til lífeyrissjóðsfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki of djúpt í ár tekið af þeim, sem hér hafa talað um þetta mál, þegar þeir hafa sagt að hér væri um stórmál að ræða. Hér er um ekki aðeins stórmál í þess orðs merkingu að ræða heldur og slíkt réttlætismál innan félagsmálahliðar þeirrar starfsemi sem fram fer að því er þetta varðar í landinu, að það hlýtur að vera réttlætiskrafa allra þeirra, sem eru innan vébanda hinna almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna að hér sé tekið til hendi og reynt að koma á samræmingu að því er þetta varðar. Það liggur auðvitað í augum uppi að það verður ekki öllu lengur við það búið að þær mörgu þúsundir launþega í hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna, — sem að vísu eru tiltölulega ungir, — þeir beri svo skarðan hlut frá borði í þessum efnum miðað við þá launþega sem eru í hinum opinberu sjóðum.

Það mætti auðvitað margt segja um þetta, en ég tel ekki ástæðu til þess að þessu sinni að fara mörgum orðum þar um. En ég vil aðeins taka fram fyrir mitt leyti að ég tel sjálfsagt og nauðsynlegt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að þessi mál séu skoðuð, en þó verður það að gerast að mínu áliti í mjög nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna í landinu. Þessum málum verður ekki ráðið til lykta, svo að vel sé, án þess að verkalýðshreyfingin verði höfð þar með í ráðum. En það er eigi að síður nauðsynlegt að þetta mál komist sem allra fyrst á dagskrá til þess að eitthvað verði farið að gera til þess að koma þessum málum í höfn. Það er einnig rétt sem hér hefur komið fram að það má búast við því að það taki nokkuð langan tíma að fá þá lausn þessara mála sem menn telja sig geta sæmilega eða vel við unað.

Það voru nefndar hér áðan af 1. flm. og frsm. fyrir þessari þáltill. svo skelfilegar upphæðir að því er varðar mismuninn í þessum efnum, að ég efast um að almennt hafi sjóðsfélagar í hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna gert sér grein fyrir því, hversu hér er um að ræða herfilega mismunun á aðstöðu og réttindum manna eftir því hvaða lífeyrissjóði þeir tilheyra. Og ef það er rétt, sem ég dreg ekkert í efa vegna þess að ég þekki það ekki, sem hv. síðasti ræðumaður upplýsti hér, að vísu eftir ágiskun, að það muni kosta 5–6 milljarða í dag að verðtryggja hina almennu lífeyrissjóði, þá sjá menn í hendi sér hversu herfileg mismunun og óréttlæti það er sem hér er um að ræða að því er varðar þessa sjóðfélaga.

Ég ætla ekki að fara út í frekari umr. um ýmsa þætti og ýmsa hluti sem mætti nefna í þessu sambandi, eins og t.d. hugmyndir manna um einn allsherjar lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. En ég vil aðeins undirstrika það og láta það koma fram af minni hálfu, að ég tel að hér sé um svo mikið nauðsynja-, sanngirnis- og réttlætismál að ræða að það verði vart öllu lengur við það unað að ekki verði hafist handa í þá átt a.m.k. að minnka verulega þennan aðstöðumun sem nú er fyrir hendi. Það kom að vísu, held ég, fram hjá síðasta ræðumanni að í ár gátu hinir almennu lífeyrissjóðir verðtryggt sem svarar um 20% ráðstöfunarfé sjóðanna með kaupum á skuldabréfum, en eftir sem áður eru um 80% sem eru án verðtryggingar. Og það er stór hluti í krónum talið eða réttindum,

Ég vil sem sagt fyrir mitt leyti taka undir það sem hér hefur komið fram. Þetta er svo stórt mál og lífsnauðsynlegt að farið verði að hreyfa því í alvöru, að það er full ástæða til þess að vekja athygli á því hér á Alþ. Ég vil samt sem áður undirstrika það að slíkt mál verður ekki til lykta leitt svo að vel verði nema því aðeins að verkalýðshreyfingin verði höfð með í ráðum.